Hjartnæmt lag Hófíar hrífur í hjartastað: „Þú ert það fegursta sem ég hef á ævinni séð“

Deila

- Auglýsing -

Hófí Samúelsdóttir gaf nýlega út lagið Ókomin ár, en nýfædd systurdóttir hennar var innblástur lags og texta.

„Þann 3. febrúar 2015 eignaðist systir mín sitt fyrsta barn. Ég man þegar Arnar minn hélt á Regínu litlu nýfæddri og sagði: „Hún er það allra fallegasta sem ég hef séð!“ Hjartað mitt stækkaði klárlega þennan dag og varð nokkrum dögum síðar innblástur lags og texta,“ segir Hófí.

Lagið Ókomin ár varð til á örfáum mínútum og fyrstu tvö textaerindin í kjölfarið og sungu Hófí og Arnar, sem þá voru kærustupar, lagið saman í nafnaveislu Regínu, dóttur Grétu, systur Hófíar og manns hennar, William Óðins Lefever.

„Daginn fyrir nafnaveislu Regínu var ég að syngja raddir í Söngvakeppni Sjónvarpsins og hafði því verið voðalega upptekin og ekkert aðstoðað við undirbúning veislunnar. Á sunnudagsmorgni vakna ég að sjálfsögðu með samviskubit og settist þá við píanóið. Lagið Ókomin ár varð til á örfáum mínútum og textinn (fyrstu tvö erindi) kom hratt í kjölfarið Við Arnar sungum lagið í veislunni sama dag.“

Arnar og Guðrún Árný syngja lagið Ókomin ár

Einu og hálfu ári seinna giftu Hófí og Arnar sig í júlí 2016. Segir Hófí að hana hafi langað til að koma honum á óvart í athöfninni en vissi að hann yrði ferlega svekktur ef hún myndi semja lag fyrir annan en hann að syngja. Fór Hófí því til Guðrúnar Árný Karlsdóttur söngkonu, spilaði fyrir hana lagið og hreifst Guðrún Árný af því um leið.

„Ég lofaði henni laginu ef hún myndi syngja það í brúðkaupinu okkar og taka það svo upp með Arnari. Lagið söng hún dásamlega ásamt Edgari Smára þegar ég gekk inn kirkjugólfið. Þarna áttaði ég mig á því hvað lagið passaði fullkomlega í brúðkaupsathöfn og að textinn ætti ekki síður við þar.“

Hófí bætti síðan þriðja erindinu við lagið, sem nú er loksins komið út fyrir alla til að njóta.

Guðrún Árný Karlsdóttir og Arnar Jóns, eiginmaður Hófíar syngja. Unnur Birna Bassadóttir spilar á fiðlu og Ásmundur Jóhannsson sá um hljóðblöndun.

- Advertisement -

Athugasemdir