Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Hjalti í Vantrú skólar séra Sindra í guðfræði: „Jesú var duglegur að beita fólk trúarlegu ofbeldi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vantrú, sem er félag trúleysingja, blandar sér í umræðuna um orð Davíðs Þórs Jónssonar sóknarprests í Laugarneskirkju í garð stjórnmálamanna vegna sölunnar á hlut í Íslandsbanka með grein á heimasíðu sinni, vantru.is.

Séra Davíð Þór Jónsson

En meðal þess sem Davíð sagði er þetta:

„Þinglið og ráðherr­ar VG eru ekki leng­ur bara meðsek um glæpi þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar gegn mannúð og góðu siðferði, þau eru ein­fald­lega sek eins og synd­in. Það er sér­stak­ur staður í hel­víti fyr­ir fólk sem sel­ur sál sína fyr­ir völd og vegtyll­ur.“

|
Agnes M. Sigurðardóttir biskup

Vegna þessara orða Davíðs Þórs sá Agnes M. Sigurðardóttir biskup, ástæðu til að veita Davíð Þór áminningu í starfi, og hefur sú ákvörðun fallið í frekar grýttan jarðveg. En það er annað mál.

En nú um greinina sem Vantrú birti á heimasíðu sinni og er eftir Hjalta Rúnar Ómarsson.

- Auglýsing -

„Vegna nýlegra ummæla prestsins Davíðs Þórs Jónssonar, þar sem hann sagði sérstakan stað vera tilb úinn ákveðnu stjórnmálafólki, hefur helvíti komið aftur upp í umræðuna. Af því tilefni skrifaði annar prestur, Sindri Geir, (Sindri Geir Óskarsson sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri) grein þar sem hann kemur með vafasamar fullyrðingar um helvíti,“ ritar Hjalti Rúnar Ómarsson félagi í Vantrú undir yfirskriftinni Helvítið hans Jesú og bætir við:

„Gyðingar trúðu upphaflega ekki á tilvist helvítis. Þess vegna er hvergi á það minnst í eldri ritum biblíunnar. Það var ekki fyrr en nokkru fyrir tíma Jesú að margir gyðingar fóru að trúa á einhvers konar stað þar sem vondu fólki yrði refsað í eldi við heimsendi. Oft er talið að þetta séu áhrif frá trúarbrögðum Persa. Þetta sést í þeim bókum sem var bætt í nýju Biblíuþýðingunni, sem eru yngri en Gamla testamentið. í Júdítarbók er til dæmis sagt að á dómsdegi mun Jahve senda „eld og orma í líkama“ hinna fordæmdu og þeir munu „veina af af kvöl um eilífð“ (16.17).“

Bætir við að „gyðingarit frá þeim tíma sem kristni varð til fjalla líka um þennan stað; til dæmis 1. Enoksbók, sum Dauðahafshandritanna og 4. Makkabeabók [1].

- Auglýsing -

Gyðingurinn og sagnaritarinn Jósefus, sem skrifaði á 1. öld, talaði um að farísear trúðu því að í jörðinni yrði eilíft fangelsi þar sem hinum illu yrði refsað, og að annar trúflokkur Gyðingar, Essenar, trúði því sama og líkti því við hugmyndir Grikkja um kvalarstaði í undirheimunum.“

Jesús

Og þá kemur að Jesú sjálfum:

„Þegar Jesús talar um helvíti, sem hann segir að sé eilífur eldur sem líkömum fólks verður kastað í af englum á dómsdegi, þá er hann að öllum líkindum að tala um þetta. Svona hugmyndir eru síðan ríkjandi í ritum kirkjufeðranna, fyrstu kristnu höfundanna sem við höfum rit frá. Sem dæmi þá segja Tertúllíanus og Klemens frá Alexandríu að helvíti ætti ekki að vera framandi hugmynd fyrir heiðna Grikki, þar sem Grikkir trúðu því að það væri eldfljót í þeim hluta Hadesar, undirheimsins, þar sem mjög illt fólk endaði.[2]“

Hann segir að „Jesús og kirkjufeðurnir voru fornaldarmenn, og þeir trúðu ýmsu sem okkur nútímamönnum þykir fáránlegt og jafnvel ógeðslegt. Helvíti sem eldsdíki þar sem sumt fólk myndi þurfa að dúsa í er einfaldlega ein þessara fornaldarhugmynda,“ og bætir svo við að „Sindri Geir, eins og margir kristnir sem trúa ekki á helvíti, vill ekki eigna Jesú eða Biblíunni hugmyndir um helvíti; hann vill tileinka ítalska rithöfundinum Dante það að við séum kunnug þessum hugmyndum; staður vítisloga og refsingar sem við lærum um í gegnum bíómyndir og dægurmenningu á rætur sínar í skáldskap Dantes en ekki Biblíunni.“

Eitt af fjöldamörgum málverkum sem byggja á helvítinu hans Dante

Hjalti Rúnar færir það í tal að „staðreyndin er að staður vítisloga og refsinga á rætur sínar í gyðingdómi fornaldar og fór þaðan til kristni. Að helvíti væri staður vítisloga og refsinga er alls ekki uppfinning Dante, né eitthvað sem hann gerði vinsælt. Þetta var almenn trú á hans tíma og hafði verið í þúsund ár. Jafnvel bókmenntaform Infernos Dantes á sér hliðstæðu í frumkristni: Opinberunarbók Péturs. Það er rit frá 2. öld þar sem Pétur fær að sjá Helvíti og hinar ýmsu refsingar sem fólk mun eiga í vændum þar. Ritið var svo vinsælt að það var meira að segja talið hluti af Nýja Testamentinu af sumu kristnu fólki.“

Hann kemur inn á það að „næst segir Sindri Geir að helvíti hafi verið tilbúningur „kirkjunnar“ í kringum árið 500, en að það hafi ekki verið „hluti af boðskap kirkjunnar fyrstu árhundruðin en þegar rómarkirkjan varð valdhafi þurfti hún stjórnunartæki, og það trúarlega ofbeldi að þykjast hafa sálarheill fólk í hendi sinni.“

Justinus píslarvottur
(100 -165)

„Þetta er einfaldlega rangt,“ segir Hjalti Rúnar og bendir á að „þá töluðu kirkjufeðurnir um helvíti löngu áður en kristni varð að nokkurs konar ríkistrúarbrögðum. Sem dæmi sagði Jústínus píslarvottur (eins og nafnið gefur til kynna þá var kristni ekki valdhafi á þessum tíma – hann var tekinn af lífi fyrir trú sína á 2. öld) að helvíti væri „staður þar sem þeim sem hafa lifað illa og hafa ekki trúað því sem guð kenndi í gegnum Jesú að yrði verður refsað“ (kafli 19).

Sindri Geir vill auk þess alls ekki kannast við það að Jesús hafi boðað nokkurs konar helvíti í ætt við það helvíti sem ætla mætti af sögulegu samhengi Jesú. Hann segir að Jesús hafi ekki verið að vísa til „einhvers veruleika í eftirlífinu, heldur til þeirrar manngerðu þjáningar sem við sköpum í lífi samferðafólksins dag hvern.“

Og Hjalti Rúnar bætir þessu við orð sín:

„Til að byrja með passar þessi hugmynd um helvíti sem einhvers konar almennt „slæmt ástand í lífinu núna“ engan veginn við það hvernig orðið var notað af samtímamönnum hans. Auk þess passar hugmyndin ekki við það hvernig Jesús talar um helvíti í guðspjöllunum. Jesús segir að helvíti sé staður þar sem guðinn hans kastar fólki í eftir að það deyr (Lúk 12.5-6). Jesús segir á öðrum stað að „við endi veraldar“ muni hann senda engla sína og safna öllum þeim sem ranglæti fremja og kasta þeim í eldsofninn (Matt 13.40-42).

Málverk af hinum fjórum reiðmönnum dómsdags

Á öðrum stað fjallar hann um dómsdag; þar sem mannkynið mun standa frammi fyrir guði og þar verður mannkyninu skipt í tvennt: Annars vegar til eilífs lífs, og hins vegar „í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans“ sem hann kallar svo „eilífa refsingu“ (Matt 25.31-46).“

Samkvæmt orðum Hjalta Rúnars „talar Jesús svo beinlínis um að „líkömum“ fólks verður kastað í helvíti (Matt 5.30). Þetta passar engan veginn við helvíti sem eitthvað í líkingu við „slæmir hlutir í lífinu“ – en passar fullkomlega við ríkjandi hugmyndir á þessum tíma um helvíti sem kvalastað elds þar sem illu fólki yrði refsað á dómsdegi.

Það er því hreinn hugarburður að segja að Jesús hafi verið að tala um helvíti sem „manngerðu þjáningar sem við sköpum í lífi samferðafólksins dag hvern.“

Og líka þetta:

„Sindri Geir reynir samt að útskýra þetta eldtal Jesú, og segir réttilega að eitt gríska orðið sem oft er þýtt í íslensku sem „helvíti“ (gríska geenna, Gehenna) – hafi upphaflega vísað til dals fyrir utan Jerúsalem. Það er rétt. En Sindri Geir bætir síðan við því að á „dögum Jesú voru þar logandi ruslahaugar þangað sem líkum þeirra sem stóðu á jaðri samfélagsins var varpað og þau brennd.“ Þetta er útbreidd helgisögn og raunin er að elsta heimildin um að Gehenna hafi verið brennandi ruslahaugur er frá 13. öld. Rétt fyrir tíma Dante. Þetta er í riti fransks rabbína, Kimhi nokkurs. Það er ekki einn einasti stafkrókur um þessa hugmynd fyrir þann tíma og engar fornleifar sem styðja þetta. Þetta er tilbúningur nánast frá síðmiðöldum.“

Hjalti Rúnar segir að „loks vill Sindri ekki að Þjóðkirkjan beiti fólki því „trúarlegu ofbeldi“ sem felst í trú á helvíti. Það er vel hægt að vera sammála því. En það er stór galli á þessari hugmynd Sindra Geirs: Jesú var duglegur að beita fólki svona trúarlegu ofbeldi. Jesús hótaði þeim trúarleiðtogum sem voru ósammála honum með helvíti:

„Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?“ (Matt 23.33).

Einnig að „Jesús hótaði meira að segja heilu borgunum með helvíti og sagði að Sódóma myndi vegna betur á dómsdegi en þeim (Matt 11.22-24). Jesús sagði að ef maður fyrirgefði fólki ekki þá myndi guðinn hans ekki heldur fyrirgefa fólki heldur senda það í helvíti, sem hann líkti við því að vera hent í dýflissu til að verða pyntaður (Matt 18.34-35).“

Spyr einnig:

„Af hverju ætti Þjóðkirkjan ekki að beita þessu „trúarlega ofbeldi“ þegar Jesús sjálfur gerði það? Það er auðvitað fínt að Sindri Geir trúi ekki á helvíti, að minnsta kosti að hann sé búinn að útvatna það í eitthvað sem enginn í frumkristni myndi kannast við. En hann ætti samt að gera það án þess að mistúlka sögu kristninnar og texta Nýja Testamentisins. Gyðingar og kristnir menn í fornöld trúðu á helvíti – og í guðspjöllunum er sagt að fornaldarmaðurinn Jesús hafi boðað trú á helvíti.

Ef Sindri Geir vill afneita helvíti ætti hann bara að segja að hann sé ósammála þessum textum í staðinn fyrir að reyna að troða nútímaskilningi sínum á fólk sem hefði ekki haft hugmynd um hvað hann er að tala um.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -