Lögreglan á Vesturlandi rannsakar atburði helgarinnar á Hótel Borgarnesi en Karl Gauti hefur lagt fram kæru vegna málsins. Eigendur hótel Borgarness neita Mannlífi um aðgang að myndbandsupptökum úr hinum fræga talningarsal hótelsins þar sem atkvæði Norð-Vesturkjördæmis lágu óinnsigluðu í margar klukkustundir.
Í viðtali við Mannlíf í gær viðurkenndi Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi að hafa ekki gengið frá kjörseðlum eins og lög segja til um. Hann þvertekur hins vegar að nokkurt svindl hafi átt sér stað.
Umboðsmaður flokks sem var viðstaddur staðfesti í samtali við Mannlíf að mörgum reglum hafi ekki verið fylgt og að margir gætu hafa haft aðgang að herbergi þar sem kjörseðlar voru ekki innsiglaðir. Lögreglan rannsakar nú málið.
„Ég get staðfest það að þessi kæra kom fram frá Karli Gauta Hjaltasyni, og var móttekin hér og er til rannsóknar,‘‘ sagði Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi í viðtali við Mannlíf nú upp úr hádegi. Þá kvaðst Gunnar ekki geta tjáð sig meira um málið að svo stöddu.
Hótel Borgarnes staðfesti það að öryggismyndavélar væru á hótelinu en annar eigenda hótelsins vildi hvorki gefa frekari upplýsingar um upptökurnar né veita Mannlífi aðgang að þeim.
Á Stundinni birtist ljósmynd sem tekin var af konu sem hefur tengsl við Hótel Borgarnes. Var myndin af óinnsigluðum atkvæðum en konan birti hana á Instagram reikningi sínum eftir að talningu lauk. Virtist konan vera ein í salnum.