Föstudagur 1. júlí, 2022
12.8 C
Reykjavik

Hundasveitin leitaði að Balto í þrjá og hálfan sólarhring: „Þetta var þvílíkur eltingaleikur“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Husky-hundurinn Balto slapp af nýja heimili sínu í Hafnarfirði á föstudaginn eftir að hann hoppaði yfir pallvegg heima hjá sér. Eftir þriggja daga þrotlausa leit sjálfboðaliða fannst hann loks.

Sjálfboðaliðarnir í Hundasveitinni leituðu ásamt eigandanum í þrjá sólarhringa að Balto sem var ekki á þeim buxunum að láta ná sér. Mannlíf heyrði í einum meðlimi Hundasveitarinnar, henni Söndru Ósk Jóhannsdóttur og spurði hana fyrst út í Hundasveitina. Hvernig varð hún til?

Sandra Ósk Jóhannesdóttir
Ljósmynd: Twitter

„Við stofnuðum Hundasveitina formlega á nýársnótt 2020-21. Þá vorum við úti í skógi í Hafnarfirði að grilla pylsur, til að reyna að lokka sex mánaða gamlan hvolp sem fældist af heimili sínu vegna flugelda. Í raun vorum við búnar að vera nokkrar að hittast í leitum af dýrum en það var alltaf sama fólkið sem bauðst til að leita. Við kynntumst þannig og hugsuðum „Af hverju gerum við ekki eitthvað úr þessu?“ og þannig var Hundasveitin formlega stofnuð,“ sagði Sandra Ósk sem var í óðaönn við að koma sér í vinnuna.

En aftur að björgun Balto, hvernig gekk hún fyrir sig?

„Við fengum tilkynningu um níu leitið síðasta fimmtudag, þann 16. júní, að það væri týndur hundur sem að stökk yfir vegg á pallinum heima hjá sér í miðbæ Hafnarfjarðar. Hann var bara nýkominn til nýs eiganda, hafði bara verið hjá honum í fjóra daga. Hann kom af sveitabæ nálægt Egilsstöðum þannig að hann þekkti ekki umhverfi sitt og þekkti í raun ekki umferð heldur,“ sagði Sandra Ósk en Hundasveitin fer strax af stað þá um kvöldið en eftir að hafa leitað í dágóða stund gerði sveitin hlé á leitinni því Balto átti það víst til, að sögn fyrri eigandans, að fela sig í runnum og gróðri þannig að ómögulegt væri að finna hann þar sem hann gæti verið hvar sem er í raun. Þannig að Hundasveitin tók stöðuna og ákvað að halda heim á leið og halda áfram leit daginn eftir.

„En þegar ég er kominn heim fengum við tilkynningu um að Balto væri í fjörunni við hundasvæðið Bala. Þannig að við fórum þangað og hann sást en hann vildi ekki láta ná sér. Hann var samt ekki í þeim gír að flýja strax heldur horfði hann á mann lengi, sérstaklega á hana Önnu sem er í Hundasveitinni en ákvað svo að hann vildi ekki koma til hennar. Þannig að þetta var meira þannig að hann vildi ekki láta ná sér en að hann væri eitthvað hræddur,“ sagði Sandra Ósk og sagði að partur af Hundasveitinni hafi verið á svæðinu til klukkan fjögur um nóttina en ekkert gekk upp og að lokum lét Balto sig hverfa á nýjan leik.

Sandra Ósk dauðþreytt við leitina.
Ljósmynd: Twitter
- Auglýsing -

Daginn eftir fékk Hundasveitin fullt af tilkynningum um að Balto hafi sést á Reykjanesbrautinni og þar í kring. Að sögn Söndur Óskar var hundurinn afar fljótur yfir og sást á mörgum stöðum. Hundasveitin fór því aftur á vettvang í von um að finna Balto. „En svo hætta bara tilkynningarnar og hann byrjar aftur að leggjast í felur. Og þá er ekki hægt að gera neitt nema bíða og sjá því hann gæti í raun verið hvar sem er. En fólk var alveg að rúnta um og hafa augun hjá sér og svona. Og svo á föstudagskvöldið fer hann aftur á stjá og hann sést af mjög mörgum leitaraðilum, bara úti um allt. Við vorum örugglega um 20 til 30 alls að rúnta þarna um og sumir á fótum eins og ég. En svo hægist aftur á þessu því hann fer enn einu sinni í felur. En svo sér ein manneskja Balto í runna rétt hjá Lækjarskóla en þegar hún nálgast hann hleypur hann í burtu.“ Fólk hélt áfram að rúnta um og leita að hvutta en Sandra Ósk, ásamt Eygló og Önnu úr Hundasveitinni leituðu í runna með vasaljósi til klukkan fjögur um nóttina án árangurs.

Ekkert spurðist til Balta þar til sólarhring síðar er Hundaasveitin fékk ábendingu frá stúlku sem sagðist hafa séð hann í Heiðmörk. „Þannig að hann var kominn langt frá þeim stað sem hann sást síðast á og það meikaði alveg sens að hann skyldi vera kominn í gróður, fjær mannabyggðum.“

Á þessum tímapunkti var ákveðið að Hundasveitin og aðrir sem leituðu hundsins myndu umkringja svæðið sem Balto var á í Heiðmörk en ekki kalla á hann og mögulega þannig fæla hann í burtu af svæðinu. „Þannig að við ráðleggjum öllum að umkringja svæðið, ekki koma nálægt honum en umkringja svæðið en hann var í einhverskonar fjallshlíð. Við báðum fólk að fara hinum megin við fjallið en við spottuðum hann mjög oft í fjallinu. Þannig að við byrjuðum okkar svona protocol og byrjuðum að grilla pylsur,“ sagði Sandra Ósk og útskýrði fyrir blaðamanni Mannlífs að með því að grilla pylsur sé hægt að halda hundinum á svæðinu því hann finnur lyktina og vill þá síður yfirgefa svæðið. Hundasveitin setti svo dróna á loft sem samstarfsaðili þeirra á því neyðin var slík því sveitin hafði misst sjónar af honum eitt augnablik en vissu að hann væri samt á svæðinu.

- Auglýsing -

Þegar þarna var komið við sögu var fólk beðið að yfirgefa svæðið svo hundurinn myndi ekki fælast í burtu. „Þannig að þetta voru bara við og nýji eigandinn. Svo segir Anna einni úr hópnum að fara hinum megin við fjallið, hjá golfvellinum og sú segir okkur að hann sé þar.“ Hópurinn fer því allur þangað og ná að nálgast hann loksins með grillaða pylsu að vopni en þær voru í um þrjár klukkustundir liggjandi á jörðinni með blautmatnum fra Dýrafóður í hendi en að sögn Söndru Óskar er þetta gert því að þá stafar minni ógn af þér og þú leyfir hundinum að nálgast sig á sínum forsendum. „Þetta tók í raun fjóra tíma að nálgast hann svona. Hann fór það nálægt okkur að það var næstum því hægt að klappa honum. Hann borðaði úr lófanum okkar. En við vissum að það sem við þurftum nú var fyrri eigandinn en hún hafði keyrt alla leið frá Egilsstöðum en hún kom þarna um morguninn. Okkur hafði þá tekist að róa hann og hann var farinn að venjast okkur. Hann til dæmis elskaði litinn á vestunum okkar, hann laðaðist gríðarlega að þeim litum. Gamli eigandinn hafði byrjað að leita með okkur um klukkan 10 þennan morgun en klukkan eitt kallaði hún á hann og hann kom hlaupandi og stökk í fangið á henni,“ sagði Sandra Ósk uppnumin og bætti við: „Þannig að þetta var alveg þriggja og hálfs sólarhrings leit. Þetta var þvílíkur eltingaleikur og ef við hefðum ekki fengið þessa vísbendingu úr Heiðmörk hefði hann sennilega ekki fundist.“

Balto hoppaði í fang fyrri eiganda síns.
Ljósmynd: Twitter

Balto er nú kominn aftur til nýrra eigenda sinna sem passa vel upp á að hann sé ekki laus á pallinum þar sem hann reyndist hinn mesti hástökkvari.

Balto loksins kominn heim.
Ljósmynd: Twitter

Ef fólk vill styrkja Hundasveitina sem er sjálfboðaliðahópur eru upplýsingar hér fyrir neðan. Allir styrkir fara beint í tækjakaup fyrir leitir eins og hitasjónauka en þess ber að geta að veglegt hundabúr sem hópurinn átti, var stolið á dögunum.

Kennitala: 550920-0850
Reikningur: 0301-13-000075 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -