Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Horfnu milljarðarnir hennar Sonju – Frændinn á Núpum grunaður um svikaslóð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ekkert hefur enn fengist uppgefið um sjóð sem stofna átti fyrir 18 árum til styrktar langveikum börnum á Íslandi og í Bandaríkjunum. Sjóðurinn varð til við andlát auðkonunnar Sonju Zorrilla og áttu allar eignir hennar að undanskildum lágum upphæðum sem systrabörn hennar fengu. Leitt var að því líkum að eignir Sonju hafi numið 10 milljörðum króna um síðustu aldamót.

Sá sem fór með forræði eignanna og átti að stofna minningarsjóðinn er Guðmundur A. Birgisson á Núpum, fjarskyldur frændi Sonju. Guðmundur ræktaði mjög sambandið við Sonju um árabil áður en hún lést og vann sér inn traust hennar. Sjálfur hefur hann tvívegis orðið gjaldþrota, fyrsta árið 2013 og svo aftur í lok síðasta árs en þá fékk hann líka tveggja ára dóm fyrir skattasvik og peningaþvætti.

Í Hruninu var fjallað um Guðmundur fjárfesti þar sem upp komst að hann hafði fært tug fasteigna yfir á sambýliskonu sína. Meðal þeirra eigna er hús auðkonunnar sjálfrar sem runnið hafði inn í minningasjóð hennar. Það var skömmu eftir bankahrunið mikla sem Guðmundur sjóðsstjóri hófst handa við að færa eignir sínar yfir á Unni Jóhannsdóttur, sambýliskonu sína, og samkvæmt fasteignaskrá voru fasteignir sem hafa farið þessa leið tæpur tugur. DV greindi frá.

Hér má sjá hús Guðmundar á Núpum, sjóðsstjóra Sonju Zorrilla-sjóðsins. Sonja átti þetta hús þar til hún lést.

Þeirra á meðal var húseign Sonju W. B. Zorilla að Núpum í Ölfusi en húseignin gekk inn í minningarsjóð hennar til að styrkja börn, hérlendis og erlendis, til náms og heilsu. Húsið staldraði aðeins við í sjóðnum í átta daga og þá var það komið yfir á nafn Guðmundar. Ekki löngu síðar var húsið síðan fært yfir á sambýliskonuna.

Guðmundur hefur verið umsvifamikill fjárfestir undanfarin ár. Í gegnum fyrirtækið Lífsval varð hann einn stærsti jarðeigandi landsins og rak stærstu kúabú landsins. Guðmundur tók einnig þátt í ýmsum útrásarverkefnum.

- Auglýsing -

Hagnaðist vel

Sonja Zorilla hagnaðist vel á viðskiptum á Wall Street. Minningarsjóði hennar, Sonja Foundation, var ætlað að styrkja langveik börn á Íslandi og í Bandaríkjunum og hefur verið fjallað um að eignir Sonju um aldamótin hafi verið um tíu milljarðar króna. Lítið sem ekkert hefur enn fengist uppgefið um sjóðinn sem varð til við andlát auðkonunnar.

Allt frá því Sonja lést hefur leyndarhjúpur verið um eignir hennar og ekkert spurts til sjóðsins eða úthlutana úr honum. Guðmundur hefur sjálfur farið undan í flæmingi þegar fjölmiðlar hafa spurt um sjóðinn eða afdrif eignanna í gegnum árin. Allt frá því Sonja lést árið 2002 er minningarsjóður hennar enn í sama myrkri og hann hefur verið undanfarin 18 ár.

- Auglýsing -

Guðmundur, var upphaflega nautgripabóndi, en komst í nokkrar álnir með viðskiptum og ekki síst með gjaldeyri. Hann er þó þekktastur fyrir að hafa haldið utan um eignir Sonju sem lést árið 2002. Erfðaskrá hennar tilgreindi að til yrði Sonja Zorrilla foundation, sem átti að vera til að styrkja fátæk börn til tónlistarnáms. Sonja átti miklar eignir á Flórída og í New York. Þá átti hún íbúð á Ísland og sumarhús á Núpum, landareign Guðmundar. Auk þess átti hún Rolls Royce bifreið sem geymd var á Núpum. Eignir Sonju voru taldar í milljörðum króna samkvæmt eldri fjölmiðlaumfjöllunum.

Guðmundur var á haustmánuðum í fyrra ákærður fyrir margvísleg brot gagnvart skattayfirvöldum á Íslandi vegna eigna á Manhattan, á Flórída og á Spáni. Um var að ræða peningaþvætti og skilasvik þar sem eignum í New York, Flórída og á Spáni var leynt.

Engin svör

Þegar DV gekk á Guðmund og meðstjórnanda hans hjá Sonja Foundation, bandaríska lögmanninn John Ferguson, eftir hrun sögðu sjóðsstjórarnir tveir enga aura að fá úr minningarsjóðnum. Sjóðurinn væri hreinlega yfirskuldbundinn og þá var umsækjendum óskað velfarnaðar í öðrum styrkjaumleitunum sínum.

Þá var Ferguson lögmaður fyrir svörum og hafði þetta að segja:

„Ég vil þakka ykkur fyrir áhugann á Sonja Foundation. Sjóðurinn er að öllu leyti einkasjóður og því vona ég að þið skiljið að við svörum engum fyrirspurnum frá almenningi.“

Það er ekki aðeins hinn bandaríski lögfræðingur sem veitir engin svör heldur reynist erfitt að hafa uppi á Guðmundi, frænda Sonju, til að ræða málefni sjóðsins. Til þess hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir um nokkurt skeið en án árangurs.

Guðmundur á Núpum færði þetta hús yfir á sambýliskonu sína nokkrum dögum eftir bankahrunið. Húsið var á sínum tíma í eigu Björgólfs Guðmundssonar og ólst Björgólfur Thor þar upp.

Þrátt fyrir að 18 ár eru liðin frá því að auðkonan Sonja Zorilla lést og stofnaður var minningarsjóður í hennar nafni er vefsíða sjóðsins enn í smíðum. Samkvæmt erfðaskrá áttu auðævi hennar að renna í sjóð til styrktar fátækum börnum.

Skilur ekkert í meðstjórnandanum

John J. Ferguson, bandarískur lögmaður auðkonunnar heitinnar Sonju Zorilla, aðskilur sig alfarið frá viðskiptum Guðmundar A. Birgissonar sem var dæmdur fyrir skattsvik og peningaþvætti. Lögmaðurinn sagðist í samtali við Mannlíf vera bæði undrandi og vonsvikinn að heyra af því hvernig er komið fyrir kollega sínum hjá minningarstjóði Sonju.

John J. Ferguson, lögmaður Sonju á sínum tíma og annar umsjónarmanna styrktarsjóðs Sonju.

„Ég hef þekkt Gumma í 25 ár og veit að hann hefur verið í vandræðum vegna gjaldþrots. En ekkert af því tengist sjóðnum því ég einn hef hönd á öllum peningunum frá upphafi og hann hefur ekki haft nokkurn aðgang að þeim. Hvað sem hann hefur gert þá er alfarið engin peningatenging milli sjóðsins og hans persónulegu mála,“ segir Ferguson.

Ferguson lögmaður neitaði Mannlífi einnig um aðgang að sjóðsyfirliti, Sonja Foundation, góðgerðasjóði auðkonunnar. „Þetta eru trúnaðarupplýsingar og eru því ekki ætlaðar til opinberrar birtingar,“ sagði Ferguson í samtali við Mannlíf.

Sjá einnig: Ferguson lögmaður Sonju sver af sér Guðmund á Núpum: „Bæði undrandi og vonsvikinn með Gumma“

Fréttalaðið sagði á sínum tíma frá milljarðaeignum Sonju. Í bókinni Ríkir Íslendingar var leitt líkum að því að Sonja hafi átt yfir eignir fyrir rúma10 miljarða króna.

Sjóður Sonju hafði upphaflega tveggja manna sjórn. Guðmundur var annar stjórnarmaðurinn en hinn var Ferguson, fyrrverandi lögmaður Sonju. Sjóðurinn er með aðsetur sitt í Bandaríkjunum. Allt frá því Sonja lést hefur leyndarhjúpur verið um eignir hennar og ekkert spurts til sjóðsins eða úthlutana úr honum.

Guðmundur hefur sjálfur farið undan í flæmingi þegar fjölmiðlar hafa spurt um sjóðinn eða afdrif eignanna. Því hefur verið borið við að Íslendingum komi ekki málefni sjóðsins við þar sem hann sé einkasjóður í Bandaríkjunum. Þetta gengur þvert á þann yfrlýsta tilgang sjóðsins að hann myndi starfa í þágu langveikra barna á Íslandi og í Bandaríkjunum. Fréttaþátturinn Kompás spurðist fyrir á sínum tíma um afdrif eigna Sonju og sátu fyrir Guðmundi en hann svaraði efnislega engu.

„Hvað sem Gummi hefur gert af sér persónulega hefur ekkert að gera með dánarbú Sonju eða sjóðinn.“

Allt frá því Sonja lést árið 2002 hefur verið þögn um eigur hennar og sjóðinn. Athyglisvert ert að meint svikaslóð Guðmundar liggur um sömu svæði og eigur auðkonunnar var að finna. Sonja átti veglegt málverkasafn, íbúðir á Flórída og á Park Avenue í New York þar sem skatturinn hefur komist á snoðir um leyndar eignir Guðmundar.

DV fjallaði um fjölda fasteigna sem Guðmundur færði yfir á sambýliskonu sína. Meðal þeirra var hús Sonju við Núpa.

Ekki hefur farið fram rannsókn íslenskra eða bandarískra aðila á því hvernig umræddar eignir voru tilkomnar og féllu í hlut Guðmundar. Sjóður Sonju er enn í sama myrkri og hann hefur verið undanfarin 18 ár. Ekki eru þekkt dæmi um að langveik börn hérlendis hafi notið góðs af sjóðnum sem stofnaður var í þágu þeirra.

Spurningunni um hvort ekki hafi verið andvirði 10 milljarða til ráðstöfunar eftir lát Sonju svaraði Ferguson því hlæjandi í samtali við Mannlíf í fyrra. Honum var hins vegar augljóslega brugðið þegar Mannlíf sagði honum frá því að Guðmundur hafi játað á sig skattsvik og peningaþvætti.

Aðspurður segir Ferguson að upprunalega hafi verið í sjóðnum því sem nemur hálfum milljarði króna og því hefur að mestu verið úthlutað til góðgerðarmála. Mannlíf óskaði formlega eftir yfirliti frá sjóðnum um hvaða upphæðir og hvert þær hafi runnið úr sjóðnum frá stofnun. Ferguson neitaði að afhenda þær upplýsingar.

„Þetta eru trúnaðarupplýsingar og eru því ekki ætlaðar til opinberrar birtingar.“

„Ég held að Sonja hafi aldrei átt svona mikinn pening en það mesta úr sjóðnum hefur verið úthlutað til góðgerðarmála í gegnum árin. Það er eitthvað eftir í sjóðnum. Hvað sem Gummi hefur gert af sér persónulega hefur ekkert að gera með dánarbú Sonju eða sjóðinn. Sjóðurinn stendur fyllilega í skilum við skattayfirvöld og er algjörlega hreinn. Ég finn til með Gumma því hann kom mér ávallt fyrir sjónir sem sannkristinn maður og vingjarnleg persóna. Því er ég bæði undrandi og vonsvikinn. Frá persónulegu sjónarmiði hef ég ekkert að gera með hann og hef ekki þekkingu á hvaðan peningar hans komu,“ sagði Ferguson í samtali við Mannlíf.

Eftir stendur spurningin: Hvað varð um peningana hennar Sonju?

 

Hver er Guðmundur Birgisson?

  • Guðmundur Albert Birgisson er fæddur í Reykjavík 1. júlí 1961. Hann er elstur fjögurra systkyna. Foreldrar hans eru Birgir Guðmundsson Albertsson kennari og kaupmaður og móðir hans heitir Evlalía Kristín Guðmundsdóttir.
  • Guðmundur hefur ekki verið áberandi í umræðunni þrátt fyrir að hafa verið mjög umsvifamikill fjárfestir. Hann er líklega þekktastur fyrir að vera í forsvari fyrir minningarsjóð Sonju frænku sinnar.
  • Guðmundur var meðeigandi að félaginu Lífsval sem var stærsti landeigandi landsins. Félög sem hann kom að áttu Hótel Borg og Nordica Spa og hann kom að fiskeldi víðs vegar á Suðurlandi, þar á meðal að Núpum í Ölfusi en þar leigði hann Samherja aðstöðu.
  • Lífsval átti Guðmundur með Landsbankanum, Ingvari Karlssyni og Ólafi Wernerssyni. Ólafur er bróðir þeirra Karls og Steingríms sem kenndir voru við fjárfestingafélagið Milestone. Lífsval var stærsti jarðeigandi landsins en félagið átti á annað hundrað jarðir. Samkvæmt ársreikningi félagsins árið 2007 átti félagið jarðir fyrir um 4,3 milljarða króna. Félagið rak bú á Skriðufelli í Jökulsárhlíð og Ytrafelli í Eyjafirði. Auk þess var félagið með stærsta kúabú landsins á jörðinni Flatey á Mýrum í AusturSkaftafellssýslu.
  • Guðmundar var ansi umsvifamikill í þátttöku hlutafélaga. Þegar DV skoðaði hlutafélagaeign Guðmundar sumarið 2009 var hann skráður stjórnarmaður í 29 félögum, framkvæmdastjóri níu félaga, prókúruhafi þrettán félaga og stofnandi 20 félaga.
  • Frjáls verslun birti ítarlega umfjöllun um Guðmund árið 1998 eftir að hann hafði gengið frá sölu á jörðum við Núpa í Ölfusi og Þórustaði á Vatnsleysuströnd til Hitaveitu Reykjavíkur. Þar sagði að Guðmundur Birgisson hefði snemma verið „einbeittur og stefnufastur í því ætlunarverki sínu að eignast peninga. Til eru myndir af honum barnungum þar sem hann situr og leikur sér að peningum sem voru hans eftirlætisleikföng“.
  • Guðmundur er mikill bílaáhugamaður. Þegar hann var 17 ára, árið 1979, fór hann til Þýskalands og keypti sér Mercedes Benz 280 SEL sem þótti einn af flottari bílum landsins á þeim tíma. Bíllinn var hins vegar fljótlega seldur.
  • Á árum áður sást stundum til Guðmundar á Rolls Royce-bifreið sem Sonja Zorrilla geymdi í húsi sínu að Núpum í Ölfusi. Hún flutti bílinn inn frá Flórída árið 1995 en hann er árgerð 1983. Að sögn heimildarmanna er bíllinn nú að Núpum við húsið sem Sonja átti og Guðmundur á í dag. Bíllinn varð óökufær fyrir nokkrum árum þegar Guðmundur ætlaði að keyra hann út úr bílskúrnum að Núpum en eyðilagði hlið bílsins.
  • Guðmundur átti einbýlishús á Spáni og DV sagði frá því 2007 þegar 20 milljóna króna Mercedes Benz-bifreið hans var stolið fyrir utan heimili hans. DV sagði líka frá því að Guðmundur ætti fasteignir í Slóvakíu með Runólfi Oddssyni, hálfbróður Davíðs Oddssonar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -