„Í stað þess að tækla hlutina og eiga á hættu að rugga bátnum þá deyfði ég mig bara“

Deila

- Auglýsing -

Hlynur Kristinn Rúnarsson upplifði skelfilega hluti þegar hann var í neyslu, segist hafa verið sjálfhverfur og skaðað fólkið í kringum sig.

Hlynur er breyttur maður í dag og hefur stofnað góðgerðasamtök, Það er von, til að vinna að forvörnum. Hlynur prýðir forsíðu helgarblaðs Mannlífs.

„Mætti mótlæti sem ég var ekki í stakk búinn til að takast á við“

Þegar Hlynur var kominn heim frá Brasilíu í byrjun árs 2017 fór hann að vinna á Grundartanga, en var sagt upp eftir þrjá mánuði í starfi. „Ég var látinn fara þar sem þeir héldu að ég myndi fá einhvern til að smygla fyrir mig, ég skil ekki hvernig þeir fengu það út. Það braut mig mjög mikið niður, ég lagði mig mikið fram og var edrú. Það að vera aflífaður í fjölmiðlum hefur áhrif og nokkrir einstaklingar lögðu sig mikið fram um að koma eins miklum sora og hægt var á mig. Ég setti mynd inn á Facebook hjá mér og sagði að ég væri byrjaður að vinna hjá Norðuráli en missti starfið tveimur vikum seinna. Ég er fullviss um að einhver hringdi í þá og sá til þess að ég var rekinn. Yfirmenn mínir vissu alveg að ég hafði verið í fangelsi, ég hafði verið heiðarlegur með það.“

„Ég hefði átt að vera einn og byggja sjálfan mig upp, en þetta þróaðist svona og neyslan varð mjög fljótt stjórnlaus.“

Hlynur fór í aðra vinnu, þar sem honum var líka sagt upp. Og í þriðja starfinu var hann byrjaður að nota fíkniefni aftur. „Ég var settur á stera samkvæmt læknisráði, þegar ég hætti á þeim fór ég í andlega lægð og mætti mótlæti sem ég var ekki í stakk búinn til að takast á við. Ég hefði átt að vera einn og byggja sjálfan mig upp, en þetta þróaðist svona og neyslan varð mjög fljótt stjórnlaus. Ég fór í samband þegar ég kom heim sem var óheilbrigt fyrir okkur bæði og braut mig mikið niður. Ég hélt ég væri skotnari í henni en ég var en var aðallega hrifinn af hugmyndinni að vera ástfanginn. Ég lagði mikið á mig til að gera einhverja rómantíska hluti en henni fannst það ekkert spennandi, enda var hún sjálf bara flöt eftir neyslu,“ segir Hlynur þegar hann hugsar til baka. „Ég skildi þetta ekki fyrr en ég varð edrú sjálfur, að vera tilfinningalega flatur, finna ekki fyrir neinu. Ég hélt að þetta væri út af mér, að ég væri ábyrgur fyrir því að hún sýndi mér ekki tilfinningar, að það væri vegna þess að ég væri ekki eitthvað og braut sjálfan mig mikið niður.“

Mynd: Hákon Davíð Björnsson

Sambandinu lauk og segir Hlynur að sambandsslitin hafi ekki farið vel í hann og eftir þau hafi hann farið á kaf í neyslu. „Ég hvarf gjörsamlega, byrjaði að reykja krakk og gerði það í heilt ár. Í stað þess að tækla hlutina og eiga á hættu að rugga bátnum þá deyfði ég mig bara. Ég gat ekki tæklað neitt, gremjan byggðist upp og mér fannst ég vera fórnarlamb. Í stað þess að vinna í hlutunum, tala við fólk og finna lausnir, þá bara hlóð ég öllu upp inni í mér og vann gegn mér.“

„Ég skammaðist mín vegna þess að ég dæmdi sjálfur aðra svo mikið.“

Hlynur segir að neysla hans hafi haft mikil áhrif á fjölskyldu hans. „Fólk hélt að ég væri bara að drepast. Ég fór nokkrar ferðir í sjúkrabíl í krampa og mér er bannað að koma á nokkur hótel af því ég yfirgaf þau alltaf í sjúkrabíl. Mér leið illa og var ekki tilbúinn að takast á við sjálfan mig, ég dæmdi mig svo mikið að ég gat í rauninni ekki horft í augun á fólki, beðið um hjálp og farið í meðferð og tekið mig á,“ segir Hlynur, sem segist áður hafa dæmt AA-menn sem aumingja, menn sem eru í sömu sporum og hann í dag. „Ég skammaðist mín vegna þess að ég dæmdi sjálfur aðra svo mikið.“

Lestu viðtalið við Hlyn í heild sinni í nýjasta Mannlífi. 

- Advertisement -

Athugasemdir