Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Hrottalegt morð Gests á Grenimel; „Biddu guð að hjálpa þér!“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þýskur maður, búsettur á Íslandi, var myrtur á óhuganlegan hátt við Grenimel í vesturbæ Reykjavíkur aðfaranótt 17. september árið 1981. Gerandinn íslenskur maður sem var ekki í andlegu jafnvægi. Það sem flækti málið var að fyrir morðið hafði Þjóðverjinn að sögn brotið gróflega á Íslendingnum kynferðislega.

Samkvæmt grein DV um málið var Hans F.J.A. Wiedbusch 45 ára gamall, vesturþýskur ríkisborgari, sem hafði flutt hingað til lands fimmtán árum fyrr, árið 1966. Hann nam blómaskreytingar í Hamborg og starfaði um tíma í Ósló áður en hann flutti til Íslands. Hann var vinamargur og var það á allra orði að að hann hneigðist til karlmanna. Hann hafði starfað í fjórtán ár hjá versluninni Blóm og ávextir en var nýhafin störf hjá Blómavali þegar hin örlagaríki atburður gerðist. Þetta kvöld átti hann von á gestum sem afboðuðu sig og því ákvað hann að fara einsamall á skemmtistaðinn Óðal við Austurvöll.

Banvæn kynni

Hans hitti Gest Guðjón Sigurbjörnsson, 28 gamlan starfsmann í sælgætisgerð, á Óðali. Þeir þekktust ekki áður. Þeir tóku saman spjall yfir drykk og bauð Hans að lokum Gesti heim til sín. Þar var áfram drukkið, spiluð tónlist og reykt kannabis sem Hans ræktaði sjálfur, jafnt á heimili og vinnustað.

Gestur barðist við gerðræn vandamál og áfengismisnotkun. Hafði hann dvalið á geðdeild og var á sterkum lyfjum. Daginn fyrir árásina var Gestur útskrifaður af geðdeildinni en honum leið illa og svaf lítið og illa um nóttina. Ákvað hann þá að fara á Óðal til að skemmta sér. Þar hittust þeir Gestur og Hans í fyrsta og síðasta skipti.

 

- Auglýsing -

„Biddu guð að hjálpa þér!“

Gestur varð slappur af drykkjunni og hassinu og bauð Hans honum að gista hjá sér. Gestur tjáði Hans að hann ætti í erfiðleikum með svefn en Hans færði honum þá tvær svefntöflur sem Gestur tók og sofnaði skömmu síðar.

Svo segir í DV: „Um nóttina vaknaði Gestur skyndilega og fann að eitthvað var að. Hans hafði þá klætt hann úr fötunum og var að hafa endaþarmssamfarir við hann. Brá honum mjög við þetta, stökk upp og hljóp inn á salernið. Þar fékk hann þá hugmynd að drepa Hans og greip skæri sem hann fann. Hann gekk inn í stofu að Hans með skærin fyrir aftan bak og rak þau svo beint í brjóstið á Hans sem greip um úlnlið Gests og hrópaði: „Biddu guð að hjálpa þér!“. Hans náði skærunum af Gesti sem fór þá inn í eldhús og náði í búrhníf og önnur skæri.

- Auglýsing -

Stakk Gestur Hans þá ótal sinnum með hnífnum, lagðist ofan á hann og reyndi að kæfa hann með höndunum. Þegar það gekk ekki tók hann hin skærin og rak þau í augntóftina, inn í heila, og lést Hans þá samstundis. Gestur gekk síðan um íbúðina og tók peninga og ýmis rafmagnstæki sem hann fann. Fór hann síðan út án þess að fela líkið eða slökkva ljósin”.

Játaði strax verknaðinn

Þegar Hans kom ekki til vinnu urðu samstarfsmenn áhyggjufullir þar sem það var ólíkt Hans sem var samviskusamur með  eindæmum. Hann svarði ekki síma og þegar heimili hans var kannað svaraði hann ekki dyrabjöllunni.

Aftur á móti mætti Gestur til vinnu um morgunin en langt því frá að vera í jafnvægi. Hann viðurkenndi fyrir vinnufélaga að hafa drepið mann og henti þýfinu í Reykjavíkurtjörn síðar þennan sama dag. Föstudaginn 18. september fann nágranni Hans látinn og lét lögreglu umsvifalaust vita. Í DV segir: „Þegar lögregla kom fann hún Hans á stofugólfinu, nakinn og þakinn stungusárum. Skærin stóðu enn þá út úr öðru auganu og blóðslettur sáust um alla íbúðina. Hnífsblað sat fast í rifjabeini og við krufningu kom í ljós að hnífurinn hafði skemmt flest öll mikilvægustu líffærin”.

Í upphafi beindist athygli lögreglu að samkynhneigðum karlmönnum í vinahópi Hans en eftir ábendingu frá samstarfsmanni Gests var hann umsvifalaust handtekinn á heimili sínu. Gestur sýndi engan mótþróa og játaði strax verknaðinn.

Vinirnir ósáttir

Vinum Hans fannst yfirlýsingar lögreglunnar og skrif dagblaða um málið ósanngjörn en þar var greint frá frásögn Gests. Þeir gáfu út yfirlýsingu sem birt var í nokkrum dagblöðum þann 23. september þar sem umfjölluninni var harðlega mótmælt. „Okkur var vel kunnugt um að Hans var „homosexual“, en það kom ekki í veg fyrir að hann átti stóran hóp vina, karla sem kvenna, fjölskyldna sem einhleypra, sem kunnu að meta manngildi hans. Þar sem hinn látni getur ekki varið sig sjálfur, krefjumst við þess í minningu hans að leiðrétt sé sú villandi mynd sem af honum hefur verið gefin í fjölmiðlum

Við geðrannsókn var Gestur metinn sakhæfur en með fyrirvörum, hann var treggefinn með persónuleikatruflanir og skorti hæfileika til að mynda varanleg tengsl við fólk. Í skýrslunni segir: „Að öllum þessum atriðum samanlögðum er ekki að undra þótt viðbrögð hans geti orðið heiftarleg og allt að því tilviljunarkennd þegar hann er undir miklu álagi.“ Útskýrði Gestur verknaðinn með að segja að á hann hafði runni æði.

Gestur var dæmdur til 12 ára fangelsisvistar í héraði en hæstiréttur mildaði dóminn niður í 8 ár. Var til þess tekið að hann hefði játað verknaðinn strax auk þess að verða fyrir alvarlegri kynferðisárás. Á móti var til þess litið að árásin var afar hrottaleg.

Gestur lést árið 1999.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -