Sunnudagur 26. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Hugmynd Stefáns slær í gegn – Þrjár flugur í einu höggi ef ríkið kaupir Bændahöllina

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stefán Pálsson sagnfræðingur segir að það myndi leysa furðu mörg vandamál ef ríkið myndi kaupa Bændahöllina, Hótel Sögu. Miðað við fyrstu viðbrögð við hugmyndinni þá er ljóst að margir telja Stefán hafa hitt naglann á höfuðið.

„Stefán slær þrjár flugur í einu höggi á miðvikudagsmorgni:

Vestur á Melum stendur risastórt hótel galtómt. Húsnæðið öskrar á mikið og kostnaðarsamt viðhald og meira að segja í miðri túristabólunni var reksturinn meira í ætt við Axlar-Björn en Jóhannes á Borg. Mikið þarf að gerast til að þetta hótel opni aftur og hætti að verða eigenda sínum, Bændasamtökunum, þung byrði,“ skrifar Stefán á Facebook.

Hann bendir svo á vanda Háskólans. „Á sömu þúfu vill Háskóli Íslands byggja hús fyrir menntavísindasviðið sitt sem er nú uppi á Rauðarárholti og þar þrífst enginn nema útburðir og American Style. Auðvitað vilja kennaranemarnir og kennarakennararnir (hvað annað eigum við að kalla þau) komast í Vatnsmýrina til að geta frílystað sig á kaffihúsum og komist fljótt í innanlandsflug. Vandinn er hins vegar sá að Háskólahappdrættið þarf að setja alla sína peninga næsta áratuginn í að byggja yfir heilbrigðisvísindasviðið á Landspítalareitnum.

Hvað gera bændur þá?“

Því svarar Stefán: „Jú, bændur lesa þessa færslu og labba í kjölfarið yfir ganginn til varaformanns Framsóknarflokksins og stinga upp á eftirfarandi fléttu: ríkissjóður kaupir Bændahöllina. Bændur finna sér hentugra húsnæði annars staðar á höfuðborgarsvæðinu sem mætti t.d. kalla Stefánsból eða e-ð álíka í þakklætisskyni fyrir snjöllu hugmyndina.

- Auglýsing -

Ríkið skrallar meira og minna öllu út úr Bændahöllinni og fyllir af kennaranemum og kennarakennaraskrifstofum og á samt fullt af plássi eftir fyrir nýjar námsbrautir í núvitund og tokkarísku.“

Fléttu Stefáns er þó ekki lokið. „Þá losnar hús kennaraháskólans sem er stórt og með miklum uppbyggingarmöguleikum, steinsnar frá Tækniskólanum sem í dag er rekinn á tveimur stöðum. Ef við myndum spyrja verknámsfólkið á Skólavörðuholti: „hvort viltu kúldrast hér í bílastæðaleysinu umvafinn tilgerðarlegum kaffihúsum eða flytja upp á Rauðarárholt og komast alltaf á Stælinn í hádeginu?“ – þá þarf enginn að velkjast í vafa um svarið.

Þegar búið verður að sameina HÍ og Tækniskólann með þessari snjöllu fléttu geta allir glaðst nema kannski fjármálaráðuneytið og Jóhannes Þór Skúlason, sem sér á eftir öllum hótelherbergjunum á Melunum. En þá kemur rúsínan í pylsuendanum: Iðnskólahúsið á Skólavörðuholti stendur þá laust og yrði osom hótel fyrir vellríka túrista sem vilja upplifa svifryk og hljóðmengun á gamlárskvöldi!

- Auglýsing -

Tjaldið fellur, áhorfendur ærast“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -