Fimmtudagur 28. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Hvað þýða rísandi merkin?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Oft er talað um rísandi merkin í stjörnuspeki sem þá grímu sem við sýnum heiminum. Rísandi merki okkar er talið vera sú orka sem við komum fyrst með inn í herbergi og einkenni merkisins eru þau sem við sýnum fólki oftast við fyrstu kynni. Segja má að rísandi merki okkar sé ákveðið upphaf – sú hula sem liggur yfir okkur þegar við eigum samskipti við nýtt fólk eða tökumst á við ný verkefni.

Ekki eru allir skólar stjörnuspekinnar sammála um mikilvægi rísandi merkisins. Hér verður hins vegar tekin sú nálgun að mikilvægi rísandi merkisins sé nokkuð meira en bara sem gríma og orkan sem er bersýnileg við fyrstu kynni.

Rísandi merkið getur nefnilega haft dýpri áhrif á okkur og sumir segja það jafnvel hafa mikið að gera með sálina – og að því meira sem við lærum að halla okkur að rísandi merki okkar, því meiri sálarró getum við fundið.

Oft er talað um að rísandi merkið sé greinilegra þegar við erum yngri og ummerki þess máist meira út eftir því sem við eldumst. Það er okkur þá hugsanlega hollara að reyna að halda í það – eins og að halda í barnið í okkur.

Rísandi merkið í stjörnukorti okkar finnst aðeins með nákvæmum fæðingartíma (hver mínúta skiptir máli) og fæðingarstað.

 

- Auglýsing -

Rísandi merkin

 

Hrútur

Fólk með rísandi Hrút hefur yfir sér afar eldfima orku. Það æðir með höfuðið á undan inn í aðstæður og framkvæmir áður en það hugsar. Þetta fólk er beinskeytt og dembir sér af krafti í verkefni og hugðarefni.

Rísandi Hrútar geta verið með dálítið hvassar brúnir og sennilega myndu þeir vera sagðir margt annað áður en einhverjum dytti í hug að kalla þá fágaða. Þeir virðast á einhvern hátt uppfullir af æsku og geta verið nokkuð barnalegir í nálgun sinni á hluti – en það er aðeins vegna einlægni þeirra og sterkra tengsla við sitt innra barn.

- Auglýsing -

Öll viðbrögð rísandi Hrúta eru hröð – þeir reiðast hratt en eru líka fljótir að jafna sig. Þetta eru keppnismanneskjur sem setja mikla pressu á sjálfar sig.

Rísandi Hrútar eru yfirleitt bros- og hláturmildir.

 

Naut

Rísandi Naut koma með jafna og jarðtengda orku með sér inn í herbergi. Þau eru stöðug og viðbrögð þeirra eru í hægara lagi, oft úthugsuð. Það er ákveðin mýkt sem fylgir þeim, á sama tíma og þau eru ákveðin og föst fyrir.

Það er yfirleitt fljótlega ljóst í samskiptum við rísandi Naut að þeim verður ekki auðveldlega haggað: þau eru eins og stór og sterk tré með djúpar og miklar rætur sem ná langt ofan í jörðina.

Rísandi Naut eru heiðarleg og hreinskilin. Þau kjósa að segja hlutina beint út og kunna að meta það þegar aðrir eru hreinskilnir við þau.

Rísandi Naut þrá öryggi og geta brugðist illa við hröðum breytingum. Þau eru einstaklega vanaföst og geta auðveldlega fest sig í gömlum hjólförum. Þau eru varkár og vilja þreifa vandlega fyrir sér áður en þau taka ákvarðanir.

Naut eru í eðli sínu nautnaseggir og rísandi naut leyfa sér yfirleitt töluvert þegar kemur að lífsins lystisemdum. Jafnvel um of.

Rísandi Naut kunna að meta þægindi og elska að klæða sig í föt úr gæðaefnum sem er notalegt að klæðast. Þau eru oft þeirrar skoðunar að lífið sé of stutt fyrir óþægilega skó.

 

Tvíburi

Rísandi Tvíburi er með úthverfa og lifandi orku. Hann er félagslyndur og forvitinn. Rísandi Tvíburi elskar að læra nýja hluti og helst vill hann gera það í félagslegu samneyti við aðra. Hann er sífellt á ferð og flugi og getur verið dálítið óstýrilátur. Hann unir sér yfirleitt ekki á sama staðnum lengi í einu. Hann elskar fjölbreytni og hann er einstaklega áhugasamur um mannlífið.

Fólk með rísandi Tvíbura þarf yfirleitt mikla félagslega og vitsmunalega örvun. Fái það hana ekki getur það orðið afar eirðarlaust og vansælt.

Rísandi Tvíburar geta virkað óþolinmóðir í samskiptum við aðra, án þess að ætla sér það. Þeir eiga það líka til að leggja of mikla áherslu á huga sinn og vitsmuni og gleyma að næra sjálfa sig og aðra tilfinningalega. Þannig geta þeir stundum virst tilfinningalega kaldir.

Rísandi Tvíburar eru einstaklega snjallir og færir í samskiptum. Þeir geta verið frábærir málamiðlarar, því þeir eiga afar auðvelt með að setja sig inn í mismunandi skoðanir og hliðar. Hugur rísandi Tvíbura er yfirleitt á fleygiferð.

 

Krabbi

Rísandi Krabbar hafa innhverfa og hlýja orku. Þeir mæta ekki með látum í veislur, heldur nálgast fjölmenni varlega og eru yfirleitt þeir sem standa úti í hornum eða með veggjum, að tala við einn eða tvo í einu.

Rísandi Krabbar eru einstaklega næmir á umhverfi sitt og annað fólk. Þeir eiga það til að taka hluti inn á sig og eru auðsærðir. Þeir bregðast gjarnan við óvæntum aðstæðum eða ógn með því að draga sig inn í skel. Sumir rísandi Krabbar geta virst lokaðir, en það er einungis þeirra varnarráð til að vernda eigin tilfinningar og orku.

Rísandi Krabbar nálgast fólk yfirleitt með umhyggju; orka þeirra getur verið nokkuð móðurleg.

Fólk með rísandi Krabba þráir öryggi og elskar að búa sér gott hreiður þar sem það getur hlaðið sig og safnað orku fyrir þau átök sem daglegt líf og samskipti geta verið. Þau eru yfirleitt ekki mikil partíljón og eru hrifnari af því að halda sig heima í rólegheitum.

 

Ljón

Rísandi Ljón hafa sterka, rafmagnaða orku og mikið aðdráttarafl. Orkan frá þeim er úthverf og þau eru félagslynd. Það er yfirleitt bjart yfir þeim og þau vekja athygli hvert sem þau fara. Þau eiga það til að vera hávær og með mikinn sprengikraft.

Rísandi Ljónum er yfirleitt nokkuð umhugað um útlitið – þá sérstaklega hárið á sér. Hafi þau á annað borð hárvöxt til þess eru þau gjarnan með fallegt hár og eyða miklu púðri í að hafa það áberandi.

Rísandi Ljón bregðast yfirleitt hratt við í aðstæðum og er gjarnan hætt við skapofsaköstum. Þau reiðast oft nokkuð hratt en eru sömuleiðis fljót aftur niður. Þau eru hvatvís og framkvæma oft áður en þau hugsa.

Rísandi Ljón eru uppfull af drifkrafti, framkvæmdagleði og ástríðu. Þau eiga það til að vera stjórnsöm og geta verið ansi þrjósk.

Rísandi Ljón eru yfirleitt aðgengileg við fyrstu kynni og fólk dregst að þeim úr öllum áttum. Ljón krefjast athygli og fá hana oftast, en þau hafa mikla þörf fyrir að láta dást að sér. Þau geta verið nokkuð dramatísk.

Rísandi Ljón eru oftast hlý, einlæg og skemmtanaglöð.

 

Meyja

Rísandi Meyjur hafa yfir sér innhverfa og jarðtengda orku. Þær eru gjarnan ákveðnar og beinskeyttar. Oft eru rísandi Meyjur nokkuð feimnar og þær þurfa tíma til að bregðast við hlutum. Þær eru afar hugsandi og þurfa að fá að taka sinn tíma í að velta hlutum fyrir sér. Þær eru gjarnan praktískar og ana ekki út í neitt að óyfirlögðu ráði.

Þeir einstaklingar sem eru með rísandi Meyju geta stundum virst kaldir og fólk getur upplifað að það sé erfitt að nálgast þá. Það er þó ekki tilfellið, heldur eru þessir einstaklingar yfirleitt lokaðir og feimni þeirra og tilhneiging til að vilja úthugsa fólk og aðstæður gerir það að verkum að aðrir misskilja þá gjarnan á þennan hátt.

Fólk með rísandi Meyju er afar meðvitað um líkama sinn. Það er fljótt að finna þegar eitthvað amar að því og hugsar gjarnan mikið um heilsu, bæði andlega og líkamlega.

Rísandi Meyjur kunna sig í samskiptum við aðra og hafa fágað yfirbragð. Þeim mislíkar dónaskapur mjög, sem og þegar fólk kann sig ekki í félagslegu samhengi. Rísandi Meyjur geta verið ansi áhyggjufullar. Þær eru traustar og hjálpsamar.

 

Vog

Rísandi Vogir koma með hlýja og vinalega orku hvar sem þær koma. Það er gott að vera í kringum þær og það er ára yfir þeim sem hefur góð áhrif á aðra. Þær fara áreynslulaust í gegnum félagslegar aðstæður og eiga ekki í neinum vandræðum með að blanda geði við aðra. Þær eru heillandi og fólk dregst að þeim.

Einstaklingar með rísandi Vog vilja yfirleitt hafa alla góða. Þeir eru sáttasemjarar í eðli sínu og einstaklega færir í mannlegum samskiptum. Ef þeir vara sig ekki geta þeir þó orðið meðvirkir og of háðir hegðun og viðbrögðum annarra. Það er þeim auðvelt að sökkva inn í annað fólk, hugsanir þeirra, hegðun og skoðanir. Þannig geta rísandi Vogir týnt sjálfum sér ef þær fara ekki að með gát.

Rísandi Vogir eru listrænar í eðli sínu og fólk heillast með þeim af hugðarefnum þeirra. Þær eru fágaðar í tali og fasi. Það er einstaklega auðvelt að nálgast þær og félagslega getur verið sterkur leikur að halda sig nálægt þeim, þurfi maður stuðning. Rísandi Vogir geta verið dálítil fiðrildi og þær eru gjarnan óákveðnar. Þær eiga stundum erfitt með að tjá skoðanir sínar og að standa fast á þeim.

Fólk með rísandi Vog er töfrandi og hugsandi.

 

Sporðdreki

Orka rísandi Sporðdreka er sterk, dularfull, innhverf og íhugul. Rísandi Sporðdrekar búa yfir miklu aðdráttarafli. Það er oft ákveðið myrkur yfir þeim.

Rísandi Sporðdrekar hafa yfir sér máttuga áru og fá yfirleitt ósjálfrátt virðingu frá fólkinu í kring. Þeir þurfa ekki að biðja um eða falast eftir henni sérstaklega. Þeir eru fastir fyrir og stundum getur þrjóska þeirra komið þeim í koll.

Einstaklingar með rísandi Sporðdreka elska að fara á dýptina og fyrirlíta allt yfirborðshjal. Þeir fara yfirleitt ekki í gegnum lífið án þess að eftir þeim sé tekið og þeir vekja gjarnan sterk viðbrögð hjá fólki. Sumum þykir þeir spennandi og heillandi, á meðan öðrum stendur stuggur af þeim.

Rísandi Sporðdrekar virðast stundum horfa í gegnum viðmælendur sína og komast fram hjá grímum og yfirborðsskrauti fólks. Þeir kunna afar illa við yfirborðsmennsku.

Rísandi Sporðdrekar eru oftast með sterkan augnasvip og einhvern óræðan neista í augum sínum. Þeir leita sífellt svara í samskiptum við aðra og eru næmir á fólk og umhverfi sitt. Stundum er eins og þeir lesi aðra eins og opna bók, jafnvel við fyrstu kynni. Það getur virkað fráhrindandi á suma. Rísandi Sporðdrekar geta líka verið stjórnsamir og þeir eiga oft erfitt með að hleypa fólki að kjarna sínum. Þeir geta því virst lokaðir.

Rísandi Sporðdrekar eru úthugsandi og geta jafnvel verið dálítið útsmognir. Þeir bregðast ekki við af hvatvísi, heldur skipuleggja hvern leik fram í tímann og eru sérfræðingar í kænsku.

 

Bogmaður

Orkan frá rísandi Bogmönnum er úthverf og opin. Þeir eru glaðlegir í fasi og vekja athygli á hverjum stað. Þeir geta verið háværir og fyrirferðarmiklir.

Rísandi Bogmenn eru opnir í samskiptum og félagslyndir. Þeir eru oft hvatvísir og búa yfir lífsgleði sem ekki er hægt að finna hjá mörgum í sama magni. Þeir fara inn í allar aðstæður og verkefni með sprengikraft og áhuga. Þeir eru ævintýramenn og landkönnuðir í eðli sínu.

Það er yfirleitt ekki sterka hlið rísandi Bogmanna að klára verkefni og halda hlutum til streitu – en þeir eru snillingar í að byrja á nýjum verkefnum og fá hugmyndir.

Einstaklingur með rísandi Bogmann er ákafur og forvitinn. Hann elskar að læra eitthvað nýtt, hvort sem það tengist fólki eða hlutum. Honum leiðist ekki að vitna í það sem hann hefur lært. Hann elskar ferðalög og að uppgötva nýja staði.

Rísandi Bogmenn hafa hraða orku og eru yfirleitt stanslaust á ferð og flugi. Það getur reynst þeim flókið að staldra of lengi við á hverjum stað. Fjölbreytni er algjört lykilatriði í lífi þeirra. Þeir hafa afar sterkar skoðanir og geta verið dálítið þverir. Þeir veigra sér alls ekki við því að leyfa öllum að heyra hvað þeim finnst um þetta og hitt. Þeir geta stundum verið dálítið barnalegir í afstöðu sinni. Þeir eru gjarnan með frekar slæmt tímaskyn og eru oft of seinir.

Rísandi Bogmenn búa yfir sjálfstrausti og eru yfirleitt jákvæðir og bjartsýnir. Þeir geta reynst öðrum vel þegar finna þarf björtu hliðarnar í aðstæðum. Þeir hafa gott skopskyn.

 

Steingeit

Rísandi Steingeit ber með sér alvarlega, jarðbundna og sterka orku. Hún nær yfirleitt árangri í því sem hún tekur sér fyrir hendur og kemur ávallt mjög fagmannlega fyrir. Fólk efast sjaldnast um hæfni rísandi Steingeita og yfirbragð þeirra krefst virðingar hvar sem þær koma.

Einstaklingar með rísandi Steingeit hafa oft gott skopskyn, en ekki á glaðlyndan og augljósan hátt. Þeir eru yfirleitt frekar kaldhæðnir og stekkur ekki bros þegar þeir segja brandara. Þeir eru sömuleiðis góðir í alls konar skotum á aðra, en veigra sér ekki heldur við að gera grín á eigin kostnað.

Rísandi Steingeitur eru yfirleitt mjög ábyrgar, sem getur orðið til þess að þeim er treyst fyrir ýmsum verkefnum og mikils ætlast til af þeim frá unga aldri. Jafnvel of mikils. Þær þrífast í venjum og strúktúr. Öryggi er þeim mikilvægt í lífinu, bæði hvað varðar áþreifanlega hluti og óáþreifanlega.

Þær geta virst kaldar á yfirborðinu, en undir niðri eru þær áhyggjufullar. Þeim finnst þær aldrei vera að gera nóg eða standa undir væntingum. Þær vilja sífellt betrumbæta það sem þær taka sér fyrir hendur.

Við fyrstu kynni virkar Steingeit traustverðug og ákveðin, en getur líka verið hörð í horn að taka. Í henni blundar viðskiptamaður og hún vill alltaf eiga nóg í sig og á. Hún á auðvelt með að neita sér um hluti, en er tilbúin til að eyða peningum á „réttum“ stöðum, til dæmis í föt sem sýna fram á stöðu hennar.

 

Vatnsberi

Rísandi Vatnsberar hafa einstaka orku; óvenjulega, frumlega og ögrandi. Þeir hafa gaman af því að sjokkera aðra, þó ekki á jafn úthverfan hátt og sum önnur rísandi merkjanna.

Einstaklingar með rísandi Vatnsbera eru afar hugsandi og klárir. Þeir sökkva sér í ýmsan fróðleik og fara í gegnum lífið með forvitni að leiðarljósi. Þeir eru oft vel lesnir. Þeir elska að rýna í rannsóknir, hugtök og tölur og eru afar greinandi.

Rísandi Vatnsberar eru hnyttnir og geta verið dálítið kaldhæðnir. Þeir eru afar samfélagslega þenkjandi og hugsa yfirleitt um þarfir fjöldans frekar en þarfir einstaklingsins. Þeim ferst vel að starfa á sviði mannúðarmála. Samfélagið og mannskepnan heillar Vatnsberann mjög.

Rísandi Vatnsberar eru yfirleitt vinalegir í viðkynningu og afslappaðir. Þeir þurfa á frelsi og rými að halda til að blómstra. Þeir geta verið ansi þjóskir og fastir fyrir. Skoðunum þeirra verður ekki haggað svo auðveldlega.

Þeir skoða heiminn og annað fólk með forvitnum augum og eiga það til að virðast aftengdir í samskiptum. Það er vegna þess að þeir geta sett allar tilfinningar til hliðar þegar þeir meta hlutina. Þeir geta þó gleymt að rækta tilfinningaveruna innra með sér og nálgast náin sambönd og tilfinningar annarra örlítið kuldalega.

Oft er talað um rísandi Vatnsbera sem hálfgerðar geimverur. Þeir eru óhefðbundnir og kæra sig kollótta um hvað öðrum finnst um þá. Þrátt fyrir þetta eru þeir snjallir í samskiptum og búa yfir aðdráttarafli sem tekið er eftir.

 

Fiskar

Rísandi Fiskar hafa yfir sér djúpa, blíða og innhverfa orku. Þeir eru síbreytilegir og ferðast með straumnum frá degi til dags. Þeir eru afar tilfinningalega þenkjandi og hugur þeirra er opinn.

Einstaklingur með rísandi Fiska er skapandi, viðkvæmur draumóramaður. Hann á það til að týna sér í dagdraumum og hugsunum á borð við „hvað ef?“.

Rísandi Fiskar geta virst rólegir og inn í sig, en annan dag eru þeir stórhuga og ástríðufullir. Þeir eru dálítið eins og syndandi fiskar í sjó, fljótandi til og frá í straumnum – stundum í úfnum sjó og stundum stilltum.

Rísandi Fiskar hafa hlýtt hjarta og eru ljúfir við sína nánustu. Það er yfirleitt nokkuð áreynslulaust að nálgast rísandi Fiska, þeir eru heillandi og nærvera þeirra getur verið afar róandi.

Þeir geta verið dálítið leitandi og eirðarlausir. Ákvarðanataka er langt frá því að vera þeirra sterkasta hlið og stundum þurfa þeir að hrista sig til, ef þeir vilja ekki fljóta sofandi að feigðarósi. Þeir eru með höfuðið í skýjunum flesta daga og ára þeirra er draumkennd og yfirnáttúruleg á stundum.

Rísandi Fiskar forðast yfirleitt átök eins og heitan eldinn. Þeir kjósa ávallt friðsemd.

Rísandi Fiskum reynist oft erfitt að falla inn í mót samfélagsins og þeir spjara sig best hafi þeir nægilegt frelsi og fjölbreytni í lífinu.

 

Smelltu hér til að lesa brakandi og feskt helgarblað Mannlífs eða flettu því hér fyrir neðan:

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -