Það sem af er ári hafa 2070 tilkynningar borist til réttindagæslumanna fatlaðra.
Inga Björk Margrétardóttir Bjarnadóttir segir þetta vera áhyggjuefni í ljósi þess að ekki öll brot séu tilkynnt.
„Þessar tölur eru auðvitað mjög ógnvekjandi og sérstaklega í því ljósi að þetta eru tilkynnt brot þannig að við höfum engar raunverulegar tölur um hversu mörg brot eru raunverulega, þetta eru bara þau sem eru tilkynnt til réttindagæslunnar,“ sagði Inga í samtali við Vísi.
Inga segir að flestir fatlaðir geti búist við því að verða fyrir ofbeldi á einhverjum tímapunki á lífsleiðinni, en um margskonar brot er að ræða.
Aðallega hafi heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi verið í umræðunni en Inga segir fleiri birtingamyndir þess eiga sér stað. Fatlað fólk upplifi ýmsar þvinganir sem það býr við ofbeldi.
„Það er frelsissvipting, það er verið að taka af því hjálpartæki sem eru þeim lífsnauðsynleg, það er verið að neita þeim um aðstoð, til dæmis til að komast í bað, á klósettið eða jafnvel að borða,“ segir Inga.
Hún kveðst hafa séð fram á bjartari tíma í þessum málum í ársbyrjun þegar þegar ríkislögreglustjóri birti skýrslu sem fjallaði um þennan vanda á Íslandi. Síðan þá hafi því miður litlar breytingar átt sér stað og tilkynningarnar aukast, í heild sé ekki nægilega vel haldið utan um ofbeldismál fatlaðs fólks.
Hún segir Kvennaathvarfið til dæmis óaðgengilegt fyrir konur í hjólastól og að lögregla geti gert betur þegar mál fatlaðra koma inn á borð til þeirra.
Inga bætir við að dómskerfið sé líka vandamál en segir hún að ólíklegra sé að men séu dæmdir sekir fyrir brot gegn fötluðum en ófötluðum.