• Orðrómur

„Ég er ekki með byssu eða neitt til að verja mig hérna“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Úr fjarska virðast þetta vera snyrtileg hús og lóðin í kringum þau sömuleiðis. Því er þó ekki að neita að svæðið er ansi einangrað og engan annan mannabústað að sjá í grennd.

Smáhýsi í Gufunesi, sem Reykjavíkurborg úthlutar fólki sem býr á götunni.

Undanfarið hafa smáhýsi á vegum Reykjavíkurborgar, sem staðsett eru í Gufunesi og ætluð eru einstaklingum með vímuefna- og geðvanda, orðið fyrir töluverðri gagnrýni.

- Auglýsing -

Þykir mörgum það ótækt að staðsetja slík hús svo langt frá allri nauðsynlegri þjónustu. Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins er einn af þeim sem hefur tjáð sig um málið, en hann sagði í samtali við Morgunblaðið fyrir skemmstu: „Það er hreint út sagt skelfilegt að planta fárveiku fólki eftirlitslausu úti í móa. Með þessu er Reykjavíkurborg einfaldlega að kuska af sér vandann og henda honum til hliðar svo hann sjáist ekki lengur.“

Samkvæmt upplýsingum á vef borgarinnar eiga smáhúsin að vera öruggt húsnæði, allan sólarhringinn, fyrir einstaklinga með vímuefna- og geðvanda.

Þar segir: „Því fylg­ir að þeir hafa greiðari aðgang að þjón­ustu og stuðningi. Skil­yrði fyr­ir því að ein­stak­ling­ur fái smá­húsi út­hlutað er að hann sé í virkri þjón­ustu vett­vangs- og ráðgjafat­eym­is Reykja­vík­ur­borg­ar (VoR). Teymið starfar eft­ir Hús­næði fyrst-hug­mynda­fræðinni sem geng­ur út á að allt fólk eigi rétt á hús­næði og geti haldið því með ein­stak­lings­bund­inni þjón­ustu þvert á kerfi.“

- Auglýsing -

Mannlíf ákvað að fara á staðinn og kanna hver skoðun íbúa smáhúsanna væri á húsnæðinu, staðsetningu þess og aðstæðum.

Einungis búið í einu húsi

Við eitt húsanna hékk þvottur fyrir utan og bönkuðum við þar upp á.

- Auglýsing -

Emelie og Snorri

Til dyranna kom Snorri Albertsson og bauð hann okkur inn. Við beygðum okkur undir teppi sem hengt hafði verið í dyraopið og gengum inn í reykmettaða íbúðina. Þegar inn var komið blasti við lítil, dimm íbúð. Fljótlega kom í ljós að Snorri átti hins vegar ekki heima þarna.

Beint á móti innganginum var hurðarlaust baðherbergi. Sturtuslanga lá á gólfinu, gólfið á floti, engan klósettpappír að sjá, en fullur poki af lyfjum og sprautum lá í vaskinum.
Einu sjáanlegu húsgögnin í íbúðinni voru slitinn sófi og svo virtist rúm leynast undir gríðarstórri hrúgu af fötum og dóti. Í miðri hrúgunni sat kona og reyndi að kveikja sér í sígarettu. Fljótlega kom í ljós að hún var íbúi hússins og jafn framt eini íbúi svæðisins, Emelie Jacob, 32 ára gömul kona sem hefur verið í neyslu frá 14 ára aldri.

Aðspurð, sagði hún að eins og staðan væri núna, stæðu fjögur hús af fimm tóm. En samkvæmt Emilie hefur aldrei verið flutt inn í eitt húsanna.

„Í einu húsinu er bara gæji sem leigir fíklum íbúðina sína, sem er ekki alveg skemmtilegt sko. Annað hvort býr manneskjan þarna eða ekki.“ Emelie segir manninn búa með kærustu sinni í JL húsinu, en þar sé athvarf fyrir fólk í neyslu sem sé vaktað allan sólarhringinn. „Það er miklu öruggara sko,“ segir Emelie.

Í hinum tveimur húsunum bjó fólk sem nú hefur flúið vegna þess óöryggis sem Emelie segir íbúana finna fyrir, en margoft hefur verið brotist inn í húsin og skemmdarverk unnin á þeim. „Fólk kemur hingað og brýtur glugga, það er búið að brjóta hjá mér glugga svona tuttugu sinnum. Þetta er perfect staður að nóttu til þess að gera eitthvað svona, það heyrir enginn neitt. Það er mikið óöryggi, það er líka búið að handrukka marga hérna,“ segir Emilie og auðséð að henni stendur ekki á sama.

Séð inn í yfirgefið smáhýsi.

Hún segir að slík ólæti fylgi oft fólki í neyslu, en hægt væri þó að gera svæðið ákjósanlegra búsetu, sem jafn framt myndi minka atgang óeirðaseggja. „Mér finnst þetta skrítin staðsetning. Og það eru ekki einu sinni ljósastaurar hérna, svæðið verður bara svart þegar það er orðið dimmt.“

Skortir eftirlit með svæðinu

Vettvangs- og ráðgjafateymi Reykjavíkurborgar kemur tvisvar á dag til Emelie, sem hún segir mjög gott. Segist hún til að mynda nýverið hafa lent í miklum vandræðum. Búið var að eyðileggja símann hennar svo hún gat ekki kallað eftir hjálp: „Þá kom VoRdinn minn og bjargað lífi mínu,“ og á þá við aðila úr teymi Reykjavíkurborgar.

Emelie segir marga fíkla vera skíthrædda við VoR-teymið, „margir halda að það sé löggan og þora ekki að koma hingað, sem er jákvætt líka,“ segir hún og brosir.

En hún vill meina að lögreglan sé hætt að nenna koma á svæðið. „Ég hringdi í lögregluna um daginn því það var gaur að kveikja í sófa alveg upp við húsið mitt og löggan fór bara að spjalla og spurði: „Þarftu eitthvað að fá lögregluna til þín eða?“ segir Emelie og hlær kaldhæðnislega. „Þetta er svo mikið rugl sko.“

Emilie segir það strax myndi veita meira öryggi ef settar yrðu upp öryggismyndavélar.
„Ég er ekki með byssu eða neitt til að verja mig hérna, fólk hikar ekki við að nóttu til að slamma gluggann minn, því þúst það heyrir það enginn.“

Áður hefur Emelie búið í gámum sem er sambærilegt úrræði og smáhýsin. Hún segist afar ánægð með húsið en hún hafi þó upplifað sig öruggari í gámunum en í Gufunesi: „Þetta er alveg geðveikt, þetta er náttúrulega ekki alveg eins og gámurinn, ég hef búið í gámnum, en ég er samt öruggari þar en hér, mér fannst það.“

Emelie Jacob

Emelie hefur fengið vini í heimsókn á nýja heimilið sitt, sem hafa verið hrifnir: „Margir vinir mínir hafa komið og bara eitthvað elska pleisið, en þeir hafa ekki prufað að vera hérna í 24 tíma,“ segir hún og vitnar í óöryggið og eftirlitsleysið á svæðinu.

Helluborðið og sjónvarpið selt

Þegar Emelie flutti inn var íbúðin búin innbyggðum ísskáp, helluborði, örbylgjuofni, sjónvarpi og þvottavél. Húsgögnum og leirtaui segist hún hafa þurft að skaffa sjálf. Inni í íbúðinni er þó ekkert sjónvarp, helluborð né örbylgjuofn að sjá, en segist Emelie vera búin að selja það. Hún bætir því við að hún hafi í raun einnig selt þvottavélina, en hana sé hún búin að fá til baka.

Smáhýsi í Gufunesi, sem Reykjavíkurborg úthlutar fólki sem býr á götunni.

„Við fíklar gerum þetta bara. Við hugsum bara að fá ódýrara, eitthvað ódýrara, við sjáum einhvern ofn sem getur eldað hamborgarahrygg þá seljum við hann fattaru?“

Hún segir engan pott eða pönnu hafa verið í húsinu og segist sjálf ekki hafa efni á því að kaupa slíkt: „Þetta var eitthvað keramikhelluborð, ég á ekki einhvern 12.000 kall til að kaupa pönnu sem passar á það, frekar heimskulegt. Þannig ég bara seldi það.“

Emelie er að sögn afar ánægð með húsið sjálft, en segir staðsetninguna ekki ákjósanlega. Þá segir hún aukið eftirlit nauðsynlegt á stað sem þessum.

„Það væri gott ef eftirlitið væri meira svo maður finni fyrir meira öryggi að búa hér.“

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -