Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Hetjurnar hentu gullinu í gólfið en mamman elti þau í klefann: Öskraði, niðurlægði og grætti börnin

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Stúlkurnar sem skiluðu gullinu. Tólf ára hetjur, körfuboltasnillingar. Stúlkur og þjálfarateymi sem stóðu á sínu og létu gullið falla í gólfið á verðlaunapallinum vegna þess að þeim þótti glatað að Körfuknattleikssamband Íslands hafði engan áhuga á að hlusta á þeirra drauma. Þær höfðu hópast saman inni í búningsklefa, í spennufalli eftir að hafa mótmælt KKÍ á kröftugan og aðdáunarverðan hátt þar sem ein stúlkan hélt gæsahúðarræðu. Þá mætti eitt foreldrið, kona, og niðurlægði börnin með hrópum, öskrum og niðurlægjandi athugasemdum. Stúlkurnar sem áður höfðu staðið keikar brotnuðu nú saman hver af annari og grétu.

En margt átti eftir að gerast eftir þetta og fram að þessu örlagaríka augnabliki höfðu þessar stúlkur tekist á við mikið mótlæti.

Þær héldu um gullið með annarri hendi og lyfti gullinu hátt á loft. Ísold hafði beðið um orðið og þrumuræða hennar ómaði um íþróttasalinn. Hún þagnaði og það mátti heyra saumnál detta. Þessi unga stúlka hóf upp raust sína aftur. Enginn frá sambandinu hafði áhuga á að hlusta og því var niðurstaðan einföld. Þær, allt liðið, hafði þá engan áhuga á að þiggja gull frá KKÍ.

Síðan féll hvert gullið á fætur öðru í gólfið og liðið yfirgaf sviðið. Þetta kemur fram í magnaðri heimildarmynd sem sýnd er í opinni dagskrá í kvöld í Sjónvarpi Símans. Árið 2015 var körfuboltaflokkur fyrir stelpur stofnaður á Íslandi. Þær voru þjálfaðar eins og leiðtogar utan vallar og afrekskonur innan vallar. Þær settu sér snemma það markmið að keppa ávallt við þá bestu og voru sigursælar í drengja- og stúlknamótum. Þetta er ein ótrúleg saga, af mögnuðu stúlknaliði sem tókust á við ótrúlegt mótlæti til að elta drauma sína og fylgja réttlætiskennd sinni. Þetta voru stúlkur á aldrinum átta til 13 ára og markmið þeirra var að breyta viðmiðum í kvennakörfu á Íslandi.

- Auglýsing -

Þjálfari þeirra var Brynjar Karl Sigurðsson og ásamt öðrum í teyminu varð til harðsnúið og frábært körfuboltalið. Brynjar Karl er afar umdeildur þjálfari, hataður en elskaður. Stúlknaliðið hafði ítrekað óskað eftir að fá að keppa við drengi í sama aldursflokki en alltaf var svar KKÍ neitun. Mótlætið var mikið en þær neituðu að gefast upp.

Vorið 2019 sauð síðan upp úr. Stúlkurnar sem léku undir merkjum ÍR í minnibolta stúlkna höfðu unnið úrslitaleik á Íslandsmótinu sem fram fór á Akureyri. Liðið gekk uppá verðlaunapallinn og tók við medalíunni og yfirleitt vilja allir landa gullinu.

Nú var mælirinn hjá stelpunum fullur. Þegar búið var að hengja medalíur um háls þeirra allra og afhenda bikar bað ein stúlkan um orðið. Hún sagði:

- Auglýsing -

„Í tvö ár höfuð við beðið KKÍ um leyfi til þess að spila við strákana. Vegna þess að við trúum því að það sé gott fyrir körfubolta á Íslandi. Okkur finnst svo glatað að KKÍ hafi engan áhuga á að tala við okkur eða leyfa okkur að spila við strákana. Þess vegna höfum við engan áhuga á að taka á móti verðlaunum frá KKÍ. Fyrir okkur, að spila körfubolta, er svo miklu meira en að vinna titla.“

Þær höfðu sagt sitt. Skilaboðin voru skýr. Þær gengu stoltar inn í búningsklefa og hrósuðu hver annarri fyrir að hafa haft kjark til að mótmæla. Þær voru rétt að byrja að ná sér eftir spennufallið þegar kona, eitt foreldranna strunsaði inn í búningsklefann og hélt reiðilestur yfir liðinu. Í heimildarmyndinni má heyra öskur konunnar og hún hrópar á börnin í mikilli geðshræringu:

„Þetta var hræðilegt. Maður vinnur ekki sína slagi ekki með vanvirðingu. Ég vildi að ég gæti verið stolt af þér. Þetta er í fyrsta skipti allan tímann sem ég er ekki stolt af þér. Mér finnst það hræðileg tiltinning. Það er ekki í lagi að þið séuð að vanvirða fullorðið fólk. Sem eru með reglur og reglugerðir.“

Þá birtist Brynjar Karl þjálfari og bað konuna um að hætta. Þá hafði Ísold, stúlkan sem hélt ræðuna, brotnað saman og farið að gráta. Um atvikið segir ein stúlkan um þessa uppákomu:

„Við sitjum þarna allar með tár í augunum og leiðar. Það hræðilegasta við þetta var að það voru foreldrar .“ Önnur úr liðinu segir í myndinni:

Mér fannst Það sem við vorum að reyna að segja er að stelpur eru jafn góðar og strákar

Brynjar Karl líkir viðbrögðunum við ofbeldi.

Blaðamaður fjallaði um á sínum tíma þegar stelpurnar sendu frá sér bréf til foreldranna en uppákoman á verðlaunapallinum hafði farið þveröfugt ofan í suma foreldrana. Vildu þær lægja öldurnar og eins útskýra fyrir foreldrunum að það hefðu verið þær en ekki Brynjar sem áttu hugmyndina að mótmæla KKÍ með þessum hætti. Í bréfinu stóð m.a:

„Kæru foreldrar. Við stelpurnar áttum hugmyndina um að ekki taka við verðlaununum. Þetta var ekki Brynjari að kenna og okkur líður vel saman og elskum Brynjar. Þið getið ekki tekið okkur í sundur. Okkur finnst óréttlátt að þið takið dætur ykkar úr íþróttinni sem þær elska mest.“

 

Dæmi voru um að foreldrar vildu taka börn sín úr liðinu. Í bréfinu sagði einnig:

„Kannski fórum við yfir strikið en nú vitum við hvar línan er. Markmið okkar er að breyta heiminum og þá þarf maður að fara yfir strikið. Við getum ekki breytt heiminum einar án Brynjars.“

Hér hefur aðeins verið rakið lítið brot af ótrúlegri sögu þessa stúlknaliðs. Liðið var skipað mögnuðum karakterum sem börðust til síðasta manns. Heimildarmyndin Hækkum rána er engri lýk. Í henni eru sorgir, sigrar og mikil dramatík.

Leikstjórinn Guðjón Ragnarsson og Margrét Jónasdóttir framleiðandi hjá Saga film hafa unnið þrekvirki og þau munu neyðast til að fylgja myndinni um víða veröld og án efa sanka að sér verðlaunum. Þá kæmi það ekki á óvart ef tilkynnt yrði á næstu mánuðum að leikstjóri úti í hinum stóra heimi hefði tryggt sér réttinn til að kvikmynda leikna bíómynd.

Margrét segir um tilurð myndarinnar: Árið 2017 kom til mín hingað í Sagafilm ungur leikstjóri Guðjón Ragnarsson, með hugmynd að heimildamynd. Hann hafði þá í hálft annað ár fylgst með kornungum körfuboltastúlkum feta sín fyrstu skref á vellinum. Okkur leist mjög vel á verkið en héldum í fyrstu að um væri að ræða al-íslenska mynd sem ætti ekki endilega erindi út fyrir landsteinana. En þegar við kynntumst verkefninu nánar, sáum við að það var ekki rétt. Valdefling stúlkna, stúlkur og íþróttir og almenn þátttaka barna í málefnum sem þau varðar eru leiðarstefin í þessu verki. Þau eru alþjóðleg.

Nú hafa Íslendingar kost á að sjá þessa mögnuðu mynd frítt í kvöld í sjónvarpi Símans og hefst myndin klukkan 20:35.

Hækkum rána er mynd um réttindabaráttu ungra stúlkna frá átta ára til þrettán ára. Þær vilja breyta heiminum og með aðstoð Brynjars og allra annarra í teyminu hækkuðu þau sífellt rána.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -