Hinn grunaði á langan sakaferil að baki á Íslandi

Deila

- Auglýsing -

Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið Gísla Þór Þórarinssyni að bana á að baki langan sakaferil hér á landi. Hann hefur meðal annars verið dæmdur fyrir nauðgun, rán og líkamsárásir.

Sakaferill mannsins var rakinn í hádegisfréttum RÚV og hann nafngreindur. Mun maðurinn, Gunnar Jóhann Gunnarsson, hafa fyrst hlotið dóm árið 1999 fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, þjófnað og vopnalagabrot. Þremur árum síðar er Gunnar Jóhann, þá 19 ára gamall, dæmdur í 22 mánaða fangelsi ásamt öðrum manni fyrir að nauðga 16 ára stúlku. Síðan þá hefur hann verið dæmdur fyrir tvær stórfelldar líkamsárásir, frelsissviptingu og rán.

Þeir Gunnar Jóhann og Gísli Þór voru hálfbræður og voru þeir báðir búsettir í Mehamn í Noregi þar sem þeir störfuðu í sjávarútvegi. Fram hefur komið að Gunnar Jóhann hafi í aðdraganda morðsins ítrekað haft í hótunum við Gísla Þór og var hann dæmdur í nálgunarbann vegna þessa um miðjan apríl.

Ákvörðun um gæsluvarðahald yfir Gunnari Jóhanni og meintum vitorðsmanni, sem einnig er íslenskur, verður tekin fyrir norskum dómstólum í kvöld.

- Advertisement -

Athugasemdir