Miðvikudagur 6. desember, 2023
0.8 C
Reykjavik

Ingunn Unnsteinsdóttir Kristensen: „Heilahristingur er mjög vangreindur á Íslandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir mig að fá tækifæri til þess að sinna þessu og er Opni háskólinn að sinna flottu starfi. Ég er ekki að segja að ég sé að byrja minn feril beint innan háskólasamfélagsins en ég er búin að vera í akademíunni í nokkur ár sem doktorsnemi. Það er mjög spennandi að fá að halda áfram að starfa innan háskólans en þó með allt öðrum hætti en ég er búin að vera að gera. Þetta er gríðarlega mikið tækifæri til að vaxa í starfi,“ segir Ingunn Unnsteinsdóttir Kristensen sem nýlega var ráðin sem forstöðukona Opna háskólans í Háskólanum í Reyjavík og er nýbúin að verja doktorsverkefni sitt við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Mig langar til að koma með meiri tengsl inn í akademsísku deildirnar í HR.

„Mig langar til að koma með minn akademíska bakgrunn inn í þetta umhverfi. Það er frábært teymi sem er að vinna hérna sem er að vinna flott starf og ég er spennt að fá að móta stefnu Opna háskólans með þeim. Mig langar til að koma með meiri tengsl inn í akademsísku deildirnar í HR; það er náttúrlega gríðarleg þekking sem er hérna í húsi og flottur grundvöllur fyrir flottu og öflugu samstarfi á milli deilda og þá með Opna háskólanum.“

Ingunn talar um hve heppin hún hefur verið með fólk sem hún hefur unnið með og hjálpað henni að vaxa í starfi. „Ég hef til dæmis haft flottar kvenfyrirmyndir þegar kemur að starfi mínu undanfarin ár. Dr. María Kristín Jónsdóttir er ein þeirra sem hafa markað sér vonandi varanlegan sess í mínu lífi en hún var aðalleiðbeinandi á verkefninu mínu og samstarfið við hana hefur verið bæði lærdómsríkt og gefandi. Dr. Hafrún Kristjánsdóttir, Dr. Sigrún Helga Lund og Dr. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir voru einnig hluti af nefndinni minni og var virkilega gott að vera með svona öflugt stuðningsnet í kringum sig. Hafrún og María hafa reynst mér sérstaklega vel og verður gaman að fá að halda áfram að vinna með þem í HR þó það verði undir öðrum formerkjum.” María Jónsdóttir  er professor við sálfræðideild HR og Hafrún Krisjánsdóttir er deildarforseti íþróttafræðideildar.

Ingunn Unnsteinsdóttir Kristensen
(Mynd: Skúli Andrésson.)

Áhrif heilahristings

Ingunn varði nýlega doktorsverkefni sitt við sálfræðideild HR. Opin kynning á verkefninu verður svo 9. desember.

„Þetta er stórt verkefni, stór rannsókn, og ber yfirskriftina Heilahristingur meðal kvenna á Íslandi – Margþátta rannsókn. Rannsókninni er ekki lokið en verkefni mitt er hluti af þessari stóru rannsókn þar sem er verið að skoða heilahristing hjá íþróttakonum og vorum við að skoða tengsl heilahristings við líðan, meðal annars við þunglyndi og kvíða og við hugræna færni, og lagði ég meðal annars taugasálfræðileg próf fyrir þátttakendur.

- Auglýsing -

Ég vann líka hluta af rannsóknni með teymi Dr. Paolo Gargiulo sem kemur allt úr verkfræðideild. Í þeim hluta voru íþróttakonum boðið að taka þátt í rannsókn í sýndarveruleika og hafa niðurstöður þess hluta nú þegar verið birtar.  Annar angi á þessari rannsókn er að skoða hvort hormónabreytingar komi fyrir hjá konum sem hafa fengið heilahristing. Lára Ósk Eggertesdóttir Claessen, doktorsnemi og læknir,  vinnur þann hluta undir leiðsögn Helgu Ágústu sem er sérfæðingur í innkirtlalækningum. Við förum svo fljótlega af stað með nýgengisrannsókn á heilahristing en hún hefur tafist mikið  vegna Covid. Í henni munum við fylgja eftir liðum í fótbolta, handbolta og körfubolta og kortleggja heilahristing yfir tímabilið.“

Það er þess vegna mikilvægt að það sé rétt fræðsla í samfélaginu og það sé verið að rannsaka þetta.

Ingunn er spurð hvers vegna hún hafi ákveðið að taka þetta fyrir í doktorsverkefni sínu. Hún segir að þegar sér hafi verið boðið að taka þátt í þessari rannsókn hafi hún verið búin að vinna sem aðstoðarframkvæmdastýra Mjölnis í um það bil fimm ár. „Þar vann ég með krökkum sem voru í íþrótt þar sem var hætta á að þau fengju heilahristing. Mér fannst það þess vegna ekki vera spurning þegar mér var boðið að taka þátt í þessu verkefni. Heilahristingur er mjög vangreindur á Íslandi og úrræðin sem eru í boði eru ekki mörg. Fólk veit oft ekki hvernig það á að takast á við eða glíma við einkenni sem geta orðið mjög alvarleg og koma oft ekkert í ljós alveg strax. Það er þess vegna mikilvægt að það sé rétt fræðsla í samfélaginu og það sé verið að rannsaka þetta; hvað er að gerast, hvað er að hafa áhrif og hvernig einkenni þróast.“

 

- Auglýsing -

Auka aðgengi að sálfræðiþjónustu

Ingunn tók þátt í að koma á fót nokkurs konar heilahristingsmóttöku sem kallast Heilaheilsa. Á heimasíðunni stendur: „Heilaheilsa veitir faglega og trausta þjónustu þar sem áhersla er lögð á að efla heilaheilsu og að bæta líðan. Við bjóðum upp á sérhæfða þjónustu við einkennum heilahristings, sálfræðimeðferð, líkamsþjálfun, námskeið og þjónustu við fyrirtæki, fagaðila og stofnanir. Markmið okkar er að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu og efla þjónustu við þá sem glíma við einkenni heilahristings.“ Ingunn er ein af eigendum Heilaheilsu sem vinna í nánu samstarfi við Kim og sjúkraþjálfarateymi hans í Kim endurhæfingu

Við erum að fá til okkar yngra fólk og þá sérstaklega íþróttafólk sem er að glíma við einkenni.

„Ólína Viðarsdóttir sálfræðingur, sem er einn af eigendunum Heilaheilsu, er aðalsprautan í þessu verkefni og er búin að leiða það af gríðarlega miklum krafti. Heilaheilsa er búin að vera starfrækt í rúmt eitt og hálft  ár og erum við að taka á móti fólki sem er að glíma við einkenni heilahristings; bæði fólk sem er að glíma við langtímaafleiðingar og fólk sem eru nýbúið að fá heilahristing. Við erum að fá til okkar yngra fólk og þá sérstaklega íþróttafólk sem er að glíma við einkenni. Það er mikilvægt þegar fólk fær heilahristing að koma strax í eitthvað ferli til þess að takast á við einkennin og þá undir handleiðslu sérfræðinga.“

Ingunn Unnsteinsdóttir Kristensen
Fjölskyldan. Hjónin Ingunn og Haraldur Ingi Shoshan og synirnir Mikael Artúr, sem er sá eldri, og Hinrik Alexander.

Ágætis æfing í núvitund

Ingunn, sem dreymdi í æsku um að verða heilaskurðlæknir en varð svo doktor í sálfræði, ólst upp í Vogum á Vatnsleysuströnd og segir hún að því hafi fylgt mikið frelsi að alast þar upp. „Það þekktu allir alla í svona litlum bæ og maður var stundum fram á nótt að leika sér úti og það voru allir að fylgjast með manni og það var ákveðið öryggi í því.“

Það var stutt í fjöruna og oft fór hún þangað og lék sér í fjörunni og í öldunum. Faðir Ingunnar var sjómaður og segist hún bera óttablandna virðingu fyrir hafinu.

Ég veit auðvitað í dag að það gekk ýmislegt á þarna úti á þessum tíma og í dag er ýmislegt sem mig langar að vita varðandi ættleiðingarferlið og hvernig staðið hafi verið að öllu þarna úti.

Ingunn og bróðir hennar voru ættleidd frá Sri Lanka sama árið, árið 1985, en hann er fimm mánuðum eldri. „Ég ólst upp við það að foreldrar mínir sögðu að ég væri ofboðslega rík og ætti fjölskyldu á Íslandi og aðra á Sri Lanka og þau sögðu að þau hafi fengið að taka mig heim til Íslands af því að fjölskyldunni úti hefði þótt svo vænt um mig en hefði ekki getað hugsað um mig vegna þess að þau voru svo fátæk. Ég veit auðvitað í dag að það gekk ýmislegt á þarna úti á þessum tíma og í dag er ýmislegt sem mig langar að vita varðandi ættleiðingarferlið og hvernig staðið hafi verið að öllu þarna úti.“

Hún segir að sig hafi aldrei skort neitt né verið leitandi varðandi uppruna sinn en hún fór þó árið 2015 með eiginmanni sínum, Haraldi Inga Shoshan, til Sri Lanka meðal annars til að skoða landið og upplifa menninguna. „Það var yndisleg ferð og ég hitti fullt af fólki þar úti sem tók mér opnum örmum.“

Ingunn er félagslynd og segist í gegnumt tíðina hafa reynt að láta til sín taka og var í nemendafélaginu í grunnskóla, var í kór í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og í háskólakórnum þegar hún stundaði sálfræðininám við Háskóla Íslands en hún var einnig í stjórn Anima, nemendafélags sálfræðinema. Hún segist ekki hafa verið búin að æfa lengi í Mjölni þegar hún var komin þar í stjórn.

Ingunn er með með blátt belti í brasilísku jiu jitsu. „Ég byrjaði að æfa hjá Mjölni árið 2011. Ég var í sálfræðinámi á þeim tíma og voru vinir mínir að fara á æfingar hjá Mjölni og þegar ég fór á fyrstu æfinguna þá heillaðist ég af þessari íþrótt.“

Ég segi oft að þetta sé gríðarlega góð æfing í núvitund.

Hún segist líta á jiu jitsu sem ágætis æfingu í núvitund. „Maður mætir á æfingu og þar er fólk með ýmiss konar bakgrunn. Það þarf að reiða sig á tæknina til að yfirbuga andstæðinginn og snúa stöðunni við. Ég segi oft að þetta sé gríðarlega góð æfing í núvitund en maður þarf að vera fókuseraður inn á við. Maður þarf að spá mikið í hvað er að gerast í augnablikinu, hvað líkaminn getur gert og hver næstu skref eru. Maður getur á meðan ekki mikið verið að hugsa um aðra hluti eða hvað er að gerast fyrir utan. Maður þarf að vera í núinu og vera svolítið með fókusinn inn á við eins og ég sagði.“

 

Fordómar

Ingunn var líka um tíma í stjórn Íslenskrar ættleiðingar. „Þetta er málefni sem mig langar til að láta mig varða meira. Það var lærdómsríkt ferli að kynnast sögu ættleiðingar á Íslandi og hvað hefur breyst.“

Ingunn hefur í gegnum árin fundið fyrir ýmiss konar fordómum í sinn garð vegna dökks húðlitar síns en tekur fram að ekki hafi alltaf verið um illkvittni að ræða. „Stundum segir fólk hluti í hugsunarleysi og áttar sig ekki á vigt þess sem það er að segja. En þegar kemur að bakrunni eða húðlit fólks þá má fólk nú líka alveg staldra við og hugsa áður orðin eru látin falla.

Það hefur ýmislegt verið látið flakka í gegnum tíðina.

Það er ýmislegt sem hefur gerst sem hefur mótað mig. Ég hef oft þurft að eiga í krefjandi samskiptum við fólk og það markaði djúp spor og hefur haft áhrif á það hver ég er í dag. Ég held að margir með dökkt hörund hafi einhvern tímann upplifað fordóma á Íslandi. Ég hef fengið að heyra ýmislegt og ýmislegt hefur ekki verið sagt í illri meningu en oft fattar fólk ekki hvað það er að segja. Það hefur ýmislegt verið látið flakka í gegnum tíðina. Þegar ég var yngri þurfti ég oft að segja að ég væri íslensk og talaði íslensku. Þá upplifði ég mig stundum ekki sem hluta af hópnum. Mér fannst ég þurfa að velja hvernig ég skilgreindi minn bakrunn, annaðhvort þurfti ég að vera alíslensk eða útlensk. En eftir að ég varð eldri og sjálfsöruggari varðandi það hver ég er, sem fólst meðal annars í því að horfast í augu við mína kynhneigð og það að kannski eru strákar ekki bara aðalmálið, þá skiptir það mig minna máli hvernig ég skilgreini mig. Allt sem ég hef lent í hefur mótað mig og hjálpað mér á þeirri vegferð. Það að vera ættleidd lýsir fjölþættum bakrunni og kannski oft flókinni sögu og það er allt í lagi.“

Ingunn og eiginmaður hennar eiga tvo unga syni sem fæddust báðir á meðan móðir þeirra var í doktorsnáminu. „Það að eiga ung börn í námi hjálpaði klárlega til við að forgangsraða og setja hlutina í samhengi þegar það var álag. Og þó það hafi oft komið krefjandi tímar þá hefði ég eiginlega ekki viljað gera það öðruvísi; þeir hjálpuðu mömmu sinni alveg við að klára þetta. Núna hlakka ég bara til næsta kafla og hlakka til að takast á við ný og spennandi verkefni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -