Föstudagur 29. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Hlöðver flúði þyrlu dönsku landhelgsigæslunnar á Dohnrbanka: „Spennufallið var svo rosalegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hlöðver Haraldsson er oft kenndur við Hólmadrang þar sem hann var skipstjóri en Hólmadrangur var annar af fyrstu frystitogurunum sem Íslendingar eignuðust.

„Það var gaman að fara á nýtt skip; hann var tiltölulega nýr þá. Þetta átti eiginlega ekki að ganga; hann var einhvern veginn í loftinu. Kvótinn var lítill en samt fór maður. Og það gekk vel,“ segir Hlöðver í viðtali við Reyni Traustason.

Svo var það rækjan og var farið á Dorhnbankann sem er miðlínan milli Íslands og Grænlands.

„Það gekk á ýmsu. Við Steini (Þorsteinn Ingason sem var stór eigandi í Hólmadrangi) vorum sammála um að línan væri ekki á réttum stað. Það var ekki mikil veiði. Steini sagði að við yrðum að gera eitthvað í þessu og hann spurði hvað við ættum að gera. Ég sagði að þetta endaði með því að við yrðum teknir og ég settur í steininn.

Þannig að ef varðskipið kæmi þá gæti maður slakað þessu út.

Við fórum inn fyrir línuna og vorum með 2000 metra togvír á spilunum þannig að við tókum vírinn í sundur á 1000 metrum þannig að ef varðskipið kæmi þá gæti maður slakað þessu út. Við vorum með tvö troll og svo vorum við tilbúnir með varahlera.“

- Auglýsing -

Það var hins vegar þyrla sem nálgaðist Hólmatind. „Þá var það spurningin hvað ætti að gera svo þeir kæmust ekki um borð þannig að við stöguðum allt skipið; settum stög frá mastrinu og alveg fram úr og svo aftur úr þannig að það var ekki nokkur leið að koma niður manni.“

Í ljós kom að þyrlan lét mann síga um borð í annað íslenskt skip á svæðinu.

„Ég var bara 10-15 mílum austar; innar. Mér leið alltaf best að vera innstur.“

- Auglýsing -

Næst Grænlandi.

„Því þeir komu alltaf sunnan að og frá línunni.“

Sögðu að ísjakinn væri að koma og væri á mikilli ferð.

Hlöðver segist hafa verið í góðu sambandi við skipstjórana á finnska togaranum Finlandia, sem var með veiðileyfi fyrir innan línuna, og svo grænlenska togaranum Tasiilaq. „Þeir kölluð á mig og sögðu að ísjakinn væri að koma og væri á mikilli ferð.“ Þarna var átt við varðskip.

„Þá var náttúrlega híft. Það voru tvö til þrjú tonn af rækju í og maður tímdi ekkert að henda rækjunni sem var stór.“

Gullmolar.

„Ég treysti bara á guð og lukkuna og við unnum rækjuna og strákarnir vissu ekkert hvað var að gerast. Það var ekkert kastað aftur en keyrt á fullri ferð. Svo sá ég þá koma og ég átti 14-15 mílur eftir í miðlínuna. Ég sá að þá átti að taka mig næst. Þeir voru komnir töluvert nálægt og sáu öll stögin og hann var að biðja mig um að stoppa. Ég sagði að það væri ekki til umræðu og hann var alltaf að kalla. Ég fór út á brúarvæng en ég hafði ekki taugar til að vera inni í brúnni. Þetta er lengsta sigling sem ég hef farið í á ævinni; þessar 12 mílur. Þetta voru eins og 12 dagar.“

Þú slappst út fyrir línuna.

„Hann fylgdi mér extra tvær til þrjár mílur og svo sneri hann við. Þá fékk maður áfall. Spennufallið var svo rosalegt. Við vorum með 60-70 tonn af rækju um borð,“ segir Hlöðver.

Útgerðarstjórinn var búinn að lofa honum því að ef hann yrði tekinn þá yrði barist fyrir því að það yrði viðurkennt að línan væri á röngum stað.

Maður bauð ísnum birginn.

„Já, og borga sektina. Þetta róaði allt hugann þannig að maður var nógu kaldur til að gera þetta. Svo var það að komast þangað út af ísnum. Maður var alltaf að fara suður eftir, suður undir Víkurálinn. Hann var farinn að gliðna. Svo fór maður norður eftir og þá lenti maður alltaf í honum þéttum. Maður var orðinn svo vanur þessu að maður bauð ísnum birginn.“

Varstu þá ekki að skemma dallinn?

