Hjörleifur Hallgrímsson lífeyrisþegi segir nýlega afskræmingu Þjóðkirkjunnar á Jesú ófyrirgefanlega. Ekki aðeins eigi biskup að skila hempu sinni vegna málsins heldur sé Agnes heppin að búa í friðsælu landi án blóðútshellinga.
Þetta ritar Hjörleifur í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Þar fer hann í upphafi yfir fallegar minningar sínar í kirkjunni. „Ég hef verið 8-9 ára gamall þegar ég byrjaði að sækja sunnudagaskóla í Akureyrarkirkju hjá séra Pétri heitnum Sigurgeirssyni, þeim ágæta manni. Þar sem ég sat fremstur í einum kirkjubekknum var ég gerður að svokölluðum bekkjarstjóra, sem fól í sér að halda ró í bekknum og einnig að útdeila biblíumyndum til krakkanna, en þetta voru myndir af Jesú Kristi, lærisveinum hans og fleirum. Mér fannst þá, sem ungum dreng, mikil upphefð í því að mér skyldi vera falið þetta embætti enda lagði ég mig mikið fram og hef æ síðan haldið minni sterku barnstrú sem orðið hefur enn sterkari með aldrinum,“ segir Hjörleifur og bætir við:
„Strax í æsku var ímynd mín af frelsaranum Jesú Kristi nákvæmlega eins og biblíumyndirnar sýndu hann – góðlegur karlmaður með sítt hár og skegg, fríður sýnum með glaðlegt andlit sem geislar af – og er greypt í huga minn.“
„Þvílík smán og ógeðslegheit.“
Síðar á lífsleiðinni glímdi Hjörleifur við áfengissýki en það var trúin og frelsarinn Jesú sem bjargaði honum frá syndum. „Svo er mál með vexti að ég datt í það að drekka áfengi í ótæpilegu magni um 30 ára skeið og var það sem kallað er túramaður, átti fjölskyldu, konu og þrjár dætur, konuna á ég ekki lengur en dætrunum held ég. Þrátt fyrir drykkjuskap minn komst fjölskyldan bærilega af en það bjargaðist vegna þess að ég rak mitt eigið fyrirtæki. En nú var komið nóg og eftir dvöl á Vogi oftar en einu sinni án árangurs bauð meðferðarfulltrúi minn, góð kona, Fríða Proppé, mér að koma mér í framhaldsmeðferð í Vík á Kjalarnesi og þáði ég það. Það skipti sköpum, því á Vík var og er kannski enn lítil kapella sem ég tileinkaði mér og heimsótti og átti ágætar kyrrðarstundir með frelsara mínum Jesú Kristi, ímyndinni af biblíumyndunum frá sunnudagaskólanum í Akureyrarkirkju. Síðan eru liðin nær 26 ár og hef ég ekki látið áfengi inn fyrir mínar varir síðan og því má bæta við að ég hætti neyslu tóbaks tveimur árum síðar,“ segir Hjörleifur.

Fyrir nokkru segir Hjörleifur að váleg tíðindi hafi borist þegar kirkjunnar þjónar, með Agnesi biskup í broddi fylkingar, hafi staðið fyrir afskræmingu mynda af frelsaranum Jesú. Það segir lífeyrisþeginn ófyrirgefanlegt. „Myndum sem áttu að tákna frelsarann og voru í líki stelpugopa með konubrjóst, málaðar varir og kinnalit. Þessari afskræmingu var ætlað að höfða til barna og allt í boði Agnesar biskups! Þvílík smán og ógeðslegheit og ekki nóg með það, heldur var skrípamyndinni klesst á strætisvagn sem ók með þennan ófögnuð um borgina, trúlega í boði borgarstjórans, Dags B. Mér var ekki skemmt og varð hugsað til biblíumyndanna frá bernskuárum mínum,“ segir Hjörleifur sem skilur ekki að fullorðð fólk, prestlært og kirkjunnar þjónar, skuli leyfa sér þetta guðlast.
„Það sem verra er; biskupinn yfir Íslandi er þar í fararbroddi. Þó er þarna fólk nafngreint sem ég og fleiri hafa alla tíð haft lítið álit á enda kemur það berlega í ljós núna að því er ekki sjálfrátt og ef Agnes biskup væri einhver manneskja myndi hún skila hempunni með hraði. Þetta fólk fólk er heppið að búa í sæmilega friðsömu landi án blóðsúthellinga, því minnast má á drápin í Danmörku sem múslímar frömdu vegna skopmynda af Múhameð spámanni í blaði þar og þá þyrfti enginn að kemba hærurnar.“