Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Hver er Hallur Gunnar? Strauk úr Vesturbænum, níddist á börnum og þvottavélin kom honum í klandur

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Hallur Gunnar Erlingsson Reyndal var aðeins þriggja ára þegar hann var fyrst til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í febrúarmánuði árið 1964 fjallaði Þjóðviljinn um ævintýralegt strok Halls Gunnars af gæsluvelli í Vesturbænum. Guttinn fór víða um bæinn, nokkurra kílómetra leið í leit að heimili sínu. Lýst var eftir Halli Gunnari í útvarpi og fjölmargir borgarbúar voru uggandi og óttuðust hið versta. Björgunarsveitir voru í viðbragðsstöðu til þegar útvarpið flutti þjóðinni mikil gleðitíðindi, en nánar er fjallað um strok Halls Gunnars hér neðar.

Fimmtíu og sjö árum síðar er aftur leitað að Halli. Rétt eins og árið 1964 skaut hann þjóð sinni skelk í bringu. Skotið hafði verið á fjölskyldubíl Dags B. Eggertssonar og þjóðin var slegin óhug. Byssumaður gekk laus.

Hallur Gunnar var handsamaður og aftur fagnaði þjóðinn að Hallur væri fundinn en sú gleði var á öðrum forsendum.

Eitt sinn glöddust landsmenn að lítill þriggja ára drengur kæmst aftur í fang móður sinnar. Nú varpaði þjóðin öndinni léttar að Hallur, grunaður um að vera óði byssumaðurinn með ægilega fortíð, sat á bakvið lás og slá, þessi fyrrverandi lögregluþjónn og barnaníðingur sem hafði fengið uppreist æru fyrir sín skelfilegu ódæðisverk.

Í þessari nærmynd verður fjallað um Hall Gunnar Erlingsson Reyndal, fyrrverandi lögregluþjón, barnaníðing og byssumann. Hann sat í gæsluvarðhaldi en losnar í dag.

Strok hljóp í snáðann

Aðeins þriggja ára gamall er Hallur Gunnar fyrst til umfjöllunar í fjölmiðlum. Árið er 1964 og þó Þjóðviljinn sé aðeins 12 síður er málgagn Sósíalista í fullu fjöri, fréttirnar áhugaverðar og spriklandi skemmtilegar en þess má geta að blaðinu var lagt árið 1992.

- Auglýsing -

Á baksíðunni 19. febrúar er fjöldi merkilegra tíðinda og þarna kennir ýmissa grasa. Íbúar í Þorlákshöfn eru illir vegna hafnarframkvæmda og flugmálasamband Norðurlands er stofnað. Þá verður ekki hjá því komist að rifja upp er eldri maður og lítill frændi hans lentu í hremmingum í Háskólabíó. Í miðri sýningu uppgötvaðist að litli kútur var lasinn. Þeir fengu hvergi að fara enda stranglega bannað í Háskólabíó að hleypa fólki út í miðri sýningu. Neyddust þeir til að dúsa í kvikmyndahúsinu þar til tjaldið féll.

Allt var þetta og fleira til umfjöllunar á baksíðu Þjóðviljans. Neðst á síðu 12 lesum við um kjörna fulltrúa er þáðu boðsferð gæslunnar til að skoða Surtsey. Á meðan þingmenn flugu yfir sótsvörtu nýju landi þann 18. febrúar fékk Hallur Gunnar 3 ára nóg af vist sinni hjá fóstrum á Drafnaborg í Vesturbænum. Hann laumaði sér af gæsluvellinum og setti stefnuna á miðbæinn, þaðan upp í holtin, í áttina að Barónsstíg 65. Eitt og annað freistaði hans á leiðinni svo á meðan flóttanum stóð var útvarpið komið í spilið. Í blaðinu segir:

„Hann heitir Hallur Gunnar Erlingsson. Ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess að boða út leitarflokk með tilkynningu í útvarpinu.“

Lítið að frétta

Þá segir ekki af Halli Gunnari fyrr en árið 1980 er hann ásamt bróður sínum skrifar minningargrein um tvo vini sína er farast í átakanlegu sjóslysi í Vestmannaeyjum. Þá líða 20 ár og Vísir gefur Halli pláss í tilefni fertugsafmælis árið 2000. Það eru aðeins þrjú ár í að verði opinberað að Hallur Gunnar er barnaníðingur sem svífst einskins.

- Auglýsing -

Árið 2003 er það staðfest sem margað hafa grunað. Fyrrverandi lögregluþjónninn, Hallur Gunnar er dæmdur í héraðsdómi. Niðurstaðan er aðeins 18 mánaða fangelsi fyrir hrottaleg og ítrekuð kynferðisbrot gegn þremur börnum en stúlkurnar tengdust honum fjölskylduböndum. Brot Halls ná yfir langt tímabil. Hallur neitar sök en Hæstiréttur staðfestir dóminn síðar það sama ár.

Ótrúlegt atvik í Grafarvogi

Áður en við fjöllum nánar um dómsniðurstöðu, svívirðileg brot og vægan dóm fyrir hrottaleg kynferðisbrot er stóðu yfir í fleiri ár, verðum við að koma við á vef DV og nú er árið 2016. Hallur Gunnar er þar þátttakandi í einni af furðufréttum miðilsins. Fréttin fór víða og skemmti mörgum og hneykslaði aðra. Í aðalhlutverki voru maður að nafni Örn sem fer að mati lesenda með hlutverki hetjunnar, Hallur Gunnar var skúrkurinn og þriðja hlutverkið var í höndum þvottavélar.

Í frétt DV sagði:

„Ótrúlegt atvik átti sér stað í Grafarvogi en Örn nokkur kvaðst hafa orðið gapandi hissa þegar maður á nýlegum Hilux jeppa kom á plan á Krókhálsi þar sem hann Örn geymdi vagna. Þar henti maðurinn út þvottavél sem og umbúðum af nýrri vél.“

Þvottavélin á planinu hjá Erni

Furðulostinn fylgdist Örn með háttalagi mannsins en undir stýri var Hallur Gunnar. Örn reyndi að stöðva för hans en Hallur lét sem hann sæi hann ekki og stakk af.

„Ég hringdi í lögguna og hún ætlaði að gera eitthvað í málinu og eftir þrjá tíma var ruslið enn þá þarna svo ég hringdi aftur og svarið var bara að hringja á skrifstofutíma – svo ég tók málið í mínar hendur,“ sagði Örn en þegar lögreglan lét ekki sjá sig tók hann málin í sínar hendur.

Hann fann út hvar Hallur átti heima, henti þvottavélinni á pallbíl og ók með hana inn í fínt og fallegt hverfi í Grafarvogi. Örn segir eiganda vélarinnar hafa verið heima, í felum á bakvið gardínur. Örn steig út úr bílnum, náði í vélina, mjakaði henni og henti svo vélinni á planið hjá Halli.

Örn búinn að skila þvottavélinni

„Hann var búsettur í stóru einbýlishúsi á flottasta stað í Grafarvogi. Hann stóð í glugganum og horfði á mig að koma með dótið. Hann lét eins og hann sæi mig ekki. Hann sá mig alveg og passaði sig á að koma ekki til dyra,“ sagði Örn við DV.

Æran þvegin í Dómsmálaráðuneytinu

Í dómnum yfir Halli er hið hræðilega mál reyfað. Rétt er að vara lesendur við því að hér fyrir neðan er farið nokkuð ítarlega yfir gróf kynferðisbrot Halls og gæti það vakið óhug lesenda.

Hallur Gunnar beitti barnungar frænkur sínar grófu kynferðisofbeldi ótal sinnum á árunum 1995 til 2000. Tvær þeirra voru einungis 11 ára þegar ofbeldið hófst. Hallur var dæmdur fyrir að strjúka einu barninu um brjóst hennar, læri og kynfæri utan og innan klæða. Þá reyndi hann margsinnis að stinga tungunni upp í hana.

Önnur frænka Halls mátti þola gróft kynferðisofbeldi af hans hálfu frá 11 ára aldri og þar til hún varð 16 ára. Hallur Gunnar káfaði á brjóstum hennar, maga, lærum og kynfærum, bæði innan og utan klæða. Ítrekað reyndi Hallur að stinga tungu sinni upp í barnið.

Þriðji þolandinn var 12 ára telpa. Hallur Gunnar m.a. káfaði á brjóstum hennar og reyndi að kyssa það á hálsinn.

Rétt er að minna lesendur á að kynferðisbrot Halls stóðu yfir í mörg ár.

Niðurstaða dómara í héraði og í Hæstarétti var mörgum sár vonbrigði. Fyrrverandi lögregluþjónn sem braut á og misnotaði sér traust barna um árabil fékk 18 mánaða fangelsidóm.

Hallur dásamaður

Hallur afplánaði sinn dóm og hefur líklega verið látinn laus eftir tólf mánuði af átján, hann gæti jafnvel hafa losnað á helming. Slíkt er algengt. Hallur hélt einnig fram sakleysi sínu, tók hann fyrir að vera kynferðisbrotamaður, hvað þá að níðast kynferðislega á frænkum sínum. Þetta var einhver misskilningur.

Nokkrum árum síðar, ákvað Hallur að sækja um uppreist æru. Með umsókn umsækjanda átti að fylgja tvær eins konar yfirlýsingar frá fólki sem gat vottað um að viðkomandi hefði tekið sig á og væri betri manneskja. Í stað tveggja vottorða um bætta hegðun, skilaði Hallur sjö.

Líkt og fram kemur á vef Rúv og mbl.is árið 2017 voru þrjú bréfanna rituð skömmu áður en hann sótti um uppreist æru. Tvö bréfanna voru skrifuð áður en dómur féll og munu þau ekki hafa verið skrifuð í tengslum við uppreisn æru umsóknina.

Í bréfunum er farið afar fögrum orðum um Hall Gunnar. Honum er lýst sem samviskusömum, góðum föður, nákvæmum, vinnusömum og góðum.

Þá er hann sagður kátur.

Meðmælendurnir, hverjir eru þeir?

Gunnar Þorsteinsson virðist þekkja Hall úr starfi. Ekkert kemur fram annað en nafn hans og því óljóst hvort Gunnar kenndur við Krossinn skrifar eða alnafni hans. Hann hefur ekki enn svarað fyrirspurn Mannlífs. Gunnar þessi skrifar:

„Ég kynntist Halli á árinu 2002. Hann hefur reynst vera ábyrgur og traustur. Í mannlegum samskiptum býr hann yfir ágætum eiginleikum. Hann er góður eiginmaður og faðir og hefur náð að halda utan um sína nánustu og veita þeim skjól og hlýju í stormum lífsins. Hann er röskur til starfa og fylginn sér í verki. Þau verkefni sem hann hefur tekið að sér hefur hann unnið með miklum sóma og metnaði.“

Ólafur nokkur Guðmundsson segir Hall ávallt vera með bros á vör. Lítið er læsilegt í hans meðmælum því búið er að fjarlægja bróðurpart bréfsins. Þó segir þar:

„Hallur er mjög duglegur og ósérhlífinn […] sem sinnti starfi sínu af alúð. Hann var alltaf tilbúinn að vinna hvort sem var á nóttu eða degi. Hann var alltaf kátur og brosandi og þægilegur í viðmóti.“

Friðrik Ingvi Jóhannsson segist hafa kynnst Halli árið 1987 og eftir það hafi þeir orðið vinir.

„Vinátta sem haldist hefur og staðið alla raun […] sínu af dugnaði og samviskusemi. Hann gætti ætíð hófs, var vandvirkur og varkár bæði í orðum og athöfnum. Hann bar öryggi samstarfsmanna sinna […] mjög fyrir brjósti og kom óumbeðið til aðstoðar. […]

Ég kynntist einnig eiginkonu […] en þau hjónin hafa búið börnum sínum gott heimili, hlúð að þeim og hvatt þau áfram af mikilli alúð og engu óhófi. Við […] ásamt fjölskyldum okkar höfum heimsótt hvora aðra. Hafa þau kynni öll verið hin ánægjulegustu. Einnig höfum við ferðast saman okkur öllum til mikillar ánægju, en lítið hefur orðið úr því síðustu árin.“

Lárus Kjartansson er einn þeirra sem baðst síðar afsökunar á því að hafa skrifað meðmælin. Hann kynntist Halli við sameiginleg störf sem varð að vináttu. Lárus skrifaði:

„Eftir að Hallur hætti störfum […] hefur vinátta okkar haldið áfram og erum við í reglulegu sambandi. Ég hef kynnst fjölskyldu hans og oft komið inn á heimili hans, sem er mjög fallegt og snyrtilegt.

Nokkrir sem höfðu starfað sem lögregluþjónar, og gera sumir enn, skrifuðu meðmæli með Halli. Síðar kom í ljós að það höfðu þeir gert áður en Hallur hlaut dóm og vissu þeir ekki að bréfin yrðu notaði í þeim tilgangi. Þau bréf eru flest nokkuð stutt. Grétar Sæmundsson, þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn, skrifar:

„Í störfum sínum hefur hann sýnt af sér frumkvæði og verið ósérhlýfinn og samviskusamur.“

Friðrik Björgvinsson yfirlögregluþjónn virðist einnig vera að mæla með Halli sem starfsmanni en ekki að hann fái uppreistn æru.

„Hann hefur marga góða kosti til að bera sem prýða þurfa […] er stundvís, samviskusamur, ósérhlífinn og lipur í mannlegum samskiptum. Hann hefur og sýnt mikið frumkvæði í stafi en frumkvæði er forsenda þess að árangur náist.“

Benedikt Lund, fyrrverandi lögreglumaður, skrifaði einnig ódagsetta umsögn en þar segir:

„Ég kynntist [Halli] er hann hóf störf […] Síðan hef ég fylgst með Halli í leik og starfi. Hallur er mjög fylginn sér við það sem hann tekur sér fyrir. Hann á mjög gott með að lynda við fólk, hefur létta lunda og á afar gott með að kynnast fólki. […] hefur verið mikill áhugamaður um íþróttir.“

Hetja stígur fram

Árið 2017 steig Anna Signý Guðbjörnsdóttir fram í viðtali við RÚV eftir að í ljós kom að æra Halls Gunnars hafði verið þveginn í dómsmálaráðuneytinu. Að veita barnaníðingi uppreist æru er að lýsa yfir að hann sé með hreinan skjöld og það aðeins nokkrum árum eftir að Hallur losnaði úr fangelsi. Það var Önnu Signý mikið áfall að fá fréttirnar. Þar sagði hún að sterkasta vopn barnaníðinga sé þöggunin. Anna Signý sagði að með ákvörðuninni væri verið að staðfesta það sem Hallur Gunnar hafði alltaf haldið fram:

„Hann hafði ekki gert neitt rangt.“

Hallur Gunnar hefur aldrei sýnt iðrun, segir Anna og bendir á að í bréfi til forseta kemur hvergi fram að hann iðrist gjörða sinna.

„Og hann hefur ekki gert það síðan.“

Anna upplýsti að henni hefði borist tölvupóstur frá Halli Gunnari eftir að hann frétti að hún ætlaði að slíta öllum samskiptum við hann. Það gerði hún vegna fjölskyldutengsla og vildi vernda sitt fólk.

„Ég ákvað að slíta sambandi við þau öll, til þess að vernda mig og mín börn. Þá sendi hann mér póst og segir að EF hann hefur gert eitthvað, þá biðst hann afsökunar. Og þetta EF… ég hló og ég varð sár og ég varð reið… þannig að nei, hann hefur aldrei sýnt neina iðrun.“

Anna segir Hall Gunnar halda fram að málið sé á misskilningi byggt. Sá misskilningur sé fólgin í því að stúlkurnar ljúgi. Hann sé saklaus. Finnst Önnu að með því að veita honum uppreist æru sé verið að færa honum vopn í hendurnar.

„Nú er hann bara kominn með gögn og getur sagt að hann sé kominn með hreinan skjöld núna. Það særir mig, mér líður mjög illa yfir því.“

ég varð sár og ég varð reið

Margar ákvarðanir forseta og dómsmálaráðherra hafa verið umdeildar og vakið reiði. Þá sprakk ríkisstjórnin á endanum er í ljós kom að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, veitti barnaníðingi sín meðmæli. Gladdi það Önnu að oftar virtist hlustað á þolendur.

„Ég í rauninni sagt varla trúði þessu og ég var bara svo glöð, að það sé verið að taka mark á þessu. Verandi fórnarlamb barnaníðings þá er maður alltaf að efast um þetta.“

Viðtalið við Önnu Signý er afar áhrifaríkt og mun án efa hafa hjálpað öðrum þolendum að stíga fram. Kynferðisbrot eiga ekki að vera í þögguninni. Anna Signý segir:

„Þöggunin er stærsta vopn gerandans og ég ætla að taka þetta vald til baka sem hann hafði yfir mér öll þessi ár.“

Hér má horfa á viðtalið við Önnu.

Verð að vernda sjálfa mig og mín börn

Anna Signý seg­ir mann­inn aldrei hafa viður­kennt brot­in og tel­ur mögu­legt að Hallur átti sig ekki á því að hann hafi gert eitt­hvað rangt. Hún sleit sam­skipt­um við mann­inn, hálf­syst­ur sína og fjöl­skyldu þeirra 2014.

„Ég ákvað að ég yrði að vernda sjálfa mig og mín eig­in börn. Þá sendi hann mér tölvu­póst og þar rit­ar hann að ef hann hafi gert eitt­hvað biðjist hann af­sök­un­ar og seg­ir að það sé al­menn­ur mis­skiln­ing­ur að með því að fyr­ir­gefa eitt­hvað sé maður að samþykkja það sem hef­ur gerst. Svo biðst hann af­sök­un­ar á að trufla mitt til­finn­inga­líf og eitt­hvað svona. Þetta var ótrú­lega skrítið og þetta:

Ef ég gerði eitt­hvað þá biðst ég af­sök­un­ar.

Hann er dæmd­ur barn­aníðing­ur. Það fer ekk­ert á milli mála að það er ekk­ert ef. Hann gerði þetta og þetta er ótrú­lega erfitt af því sem barn, að lenda í þessu, þá trú­ir maður þessu ekki og fer að ef­ast um sjálf­an sig og þegar hann seg­ir svona, ef, þetta er bara valdið sem hann er að sýna fram á. “

Barnaníðingur stjórnarmaður

Vilhjálmur Svan

Hallur Gunnar var síðan til umfjöllunar í DV árið 2018 þegar fjallað var um nytjamarkaðinn Von. Formaður félagsins var Vilhjálmur Svan Jóhannsson. Hann var sakaður um að fá muni úr dánarbúum til að selja á nytjamarkaðinum en hluti hagnaðarins átti að renna til góðgerðarfélaga.

Í DV var greint frá að félög sem Vilhjálmur kvaðst styrkja opinberlega sáu ekki krónu. Hjá Von störfuðu síðan tveir barnaníðingar, annar þeirra var Hallur Gunnar, og var hann um tíma stjórnarmaður hjá Von. Aðspurður hvort ekki væri ábyrgðarhluti að ráða slíka menn í vinnu, svaraði Vilhjálmur:

„Eiga menn engrar uppreisnar von? Ég hafði ekki hugmynd um að Hallur hefði lent í einhverju veseni. Ég get svarið það, það kom bara upp einn daginn. Mér kemur það mjög lítið við hvað menn hafa þurft að prófa í ógæfugarðinum. Ég hef þurft að prófa það sjálfur.“

Skotárásin

Hallur Gunnar losnaði úr gæsluvarðhaldi í dag. Stutt er síðan lögregla taldi hann ógn við almenning. Hefur það breyst? Samkvæmt aðstoðarmanni Dags B. Eggertssonar virðist Hallur hafa lagt fæð á borgarstjóra, en Dagur og Hallur virðast ekki eiga sér samskiptasögu.

Það er sláandi að barnaníðingi hafi verið veitt uppreist æru nokkrum árum eftir dóm. Þá þykir mörgum undarlegt að til er fólk sem finnst sjálfsagt að hæla slíkum hrottum í meðmælabréfum, dásama mannkosti þeirra eða allt þar til meðmælendur eru opinberaðir.  Þá verður allt að misskilningi.

Þolendur niðurlægðir

|
Ólafur Ragnar veitti Halli uppreist æru

Hallur Gunnar fékk forseta og ráðherra til að skrúbba af sér allar sýnar syndir, alla vega á pappír. Að  mati þolenda var fortíð hans fegruð og þótti þeim verknaður hinna kjörnu fulltrúa vera algjör niðurlæging. Sú upplifun á algjörlega rétt á sér.

Þá er rétt að spyrja var það dómgreindarleysi af hálfu yfirvalda að veita Halli uppreist æru? Hallur er grunaður um að hafa í tvígang hleypt af 22 kalíbera til að ógna  borgarstjóra.

Dæmi nú hver fyrir sig.

Skotárásin hefur haft djúpstæð áhrif á þjóðina alla og hafa flestir fylgt sér á bakvið borgarstjórann. Hefur Dagur verið gagnrýndur af litlum hópi fyrir að sýna tilfinningar í fréttum RÚV og það sagt merki um veikleika. Annar fámennur hópur segir viðtalið sviðsett með aðstoð Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra en hann var áður borgarritari og náinn samstarfsmaður Dags.

Hataði Hallur Laugaveginn?

Hvað var það svo sem rak byssumanninn til þess að fremja þetta voðaverk? Kannski fáum við aldrei svör við því né skiljum hvað lág að baki. Hataði hann Samfylkinguna? Er hann á móti göngugötum? Vill hann geta ekið allan Laugaveginn á enda?

Líklega fáum við aldrei að vita það.

Hallur neitar að hafa skotið á bíl borgarstjóra, rétt eins og hann tók fyrir að vera kynferðisbrotamaður. Það eru því litlar lýkur á að forvitnir Íslendingar fái að vita hvað vakti nákvæmlega fyrir Halli, fari svo að hann verið fundinn sekur.

Hallur Gunnar er hann starfaði sem lögregluþjónn

Fyrir viku var Hallur talinn hættulegur öðrum. Í dag hefur það breyst því ekki var farið fram á varðhald yrði framlengt. Hallur kemst því heim til sín í dag.

Fari svo að barnaníðingurinn og lögregluþjónninn fyrrverandi verði dæmdur fyrir að skjóta tveimur byssukúlum í fjölskyldubíl borgarastjóra, þá er líklegt að ein spurning muni koma upp í huga margra:

Ætli sá dómur verði þyngri en 18 mánaða dómurinn sem Hallur Gunnar fékk fyrir að ráðast yfir nokkurra ára tímabil með kynferðisofbeldi á litlar frænkur sínar, er voru aðeins 11 ára gamlar?

Hvað heldur þú?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -