Hver verður næsti forstjóri Icelandair?

Deila

- Auglýsing -

Björgólfur Jóhannsson.

Björgólfur Jóhannsson tilkynnti það í vikunni að hann væri hættur sem forstjóri Icelandair. Kom tilkynningin í kjölfar nýrrar afkomuspár félagsins, en hún lækkaði frá því sem áður var. Í tilkynningunni sagði Björgólfur að ákvarðanir sem hafi valdið félaginu fjárhagslegu tjóni hafi verið teknar á hans vakt, þar með talið breytingar á leiðarkerfi Icelandair. Því hafi hann tekið þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu.

Mikið hefur verið fjallað um erfiðleika íslensku flugfélaganna tveggja, Icelandair og WOW air, síðustu vikur, en gengi bréfa í Icelandair Group hríðféllu eftir að ný afkomuspá var birt og Björgólfur tilkynnti uppsögn sína.

Íslensku flugfélögin: Of stór til að falla

Bogi Nils Bogason.

Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair, hefur tekið við forstjórastarfinu tímabundið, en miklar vangaveltur eru innan viðskiptalífsins og ferðaþjónustunnar, hver taki við af Björgólfi og reyni að snúa gengi fyrirtækisins við. Álitsgjafar Mannlífs telja ólíklegt að Bogi verði ráðinn forstjóri til langstíma, enda hefur hver svört afkomuviðvörunin á fætur annarri verið birt á vakt hans sem fjármálastjóra. Þó reynslumikill sé telja álitsgjafar hann mögulega skorta djúpa þekkingu á rekstrinum til að taka við af Björgólfi.

Sagði upp í byrjun ágúst

Jón Karl Ólafsson.

Eitt nafn sem kemur upp sí og æ hjá álitsgjöfum Mannlífs er Jón Karl Ólafsson, sem varð forstjóri Icelandair árið 2004 og síðan forstjóri Icelandair Group á árunum 2005 til ársloka 2007. Ku hann vera ansi líklegur í starfið, sérstaklega í ljósi þess að fyrir stuttu var sagt frá uppsögn hans sem framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia. Sú tilkynning barst í byrjun ágúst, en ljóst er að það hafi verið aðdragandi að uppsögn Björgólfs hjá Icelandair. Jón Karl er mikill reynslubolti, en hann var framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands á árunum 1999 til 2004 og tók við sem forstjóri JetX/Primera Air árið 2008. Þá hefur hann setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og stofnana, meðal annars Útflutningsráðs Íslands og Samtaka ativnnulífsins.

Helgi Már Björgvinsson.

Reynslumikill og vel menntaður

Helgi Már Björgvinsson hefur einnig verið nefndur í sömu andrá og forstjórastóllinn, en hann er í stjórnandastöðu hjá Icelandair Group og sinnir meðal annars verkefnum sem koma að stefnumótun hjá fyrirtækinu. Hann hefur verið lengi hjá Icelandair, allt frá árinu 1999, og hefur unnið út um allan heim fyrir fyrirtækið, til dæmis sem sölu- og markaðsstjóri og svæðisstjóri. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að ef ákveðið verði að ráða innanbúðarmann í forstjórastarfið sé Helgi Már einn vænsti kosturinn. Mjög reynslumikill og vel mentnaður, með BS í markaðs- og stjórnunarfræði frá háskólanum í Suður-Karólínu og meistarapróf í viðskiptafræði frá SCP-EAP European School of Management í París.

Erfitt að finna forstjóra úr ferðaþjónustunni

Halldór Benjamín Þorbergsson.

Álitsgjafar vefsins telja Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, einnig góðan kost en hann starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Icelandair Group. Halldór er menntaður hagfræðingur og reyndur stjórnandi, en sumir álitsgjafar Mannlífs efast þó um að hann verði fyrir valinu sökum lítillar reynslu í ferðaþjónustu.

Í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, var síðan sagt frá því að nafn Jóns Björnssonar, forstjóra smásölukeðjunnar Festar, væri ofarlega á blaði þar sem hann hefði töluverða reynslu af því að endurskipuleggja rekstur fyrirtækja. Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að Jón sé sterkur kandídat í starfið.

Álitsgjafar Mannlífs eru sammála um að erfitt verði fyrir Icelandair Group að finna íslenskan forstjóra með mikla reynslu úr ferðaþjónustu og því gæti farið svo að leitað verði út fyrir landsteinana, þó álitsgjöfum finnist það ólíklegt. Einhverjir sem Mannlíf ræddi við telja líklegt að næsti forstjóri verði einhvers konar frontur fyrir fyrirtækið, sem myndi þá þýða að styrkja þyrfti framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

- Advertisement -

Athugasemdir