Þriðjudagur 21. mars, 2023
0.8 C
Reykjavik

50 milljarða vanáætlun Samgöngusáttmála – Borgarstjóri og meirihlutinn krafin um skýringu

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, fór yfir Samgöngusáttmálann á laugardagsfundi Varðar sem haldinn var í Valhöll í dag . Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu á borgarstjórnarfundi í gær að óskað væri eftir viðræðum við fleiri sveitarfélög sem að sáttmálanum standa um að endurskoðunarákvæði yrði virkjað.

„Samgöngusáttmálinn kveður á um skipulag og fjármögnun á samgönguinnviðum, þar með talið innviðum á almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til 15 ára (2019-2033).

Í ræðu Mörtu útskýrði hún forsögu sáttmálans, markmið hans, kostnaðarliði og fjármögnun: „Heildarfjármögnun sáttmálans kvað á um framkvæmdir upp á 120 milljarða. Um 50 milljörðum var ætlað að verja í Borgarlínu, álíka upphæð í stofnbrautir og afganginum í göngu- og hjólastíga, göngubrýr, undirgöng, stafræna umferðarstýringu og „sértækar öryggisaðgerðir.“

Um 60-70 manns voru á Morgunfundi Varðar. Mynd: Aðsend/GL

Betri samgöngur annast framkvæmdir

Betri samgöngur var stofnað 2. október 2020 og er opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Á heimasíðu fyrirtækisins segir: „Ríkið, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnesbær undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu 26. september 2019. Ákveðið var að framkvæmdirnar yrðu í höndum fyrirtækis sem yrði stofnað í kringum þær. Ríkið og sveitarfélögin leggja til þrjá milljarða á ári og fyrirtækinu er ætlað að fjármagna það sem eftir stendur. Annars vegar með þróun Keldnalandsins, sem ríkið leggur fyrirtækinu til, og hins vegar með innheimtu flýti- og umferðargjalda, verði ákveðið að leggja þau á.“

Vanáætlun upp á 50 milljarða

- Auglýsing -

Marta Guðjónsdóttir sagði í ræðu sinni að þau sveitarfélög sem mælt hafa með því að endurskoða sáttmálann færðu fyrir því tvenns rök. Þau benda á að upphafleg kostnaðaráætlun sáttmálans hafi verið mjög vanáætluð auk þess sem að alvarlegar vanefndir á framkvæmdum sáttmálans.

Hún útskýrði hvernig að í uppfærðri kostnaðaráætlun frá Betri samgöngum hafi komið fram að tölulegur heildarkostnaðurinn hafi hækkað úr 120 milljörðum í 170 milljarða eða um 50 milljarða.

Marta sundurliðaði vanáætlun helstu framkvæmda:

  • Mislæg gatnamót á Sæbraut höfðu breyst í Sæbrautarstokk sem þar með hækkaði úr 2,2 milljörðum í 17,7 milljarða.
  • Kostnaðaráætlun vegna tengingar Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut hafði hækkað úr 1,6 milljarði í 4,9, milljarða.
  • Miklubrautarstokkur fór úr 21.8 milljarði og var kominn upp í 27,1 milljarð.
  • Fyrsti áfangi Borgarlínu úr 17.1. milljarði í 28.1.milljarða.
- Auglýsing -

Þá sagði hún: „Það sem ekki síst vekur athygli mína við þessa uppfærðu kostnaðarliði eru kostnaðarliðir hinna sex áfanga Borgarlínu. Samkvæmt uppfærðum kostnaðarliðum Betri samgangna hækkar fyrsti áfanginn lang, lang mest, úr 17,1 milljarði í 28,1 milljarð, eða um tæp 65 prósent. Aðrir áfangar Borgarlínunnar hækka hins vegar miklu minna, hlutfallslega, áfangar tvö og þrjú hækka til dæmis ekki nema um 24 prósent, enda er mun lengra í þær framkvæmdir.“

Hún sagðist hafa spurst fyrir um hina uppfærðu kostnaðaráætlun og að fátt hafi verið um svör: „Ég meðal annars krafði borgarstjóra og borgarfulltrúa meirihlutans um skýringu á þessu, í ræðu minni í borgarstjórn og ekkert þeirra gat gefið viðunandi skýringu. Þá datt mér í hug að uppfæra sjálf, uppfærslu Betri samgangna, og gera ráð fyrir að kostnaðarliðir áfanga tvö, þrjú, fjögur, fimm og sex, hækkuðu hlutfallslega á við fyrsta áfanga, eða um tæp 65 prósent. Og þá kemur í ljós að sameiginlegur kostnaður við alla sex áfanga Borgarlínu fer ekki úr 49.6 milljörðum í 68,6 milljarða, eins og Betri samgöngur gera ráð fyrir, heldur úr 49,6 milljörðum í 81.7 milljarða. Uppfærður kostnaður Borgarlínu
myndi með öðrum orðum hækka um rúma 13 milljarða. Uppfærður heildarkostnaður sáttmálans færi þá ekki í 170 milljarða, heldur í 183 milljarða.“

Marta Guðjónsdóttir á laugardagsfundi Varðar í Valhöll í morgun. Mynd: Aðsend/GL

Ekki er öll sagan sögð

Marta Guðjónsdóttir benti jafnframt á að: „Inn í þessari áætlun Betri samgangna er hvergi gert ráð fyrir kaupum á öllum þessum „hágæða, framúrskarandi, lúxus, grænu og umhverfisvænu“ vögnum Borgarlínunnar. Það er heldur hvergi gert ráð fyrir öllum þessum stórglæsilegu stoppistöðvum og skiptistöðvum Borgarlínunnar í þessum kostnaði. Betri samgöngur eiga eflaust eftir að koma með einhverja skýringu á þessu. En við eigum þá líka eftir að meta það hversu sannfærandi þær skýringar verða.“

Vanefndir á sáttmálanum

„Samkvæmt sáttmálanum átti að flýta tíu framkvæmdum en þrjár lykilframkvæmdir voru þó settar í algjöran forgang. Reykjavíkurborg átti strax að skipta út úreltum, gömlum
klukku-umferðarljósum, fyrir snjallljósastýringu. Reykjavíkurborg átti að ljúka við mislæg gatnamót Bústaðarvegar og Reykjanesbrautar árið 2021, og Reykjavík átti að tengja Arnarnesveg við Breiðholtsbraut árið 2021. Nú, árið 2023, hefur enn ekki verið hafist handa við þessar framkvæmdir,“ benti Marta á í ræðu sinni.

„Ekkert bólar á nýjustu tækni í ljósastýringum enda vilja borgaryfirvöld ekki standa við þann hluta samningins. Borgaryfirvöld og Betri samgöngur leyfa sér að halda því fram að ekkert hafi verið staðfest um yfirburði tölvustýrðra ljósa sem senda þó stöðugar upplýsingar sín á milli, auka umferðarflæði til muna og flokka og safna stöðugt upplýsingum í mikilvægan umferðargagnagrunn. Þetta eru því fáheyrðar yfirlýsingar í ljósi þess að slík ljós er löngu komin í notkun í flestum stórborgum Evrópu. Samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins er áætlaður stofnkostnaður af snjallstýrðum ljósum í borginni um 1,5 milljarðar króna (miðað við verðlag 2019). Áætlaður ávinningur af slíkum ljósum er talinn vera um 15% tímasparnaður fyrir fólksbíla, 50% minni biðtími ökutækja í biðröðum og 20% meira flæði almenningssamgangna. Það er mat Samtaka iðnaðarins að 15% minni umferðartafir í höfuðborginni, með snjallljósastýringu, muni skila um 80 milljörðum í ábata fyrir fyrirtæki og heimili á líftíma fjárfestingarinnar. Eru þá ótaldir aðrir ábataþættir á við mun minni loftmengun, styttri viðbragðstíma fyrir viðbragðsaðila og sparnað í öðrum aksturskostnaði. Það er hins vegar ekki að sjá að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi áhuga á því að færa samfélagi sínu 80 milljarða ábata fyrir einn og hálfan milljarð króna. Frekar vilja þau ganga á bak orða sinna og brjóta samninga, og ekki í fyrsta sinn,“ benti Marta Guðjónsdóttir á.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -