Þriðjudagur 19. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Hvaða matarlandslag viljum við?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Höfundur / Gísli Matthías Auðunsson

Það er staðreynd að lífræn ræktun hefur allt of oft verið töluð niður á Íslandi á meðan henni er fagnað í nágrannalöndum okkar og neytendur kalla hástöfum eftir henni. Lífræn vottun er besta vottun sem hægt er að fá, vegna þess að meira að segja þeir sem taka að sér að meta framleiðsluna þurfa að hafa vottun erlendis frá og frá MAST.

Neytendur geta verið vissir um að vel sé staðið að öllu ferlinu í lífrænni ræktun sem gagnast vel jarðveginum jafnt sem neytendum. Við heyrum enn sagt: „Íslenskar afurðir eru næstum því allar lífrænar“ en það er auðvitað langt frá því að vera satt.

Hér á landi eru styrkir aldrei tengdir við framleiðsluaðferðir, eins og t.d. þá að framleiða lífrænt. Hins vegar hefur ESB notað styrki og veitt þá eftir framleiðsluaðferðum og fær lífræn ræktun styrk umfram aðra ræktun á grundvelli umhverfissjónarmiða. Á Íslandi er nær allt ráðstöfunarfé í landbúnaði skilyrt tilteknum fæðutegundum, þar er fyrirferðarmest nautgripa- og lambakjötsrækt og ylrækt.

Aðeins nokkrar gerðir grænmetisræktunar eru styrktar; agúrkur, paprikur og tómatar. Útiræktun er að öllu leyti óstyrkt. Sem er ótrúlegt, þar sem það vinnur augljóslega á móti fjölbreytni. Auk þess ættu bændur að fá styrki eftir prósentum af því sem þeir selja hvort sem það er tómatur eða radísa. Þá borgar ríkið með hverjum mjólkurlítra úr kúm en komi hann úr öðrum dýrum, eins og geitum eða kindum, eru engir styrkir veittir. Þess vegna væri fróðlegt að vita hvað  ostur úr íslenskum geitum þarf að kosta til samanburðar við niðurgreiddan skólaost?

Hluti af vandamálinu er að það er nánast ómögulegt fyrir nýja aðila að koma að borðinu; kjötafurðastöðvarnar verða bara stærri og allir þeir sem reyna að breyta til eða koma með nýjungar (bændum og neytendum í hag) er kastað út á mjög vafasaman hátt. Gamla viðmótið: „Þetta hefur alltaf verið gert svona“ tröllríður öllu í afurðastöðunum. Margar ástæður eru fyrir því að sala á lambakjöti dregist saman síðustu ár og sá hugsunarháttur er stór hluti af vandamálinu.

Samruni sláturhúsanna og fækkun þeirra í tvö til þrjú, eins og afurðastöðvarnar vilja, mun gera allt verra, flytja þarf afurðirnar langar leiðir, þótt framleiðni vissulega aukist er gróðinn mestur fyrir afurðastöðvarnar en skilar sér ekki til bænda. Það á að einfalda regluverkið svo bændur geti sett upp litlar kjötvinnslur á sínu búi og slátrað og selt sitt eigið kjöt.

- Auglýsing -

Samkeppni myndi aukast en hún þyrfti ekki að koma utan frá. Að mínu mati á að hefta innflutning á erlendu kjöti því við þurfum það ekki. Ég er heldur ekki fylgjandi því að við göngum í ESB. Við eigum að kaupa staðbundnar vörur eftir því sem við framast getum, en þá þarf líka að búa til hvetjandi kerfi og auka fjölbreytni í stað þess að framleiða bara sömu vörurnar ár eftir ár. Við þurfum að halda áfram, skoða vel aðstæður og spyrja hvernig getur kerfið orðið betra? Möguleikarnir eru endalausir!

Markmiðið ætti að vera að framleiða eins fjölbreytta og holla afurð með eins litlum kolefnisfótsporum og hægt er. Við getum það!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -