Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Hlauparar jákvætt fólk

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Dásamleg náttúra í „bakgarðinum“ sem ég vissi ekkert um.“

Anna Sigríður Arnardóttir hafði aldrei hlaupið á ævinni þegar hún fór á nýliðanámskeið hjá Hlaupahópi FH en hún hafði tekið mataræðið í gegn nokkrum árum áður og var að leita að hentugri hreyfingu. Þrátt fyrir að komast vart milli ljósastaura til að byrja með féll hún fyrir hlaupunum og hefur með eljusemi og vinnu náð gríðarlegum framförum. Hún hefur nú meðal annars hlaupið tvö maraþon og Laugaveginn.

Anna Sigríður Arnardóttir féll fyrir náttúruhlaupum.

„Haustið 2011 var nýliðanámskeið í Hlaupahópi FH og vinkona mín spurði mig hvort ég kæmi ekki með henni á námskeiðið. Ég þurfti að hugsa mig mjög vel um, var spennt fyrir þessu en þorði ekki, enda hafði ég aldrei hlaupið á ævinni, ekki einu sinni þegar við áttum að hlaupa í íþróttum í grunnskólanum. Þegar námskeiðið var hálfnað fékk ég loksins kjark til að mæta á æfingu. Þann 20. nóvember 2011 mætti ég í kulda og snjó á mína fyrstu æfingu í þykkri úlpu og passaði því alls ekki inn í hópinn. Úlpan var fljót að fjúka þegar ég fór af stað en ég hafði enga þekkingu á því hvernig ætti að klæða mig á hlaupum,“ segir Anna Sigríður sem er viðskiptafræðingur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkissins og nemandi í Ferðamálaskólanum í Kópavogi. Nokkrum árum áður hafði hún lést um 30 kíló eftir að hún breytti mataræði sínu. „Á þeim tíma hreyfði ég mig ekkert og borðaði bara það sem mér fannst gott og eitthvað sem einfalt var að elda. Við maðurinn minn áttum djúpsteikingarpott og við notuðum hann mjög reglulega. Við átum sælgæti í miklu óhófi og drukkum gosdrykki í öll mál. Ég var búin að reyna marga matarkúra sem féllu alltaf um sjálfa sig eftir nokkrar vikur.“

Hlaupin hjálpa mér til að halda góðri andlegri heilsu
Það sem Önnu finnst svo heillandi við hlaupin er útiveran og félagsskapurinn. Hún segir að mikilvægt sé að gera styrktaræfingar líka til að koma í veg fyrir meiðsli og hefur hún meðal annars stundað stöðvaþjálfun í Hress til að styrkja sig. Náttúruhlaupin hafa svo verið að koma sterk inn að undanförnu. „Áhuginn á að hlaupa í náttúrinni byrjaði vorið 2014 þegar ég fór á námskeið hjá Náttúruhlaupahópnum sem byggist á að haupa á ýmsum stöðum í náttúrunni í kringum höfuðborgarsvæðið. Ég féll alveg fyrir þessum hlaupastíl; þarna upplifði ég allt í senn, hlaupin, útiveruna, félagsskapinn og síðast en ekki síst, þessa yndislegu náttúru sem við erum með í „bakgarðinum“ okkar og ég vissi ekki af. Ég bara elska að hlaupa á stígum, innan um trén, blómin, fjöllin og jafnvel fram hjá lækjum og fossum. Þetta var ég búin að fara á mis við öll þessi ár. Það er eitthvað ólýsanlegt við hlaupin, bæði vellíðanin eftir æfingar, endorfínið á fullu og allt fólkið sem ég er búin að kynnast. Ég hef bara ekki enn þá hitt leiðinlegan hlaupara, það eru allir svo jákvæðir og með gott viðhorf til lífsins. Stundum hef ég verið að glíma við erfiðar aðstæður í lífinu, bæði álag heima og í starfi. Þá hafa hlaupin hjálpað mér til að halda góðri andlegri heilsu, enda segi ég að hreyfing sé allra meina bót,“ segir Anna Sigríður.

Texti / Ragnhildur Aðalsteindóttir
Mynd / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -