Hvernig á að meta manneskjur

Deila

- Auglýsing -

Undanfarið hefur verið um fátt meira talað en kjarabaráttuna og yfirvofandi verkföll. Líkt og venjulega vara fulltrúar vinnuveitenda eindregið við launahækkunum og segja hrun heilla atvinnugreina yfirvofandi verði af þeim. Verkalýðsforystan stendur keik á móti og bendir á að engin sanngirni sé í að stór hópur fólks geti ekki lifað af launum sínum. Og báðir hafa rétt fyrir sér.

Hér eru fyrirtæki er ekki þola miklar hækkanir, einkum vegna þess að í hvert sinn sem reynt hefur verið að ná fram hækkunum til handa þeim lægst launuðu magnast óánægjuraddir upp allan launastigann. Ramakveinið, menntun borgar sig ekki og mín stétt hefur dregist verulega aftur úr öðrum sambærilegum er allt of kunnuglegt stef. Launabarátta undanfarinna áratuga hefur nefnilega að stórum hluta gengið út á að troða öðrum nægilega langt niður fyrir sig fremur en að bæta eigin stöðu. Og þetta er ein ástæða þess að illa hefur gengið að skapa verkafólki mannsæmandi kjör. Fyrirtækin hafa einfaldlega ekki efni á að taka á sig góða hækkun á launum hinna lægstlaunuðu og í ofanálag bæta sömu prósentutölu ofan á laun annarra starfsmanna.

Menntun er metin til launa þótt vissulega megi til sanns vegar færa að sumar menntastéttir njóti fáránlegra forréttinda. Á hinn bóginn er bæði ósanngjarnt og óréttlátt að setja dæmið upp þannig að tiltekinn árafjöldi í háskóla eigi að nægja einn og sér til að tryggja ákveðið há laun. Það er menntahroki, lítilsvirðing gagnvart þeim sem vinna erfiðustu störfin. Menntun er og á að vera einn þáttur í mati á verðmæti starfskrafts en ekki endilega ráðandi þáttur. Margt annað verður að koma til. Hverjar eru starfsaðstæður? Láglaunafólk leggur oft heilsu sína og jafnvel líf að veði í sínu vinnuumhverfi. Ber ekki að meta það til launa? Ótalmargir búa að mikilli reynslu er nýtist þeim í starfi og hæfni sem bæði er meðfædd en einnig oft þjálfuð upp í gegnum þátttöku þeirra í alls konar verkefnum. Á það ekki að vega þungt líka?

Ísland hefur jafnan stært sig af lítilli stéttaskiptingu og að hér sé gott flæði milli stétta, þ.e. að menn geti auðveldlega bætt stöðu sína með menntun, dugnaði eða útsjónarsemi. Núverandi verkalýðsforysta hefur bent á að einmitt þetta er orðið næsta ómögulegt þeim verst settu í íslensku samfélagi. Viljum við það? Ef ekki, ber okkur núna að taka á málum þannig að veruleg kjarabót náist fyrir verkafólk og hinir verða bara að bíta í það súra að hugsanlega geti skúringakerling leyft sér þann lúxus að fara út að borða og sitja á næsta borði við þá. Ef ekki er samstaða um að allir hafi hér jöfn tækifæri til að öðlast lífsgæði verður þess ekki langt að bíða að stéttamunurinn verði óbrúanlegur með þeirri tortryggni og togstreitu sem hann skapar. Flestir hafa meðfædda réttlætistilfinningu og dómgreind og hún segir okkur að ekkert sé eðlilegt við það að einn hafi meira en hann mun nokkru sinni þarfnast meðan annar líður skort.

- Advertisement -

Athugasemdir