2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hinir ofurríku aldrei haft það betra

Ójöfnuður í heiminum er orðinn stjórnlaus þar sem 26 einstaklingar eiga orðið meiri eignir en helmingur fátækustu jarðarbúa. Þeir ofurríku verða sífellt ríkari og sölsa undir sig eignir á meðan hinir fátækustu dragast aftur úr. Þessi aukni ójöfnuður veldur því meðal annars að æ fleiri andlýðræðislegir þjóðarleiðtogar komast til valda.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu bresku samtakanna Oxfam um ójöfnuð í heiminum. Skýrslan er gefin út ár hvert í aðdraganda ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss, þar sem helstu áhrifamenn heims koma saman til að ræða helstu viðfangsefni alþjóðamála hverju sinni.

Í skýrslunni er það rakið hvernig aukinn ójöfnuður hafi eitrað stjórnmál margra landa. Í löndum eins og Brasilíu, Bandaríkjunum, Filippseyjum og víða í Evrópu hafi komist til valda menn sem berjast gegn lýðræðisumbótum og málfrelsi. Í stað þess að minnka bilið milli ríkra og fátækra beini þessir menn spjótum sínum að innflytjendum, minnihlutahópum, konum, öðrum þjóðum og fátækum. Á það er bent að í þeim löndum þar sem ójöfnuður er mikill ríki minna traust í garð stofnana og samborgara og glæpatíðni er hærri. Tengsl eru á milli ójöfnuðar annars vegar og streitu og minni lífshamingju hins vegar. Þá hefur ójöfnuður mikil áhrif á lífslíkur. Þannig mega þeir sem búa í fátækustu hverfum Lundúna búast við að lifa að jafnaði sex árum skemur en íbúar í ríkasta hluta borgarinnar. Í Sao Paolo í Brasilíu er munurinn allt að 25 ár.

Skýrsluhöfundar beina þremur tilmælum til ríkisstjórna heimsins. Í fyrsta lagi að tryggja öllum íbúum ókeypis grunnþjónustu – heilsugæslu, menntun og aðra almannaþjónustu. Hætta verði að einkavæða almannaþjónustu og tryggja öllum eftirlaun, barnabætur og aðra félagslega vernd. Sérstaklega þurfi að tryggja að þessi þjónusta nýtist konum og stúlkum. Í öðru lagi að létta byrðinni af konum sem vinna fjölda ólaunaðra vinnustunda á heimilinu á hverjum degi. Þetta sé hægt að gera með því að fjárfesta í innviðum eins og vatnsveitu, raforkukerfi og barnagæslu. Í þriðja og síðasta lagi leggur skýrslan til sanngjarnari skattheimtu þar sem hætt verði að moka undir auðuga einstaklinga og stórfyrirtæki sem undanfarna áratugi hafa notið sífellt minni skattbyrði. Þá verði að koma í veg fyrir stórfelld skattaundanskot þessara sömu hópa.

AUGLÝSING


Góðæri milljarðamæringanna

Í skýrslunni er rakið að þau 10 ár sem liðin eru frá fjármálakreppunni hafi verið auðmönnum einstaklega hagstæð því fjöldi milljarðamæringa á þessu tímabili hafi tvöfaldast. Bara í fyrra hafi eignir milljarðamæringa aukist um 900 milljarða dollara, eða um 2 og hálfan milljarð á dag. Á sama tíma hafi auður fátækari helmings mannkyns, 3,8 milljarða manna, dregist saman um 11 prósent. Auðurinn heldur áfram að safnast á fárra hendur. Þannig áttu 26 ríkustu einstaklingar jarðar samanlagt meiri eignir en fátækari helmingurinn. Sem dæmi myndi 1 prósent af eignum Jeff Bezos, eiganda Amazon og ríkasta manns heims, duga fyrir árlegum útgjöldum Eþíópíu þar sem 105 milljónir manna búa.

Milljarðar búa við fátækt

Á hinum enda auðlegðarskalans er þróunin bæði jákvæð og neikvæð. Eitt mesta afrek síðustu ára er að tekist hefur að lyfta milljónum manna upp úr sárafátækt, eins og hún er skilgreind af Alþjóðabankanum (þeir sem lifa á 1,90 dollurum eða minna á dag). Aftur á móti eru vísbendingar um að hægt hafi á þróuninni og að sárafátækt hafi aukist í sunnanverðri Afríku. Þá þéna 3,4 milljarðar manna undir 5,50 dollurum á dag sem eru fátæktarviðmið Alþjóðabankans fyrir millitekjulönd í efra þrepi. 262 milljónir barna hafa ekki aðgang að menntun og árlega deyja 10 þúsund manns vegna þess að þau hafa ekki aðgang að heilsugæslu.

Álögur á hina ofurríku fara hríðlækkandi

Eitt mesta óréttlætið, að mati skýrsluhöfunda, felst í því hvernig hinir ríku eru látnir bera sífellt minni byrðar í skattheimtu. Er fullyrt að skattbyrði á ríkustu einstaklingana og stórfyrirtæki hafi ekki verið lægri í áratugi. Þannig hafi tekjuskattsprósentan á þá ríkustu farið hríðlækkandi rétt eins og fyrirtækjaskattur og fjármagnstekjuskattur og erfðafjárskattur annaðhvort afnuminn eða hverfandi. Sem dæmi hafi tekjuskattur á hæsta tekjuhópinn í ríkustu löndum heims verið að meðaltali 62 prósent árið 1970 en fallið niður í 38 prósent árið 2013. Í þróunarlöndunum er meðaltalið 28 prósent. Í sumum löndum, svo sem Brasilíu og Bretlandi, borga fátækustu 10 prósentin hærra hlutfall launa sinna í skatt en ríkustu 10 prósentin. Þá er áætlað að skattaundanskot stórfyrirtækja og hinna ofurríku kosti þróunarríki um 170 milljarða dollara á ári.

Umdeild aðferðafræði

Þrátt fyrir að skýrsla Oxfam veki alla jafna mikla athygli, þá hefur aðferðafræðin á bak við hana verið harðlega gagnrýnd. Oxfam byggir samantekt sína á nettóeignum fólks, það er að allar eignir, svo sem fasteignir og hlutabréf eru tekin saman og frá þeirri upphæð eru skuldir dregnar frá. Tekjur eru ekki teknar með í reikninginn. Gallinn við þessa aðferðafræði er sú að nýútskrifaður sérfræðingur frá Harvard, sem jafnvel er með umtalsverðar tekjur en há námslán á bakinu, er samkvæmt þessum útreikningum í verri stöðu en manneskja í sunnanverðri Afríku sem er með nánast engar tekjur en skuldar þó ekki neitt. Talsmenn Oxfam segja að þrátt fyrir þessa annmarka sé heildarmyndin skýr.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is