„Nei, hann var rosalega sterkur. Hólmadrangurinn var breiður að framan og hann var rosalega góður að eiga við í ísnum. Stundum var það þannig að maður átti sér enga von. Þá beið maður bara þangað til þetta lagaðist.“

Þangað til ísinn gliðnaði.

„Það kom tvisvar fyrir að við vorum innan um Grænlendinga, rétt norður við þá, og svo gliðnaði ísinn noður eftir og ég hugsaði með mér að það væri best að fara norður. Og þangað fór ég þangað til ég var alveg stopp í ís. Og þá fann ég lænu pakkaða af rækju. Lengst norður af. Og ég lét skipstjórann á Tasiilaq vita og hann fyllti síðan nokkra túra, karlinn. En við vorum ekki nógu hraustir til að vera þarna.“

 

Hemingway

Hlöðver er frá Stykkishólmi.

„Þetta byrjaði á bryggjunni í Stykkishólmi. Afi minn, fósturafi minn, var skipstjóri og ég vissi alveg hvernig væri að fiska og vissi af hverju hann fiskaði. Pabbi var rafvirki og hann vildi alltaf að ég yrði rafvirki. Hann var alltaf að tala um að það væri ekkert vit í því að fara út á sjó. Málið var að ég var alltaf hjá afa og fylgjast með því hvað hann var að gera. Ég bað pabba oft um pening en hann sagðist vera blankur og þá fór ég til afa og bað hann um 10, 20 eða 30 kall og það var ekkert mál; en ég varð alltaf að vinna fyrir því. Hann var að beita og var á grásleppunni.

Maður fór með honum á sjó og lærði mikið af honum.

Svo kom að því að maður fór að spá í hlutina; framhaldið. Hvað maður ætti að gera. Ég var með eitt á hreinu en það var að það þýddi ekkert að vera rafvirki því þeir voru alltaf blankir. Þá var ekkert annað en að fara bara á sjóinn. Þannig byrjaði þetta með kallinum; maður fór með honum á sjó og lærði mikið af honum. Það var tunglið og þá var stórstreymt. Smástreymt. Þrjá daga fyrir tungl. Þrjá daga eftir tungl. Ef það var að norðaustan þá fór hann á ákveðinn stað. Hann hataði vestanáttina; þá fór hann ekkert á sjó, karlinn. Og maður tók eftir þessu. Hann var allta að spá í hlutina.“

Svo fóru þeir á skak.

„Ég fór með honum á handfæri og þá byrjaði ballið. Gúmmíið á krókunum mátti ekki vera skakkt og krókurinn ekki ryðgaður. Hann var alltaf að kenna mér hvernig ætti að narra fiskana á krókana. Svo var þetta stundum þannig að hann setti mér takmark og ég varð að draga 100 fiska yfir daginn. Og þeir urðu að vera 40 sentímetra langir og stærri. Stundum voru þeir 39 sentímetrar og þá hálsbraut ég þá og teygði aðeins úr þeim til að þeir næðu 40 sentímetrum.“

Hlöðvar segir frá fleiri reglum sem afi hans hafði í huga. „Eins og á grásleppunni; hann fór alltaf þegar var fjara til að tékka á hvernig þarinn lá og sandlænurnar inni í þaranum. Svo voru það netin; það mátti ekki vera þang í hnútunum. Þetta var allt upp á að narra fiskinn í veiðarfærin.“

Þetta er svolítið eins og karl í sögu eftir Hemingway.

„Já, maður lærði mikið af kallinum.“

Hann var fiskinn.

„Hann var hörku fiskimaður.“

 

Sviðahausarnir í sjónum

Svo varð Hlöðver sjómaður að atvinnu. Frændur hans áttu bát í Ólafsvík og þar var hann með þeim á vertíð á netum, snurvoð og trolli.

„Ég lærði náttúrlega helling af þeim. Svo keyptu þeir stærri bát og við voru á vertíð um veturinn á netum og svo var farið á troll um sumarið og það var ráðinn togaraskipstjóri, Haukur Hallvarðsson. Ég var stýrimaður. Hann var hörku kall og ég lærði mikið af honum. Þá fórum við á trollið og þá byrjaði netavinnan.“

Þarna var Hlöðvar búinn að fara í Stýrimannaskólann. Svo tók hann fljótlega flugið sem skipstjóri.

„Ég ætlaði mér nú aldrei að verða skipstjóri. Það var ekki takmarkið. Ég var búinn að kynnast ýmsu; ég var búinn að fara með skipstjórum sem maður hugsaði með sér hvers konar rosalegu hörkukarlar þetta væru. Það sem skeði er að það kom togaraverkfall; allir togararnir sigldu inn í Reykjavíkurhöfn og karlinn var togaraskipstjóri og kom í land til að taka þátt í verkfallinu.“

Á bátnum.

„Já. Þá var enginn skipstjóri og ég varð að taka við og var ekki einu sinni búinn með fullan tíma sem stýrimaður. En við fengum undanþágu. Þetta tókst mjög vel og við fylltum bátinn og fórum í siglingu til Belgíu. Þá kom karlinn; þá var verkfallið búið.“

Og ferillinn var hafinn.

Og ég kenndi sviðunum um.

Hlöðver talar um hjátrú afa síns.

„Kallinn, afi, var búinn að kenna mér að trúa á hitt og þetta. Ég missti einu sinni trollið á sunnudegi; engin festa. Ég tók eftir einu en það var að það voru svið í matinn í hádeginu. Einhvern tímann seinna voru aftur svið í matinn og þá fékk ég grjót í pokann og og missti hann í trollinu. Og ég kenndi sviðunum um. Þannig að þá kom hjátrúin og þá bannaði ég svið.“ Einu sinni um borð í einhverju skipanna átti að vera svið í matinn. Og Hlöðver sagði kokkinum að henda þeim í sjóinn. „Ég hjálpaði honum að vera öruggur með að hver einasti haus færi í sjóinn.“

Hjátrúin tengdist ýmsu.

„Mánudagur var ekki besti staðurinn til að byrja með nýja hlera eða nýtt troll.“

 

Smugan

Hlöðver fór í Smuguna.

„Það var eitt ævintýrið, Smugan. Steini hringdi og sagði að það væri hægt að fara í Smuguna.“

Það er fjögurra sólarhringa sigling eða meira.

„Já, maður var búinn að vera þarna í nokkra daga og maður lét flottrollið fara þótt maður eiginlega mætti það ekki. Norðmaðurinn vildi ekki að það væri gert og lét vita af því.“

30 dagar í Smugunni.

Voru menn ekki þá að verða klikkaðir?

„Jú, við vorum orðnir þreyttir. Svo kom í mann að fara norður eftir og sjá hvort maður fyndi ekki ísinn.

Við sigldum í 12-14 tíma norður eftir þar til við vorum komnir í ískrap og svo þegar við vorum komnir svolítið í krapið þá sá maður að botninn var farinn að ganga upp sums staðar. Hvíta línan brotnaði og svo gekk botninn upp.“

Bara fiskur.

Allar stýringar í vélunum brotnuðu.

„Við köstuðum og drógum upp og fengum 10-15 tonn. Svo var það náttúrlega græðgin; kasta aftur. Og það var híft aftur. Við voru með pokana á dekkinu og svo kom vélstjórinn og sagði að það væri ekki hægt að vinna fiskinn af því að hann væri frosinn.“

Það var hörkugaddur.

„Hörkufrost og krap þarna. Allar stýringar í vélunum brotnuðu. Og við urðum að bíða og þíða þetta og byrja upp á nýtt næsta dag.

Það var veitt í 10 daga og þá vorum við að verða olíulausir. Það endaði með því að við vorum þarna þrír; Siglfirðingur, Stakfellið og við. Við vorum að verða olíulausir og olíuskipð fann ekki Hólmadrang. Það trúði ekki að við væru svona norðarlega. Svo gátum við komið þeim í skilning um að við væru alveg nyrst og svo kom hann og við vorum á síðasta degi með olíuna.“

Maður hefði kannski átt að verða læknir.

Einn skipverjinn slasaðist þegar var verið að taka olíuna en spotti lenti á nefinu á honum.

„Nefið á honum opnaðist. Það er eiginlega með því versta sem ég hef lent í. Það var ekkert hægt að gera. Ég varð að græja þetta; sauma þetta. Ég hafði saumað nokkra áður sem var bara lítilræði miðað við þetta. Þetta var hraustur strákur sem bjargaði því. Það var reynt að fá þyrluna til að koma en við vorum svo langt í burtu frá eyju þar sem hægt var að taka olíu og birgðir og fengum að vita að hún gæti komið eftir tvo til þrjá daga og að þeir hefðu bara 10 mínútur til að hífa manninn upp. Það gekk sem betur fer og hann fór til Noregs og þetta greri allt.“

Þú hefur saumað nefið vel.

„Já, það var bara vel gert. Maður hefði kannski átt að verða læknir.“

Hlöðver hætti svo.

„Þetta var komið nóg. Þetta var að ganga frá manni.“

 

Barfluga

Til eru mið sem eru kölluð nöfnum sem eru frá Hlöðveri komin. Hann segir að „flugbarinn“ sé vinsælast.

„Hugurinn ber mann stundum hálfa leið. Það var þannig að ég átti vinkonu í Sviss og skrapp ég þangað í landlegum. Þegar maður var búinn að bóka miðann fór sjálfstýringin í suðurátt og það var bara togað í suður. Við fengum ekki mikið í fyrstu tveimur hollunum. Það er barð þarna; þeir kalla það í dag Hlöllabarð. Við fiskuðum ágætlega þar; það voru sjö til átta tonn í hali. Og svo var það búið. Og þá var haldið áfram suður eftir. Það er mikill fjallgarður þarna sem liggur í austur og vestur og við toguðum þangað til við vorum fastir. Það var hellings lúða í. Á dýptarmælunum lítur fjallgarðinum út eins og bar. Svo voru félagarnir að spyrja hvar ég væri og sagðist ég vera á leiðinni suður eftir; á barnum.“

70-80%

Hlöðver hefur búið um árabil í Suður-Afríku eða í 22 ár en hann hefur unnið þar hjá útgerðinni Irvin & Johnson Ltd. Hann segir að þegar hann byrjaði þar hafi hann fengið mikla aðstoð frá Hampiðjuni og nefnir troll sem hann hafi séð um að yrðu flutt til Suður-Afríku

„Ég var skipstjóri hjá þeim í byrjun og fór svo í land sem ráðgjafi og skipstjóri í landi en þá ráðleggur maður þeim í sambandi við öll veiðarfæri og hjálpar þeim að fiska og ég fór mjög oft út með þeim; sýndi þeim hvernig á að fiska á okkar íslenska máta með krafti og öllu því sem því fylgir.“

Núna sér hann um 10 skip.

Það er búið að búa til skipstjóra sem eru mjög góðir í dag.

Hlöðver er spurður hvort aðskilnaður sé enn við líði.

„Þetta er orðin meiri einstefna núna. Þessir lituðu, þessir dökku, eru komnir svo mikið inn núna. Þegar ég byrjaði þá voru þeir kannski 20-30% en núna þurfum við að vera með 70-80% og ef það er ekki þá missum við hluta af kvótanum. Líka ef við höfum ekki viðskipti við veiðarfærafyrirtækin sem eru viðurkennd á þessu businessplani sem við erum með en þau missa ákveðin réttindi og eru bara sektuð ef þau eru ekki með þetta hlutfall í lagi.“

Er þetta ekki frekar jákvætt?

„Ég myndi segja að þetta væri mjög jákvætt fyrir þetta fólk. En það er náttúrlega skortur á menntun þarna. Þetta er ekkert auðvelt. Þetta er fólk sem er að koma úr byggðum þar sem skólarnir eru lélegir og ekkert að hafa en þetta er mjög duglegt fólk. Það vill vinna, það vill standa sig og það þarf bara að hjálpa því, leiðrétta og fara rétt að því. Það er búið að búa til skipstjóra sem eru mjög góðir í dag.“

Rosalegt kikk

Hlöðver segist vera orðinn hálfur Suður-Afríkani. „Ég er stundum farinn að hugsa eins og þeir; taka því bara rólega dag frá degi og vera ekkert að æsa sig yfir hlutunum.“

 

Hann segir að þegar hann flutti til Suður-Afríku hafi hann gert sér grein fyrir því hvað öryggið skipti miklu máli og býr hann á stað þar sem allt er lokað og þar sem öryggisgæsla er góð. „Það er fylgst með öllu.“

Hver er hættan?

„Hættan er náttúrlega alltaf fyrir hendi að það sé brotist inn. Það er mikið um að þeir séu að fylgja fólki heim að húsunum. Þetta er bara Afríka. Hún er svona.“

Hlöðver er ekkert á leiðinni til Íslands til að búa.

„Þegar maður er kominn á þennan aldur þá skiptir veðrið svo miklu máli; að geta farið út að labba, labbað á ströndinni, spilað golf, farið upp í fjöll og gert það sem manni langar til. Og ef manni leiðist Höfðaborg þá er eitthvað að manni. Ég var meira að segja kominn í kappakstur; átti Lotus 7. Og var í kappakstri í tvö ár.“

Var það ekki kikk?

„Það var rosalegt kikk.“

Hægt er að horfa á viðtalið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -