• Orðrómur

Ingólfur Arnarson hefði skammast sín í Reykjavík nútímans: „Hví þetta rugl?“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Guðni Ágústson, Framsóknarmaður og fyrrverandi ráðherra, segir að unglingar séu hvergi nærri sá hópur sem sé íslenskunni verstur. Helstu böðlar íslenskunnar er miðaldra kaupsýslumenn að sögn Guðna. Hann skrifar um þetta grein í Morgunblaðinu en í henni veltir hann fyrir sér hvernig Ingólfur Arnarson hefði tekið því að Gamla gufan á Laugarvatni héti í dag „Fontana“.

„Oft heyrist að börn og unglingar séu íslenskunni verst og séu mest enskuskotin í tali. Þetta er alrangt. Þau læra erlend tungumál strax en stærstur hluti þeira talar gott móðurmál. En börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Ég held að verstu óvinir íslenskunnar séu miðaldra karlar í atvinnurekstri. Fyrirtækjanöfnin eru til vitnis um það. Dauði íslenskunnar blasir við í nafngiftum fyrirtækja og er brennimerkt á stafn og dyr, erlend nöfn og heiti. Þótt mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir geri margt til að styrkja stöðu íslenskrar tungu og reyni að bjarga bókaútgáfunni, þá kemur atvinnulífið úr allt annarri átt og vanvirðir grundvallaratriði nafngifta fyrirtækja,“ segir Guðni.

Hann minnir á að árið 2011 hafi Alþingi sett ákvæði um þetta í stjórnarskrá Íslands. „Árið 2011 setti Alþingi ákvæði í stjórnarskrá Íslands um að íslenskan sé þjóðtunga landsins. „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“ Er það brot á stjórnarskrá að nota ekki íslensk nöfn á íslensk fyrirtæki? Nöfn þjónustufyrirtækja í Reykjavík eru að verða með þeim hætti að um gæti verið að ræða erlenda borg þegar gengið er um göturnar,“ segir Guðni.

- Auglýsing -

Hann segir kaupsýslumenn vera furðugóða í því að finna afleit nöfn á rekstur sinn. „Mathöll Ingólfs Arnarsonar eða Hallveigar Fróðadóttur eru hvergi, þrátt fyrir að við vitum allt um landnám þeirra. „Sky Lagoon“ er ný ferðamannaparadís á höfuðborgarsvæðinu sem milljónir manna munu heimsækja á næstu árum, ekkert síður innlendir en erlendir. Bláa lónið er afburðanafn, íslenskt nafn í húð og hár. Skýjalónið eða Skýjaborgin hefði verið kjörið og lýsandi nafn á „Sky Lagoon“, því þar verða gestirnir skýjum ofar af sælu. Hvers vegna á ekki að gera kröfu um að fyrirtæki beri íslenskt nafn? Hvers vegna er lögum um fyrirtækjanöfn ekki framfylgt? Erlend nöfn fyrirækjanna standa einnig í vaxandi mæli í íslenskri sveit. Gott dæmi er „Fontana“, frábært gufubað þar sem Gamla gufan stóð á Laugarvatni. Við eigum eitt elsta mál heimsins.“

Guðni telur að fyrsti landnámsmaður Íslands væri ekki sáttur ef hann vissi af þessu Þú myndir, lesandi góður, skilja Ingólf Arnarson, fyrsta landnemann í Reykjavík, ef þú mættir honum á Arnarhóli. Ingólfur mundi spyrja þig: „Hví þetta rugl í nafngiftum, land þjóð tunga, þrenning sönn og ein,“ myndi hann mæla og bæta við: „Það er íslensk tunga sem hefur mótað land þitt og höfuðborg þess.“ Nema enska sé talmál himnaríkis? Og karlinn farinn að ryðga í tungumálinu. Eyjafjallajökull var skemmtilegasta verkefni sem fréttamenn um víða veröld reyndu að bera fram, besta ókeypis auglýsing allra tíma. Grindvíkingar nefndu nýja hraunið Fagrahraun, rammíslenskt og lýsandi. Hvers vegna leggur ríkið milljarða í móðurmálskennslu þegar misvitrir atvinnurekendur borga ráðgjöfum fyrir að setja útlend nöfn á fyrirtækin, staðsett á Íslandi? Tungumálið er okkar stærsta eign ásamt landinu sjálfu og gerir okkur að þjóð. En kannski er öllum sama um forna frægð móðurmálsins, lands og þjóðar.“

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -