Miðvikudagur 5. október, 2022
4.8 C
Reykjavik

Inga minnist Jónínu stóru systur: „Ég mun sakna þín til hinstu stundar og minnast þín með gleði“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Ingibjörg Sara Benediktsdóttir segir það vonlaust að ætla að fylla það tómarúm sem varð til við fráfall Jónínu systur hennar. Hennar muni hún sakna til sinnar hinstu stundar og minnast með bæði gleði og stolti yfir að hafa átt sem systur og vinkonu.

Ingibjörg minnist stóru systur sinnar í hjartnæmri færslu á Facebook. Hún segir það einmitt vera sitt síðasta prakkarastrik til Jónínu að birta minningarorð sín þar í stað þess að birta þau í Morgunblaðinu. „Ég var að hugsa um að senda minningargrein um fenomenið systur mína í blöðin. Svo áttaði ég mig á því að ég er búin að búa of lengi í Noregi til að vera meðvirk með þessu liði. Missi örugglega nokkra vini en það verður bara að hafa það. Fjölmiðlar voru alltaf frekar tilbúnir til að skrifa um systur mína þegar illa áraði en þegar vel gekk. Veit að hún hefði orðið brjáluð út í mig að birta þessi skrif mín ekki í Morgunblaðinu sem hún elskaði að lesa, að birta þetta bara hér á mínum vegg á facebook verður síðasta prakkarastrikið mitt til þín Jónína mín,“ segir Ingibjörg.

„Hins vegar sá ég aldrei fyrir mér systur mína sem aldraða konu með göngugrind, það hefði passað henni ákaflega illa“

Ingibjörg segir að í sumum samfélögum fæðist stundum svo stórir einstaklingar að fólk standi bara á gati og að Jónína systir hennar hafi sannarlega verið slík. „Það var 8 ára aldursmunur á okkur, sem minnkaði með árunum en ég man lítið eftir henni sem barn. Bara þessari rosalega fallegu og duglegu systur minni, sem vonlaust var að vera í einhverri samkeppni við. Held að við foreldrar og systkini höfum öll áttað okkur snemma á því að Jónína var eitthvað svo miklu stærra en bara dóttir og systir, hún var það sem ég myndi kalla á norsku „fenomen“ eða fyrirbæri,“ segir Ingibjörg og heldur áfram:

„Við systur vorum talsvert ólíkar og ósammála um margt, hún skyldi ekkert í mér að vera trúlaus, vinstri sinnuð og ekki vildi ég koma í detox með henni og háðum við marga rimmuna um þau málefni, allt þó í góðu. Mér fannst örugglega jafn gaman að stríða henni og henni mér. Það var henni mjög erfitt að þiggja en ekki gefa. Þær eru fallegar síðustu minningarnar sem við eigum um hana. Það eru þær sem eru mikilvægastar. Hún var ekkert á förum, hugurinn var alls ekki á förum, hún elskaði jólin, elskaði að gefa. Því miður er það svo að þótt hugurinn sé í bata þá segir líkaminn stundum stopp. Hins vegar sá ég aldrei fyrir mér systur mína sem aldraða konu með göngugrind, það hefði passað henni ákaflega illa. Hún lifði hratt en hefði svo sannarlega mátt fá mörg ár í viðbót, kynnast barnabörnunum betur, sjá þau vaxa úr grasi og jafnvel eignast ný.“

Hér er fjölskyldan saman komin. Foreldrarnir Ásta og Benedikt á sitthvorum vængnum í efri röð og á milli þeirra eru eldri systkini Jónínu, Pálmi og Hólmfríður. Í neðri röðinni eru yngri systur Jóninu, þær Helga (lengst til vinstri) og Inga í miðjunni. Jónína heitin er svo lengst til hægri.
Ingibjörg segir þau systkinin sjaldan hafa tekið hvert annað alvarlega og það hafi iðulega verið mikið hlegið á hittingum. Þrátt fyrir strangar sóttvarnarreglur náðu þær systur að faðmast í haust áður en Jónína kvaddi. „Ég faðma þig bara samt“ sagði hún þegar við hittumst í haust í fermingarveislu í miðju kófinu og ég eitthvað að reyna að halda 2ja metra reglu, nýkomin frá Noregi. Mikið afskaplega þykir mér núna vænt um að hún hafi þó einu sinni haft vit fyrir beturvitanum litlu systur sinni og gefið mér þetta yndislega faðmlag, sem reyndist því miður okkar síðasta. Við sitjum hérna öll eftir hálfdofin. Hún elskaði ömmu hlutverkið og spillti barnabörnunum vísvitandi. Það var ekki síst þeim að þakka að hún fékk trú á sjálfri sér aftur sem einstaklingi og að ömmuhálsakotið væri nóg, að hún þyrfti ekki að gefa öllum gull og græna skóga til að fólki þætti vænt um sig. Dætrum mínum var hún góð frænka og þær höfðu oft á orði að Jónína frænka væri allt önnur manneskja en þessi Jónína Ben sem stundum var í fjölmiðlum,“ segir Ingibjörg og bætir við:
„Ég mun varðveita minningu systur minnar sem fjársjóð og fæ vonandi tækifæri til segja næstu kynslóð frá uppátækjum hennar og elsku. Líf þitt var stundum dans á rósum systir en þyrnarnir stungu oft illa. En þó þú bognaðir þá gafstu aldrei upp, þerraðir tárin og hélst áfram þinn veg – á þinn hátt. Tómarúmið sem þú skilur eftir þig verður vonlaust að fylla, ætla ekki einu sinni að reyna það. Þessi fátæklegu skrif mín koma öllum tilfinningum mínum til þín ekki alveg til skila. Ég mun sakna þín til hinstu stundar og minnast þín með gleði og stolti yfir því að hafa átt slíka systur og vinkonu. Kærar þakkir fyrir samfylgdina allt mitt líf.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -