Hlaupakonan Caster Semenya tapaði málinu

Deila

- Auglýsing -

Suður-afrísku hlaupakonan Caster Semenya tapaði máli gegn Alþjóða frjálsíþróttasambandinu í dag.

Suður-afrísku hlaupakonan Caster Semenya hefur undanfarið barist fyrir því að geta hlaupið án þess að vera neydd til að gangast undir lyfjagjöf til að bæla niður testósterónmagn líkamans.

Caster freistaði þess að fá nýjum reglum Alþjóða frjálsíþróttasambandsins hnekkt en reglurnar kveða á um að sambandið geti farið fram á að konur með óeðlilega hátt testósterónmagn bæli niður testósterónið með lyfjum til að geta keppt í kvennaflokki í hlaupum frá 400 metrum og upp í eina mílu.

Mál Caster var tekið fyrir hjá CAS, Alþjóða íþróttadómstólnum, í Sviss í dag og tapaði hún málinu. Það þýðir að Alþjóða frjálsíþróttasambandið getur farið fram á að Caster og fleiri gangist undir lyfjagjöf til að bæla niður magn testósteróns.

„Fröken Semenya berst nú fyrir rétti sínum að geta hlaupið án þess að vera neydd til þess að gangast undir óþarfa lyfjagjöf – hún berst fyrir því að geta hlaupið áfram frjáls,“ sagði í yfirlýsingu lögmanna Semenya sem send var út í febrúar.

Sjálf sagði Caster að nýju reglurnar væru óréttlátar.

Caster komst í kastljósið árið 2009 þegar henni var gert að gangast undir kynjapróf til þess að skera úr um kyn hennar. „Það er enginn vafi á því að fröken Semenya sé kona,“ er meðal þess sem fram kom í yfirlýsingu lögmanna Semenya í febrúar.

- Advertisement -

Athugasemdir