Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Að fá loksins frelsið var stórkostleg tilfinning“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér fannst ég heyra í öllum heimsins fuglum á leiðinni og var ekki viss um hvort þeir væru að fagna því að mannfólkið væri nú aftur komið á kreik eða hvort þeir væru að kallast á að nú væri friðurinn úti hjá þeim. Hvort sem það var, þá var dásamlegt að hlusta á þá,“ segir Rún Kormáksdóttir, fararstjóri á Tenerife, sem í dag fékk að fara út að hreyfa sig í fyrsta skipti í þær 7 vikur sem útgöngubann hefur staðið yfir á Spáni. Hún skellti sér í fjallgöngu og sagði frelsistilfinninguna stórkostlega.

„Við skelltum okkur beint í fjallgöngu og nutum hvers einasta skrefs og fagurs útsýnis upp til fjalla, yfir bæinn okkar og til sjávar. Ég fylltist hreinlega þakklæti yfir þessu frelsi. Sannkölluð sælutilfinning. Ég er mikill náttúruunnandi og því hefur mér reynst einna erfiðast að komast ekki í okkar reglulegu fjallgöngur. Mér leið eins og litlu barni sem bíður eftir jólunum og að komast út í frelsið eftir 48 daga í útgöngubanni var stórkostleg tilfinning,“ segir Rún sem reif fjölskylduna eldsnemma á fætur í morgun til að fullnýta þann tíma sem spænsk yfirvöld hafa gefið til hreyfingar og útivistar. COVID-19 hefur leikið landið grátt en ástandið hefur verið mun skárra á Kanaríeyjum bendir Rún á. Aðspurð segir hún að útgöngubannið hafi vissulega tekið á þar sem óvissan var erfiðust en að á sama tíma hafi hún haft næg tækifæri til að sinna áhugamálunum.

Rún

„Ótrúlegt en satt að þá hefur mér bara liðið vel. Allt sem heitir óvissa er hins vegar ekki minn tebolli. Um leið og dagsetningar skýrðust, þá varð allt miklu léttara en síðasta vikan var trúlega erfiðust. Við fjölskyldan ræddum vandlega saman um ástandið og tókum strax þá ákvörðun að þetta væri verkefni sem við myndum leysa í sameiningu með jákvæðnina að leiðarljósi. Hér gerðu sér líka allir grein fyrir þeirri hættu sem fylgir þessari veiru og því ekkert annað í boði en að taka þessu alvarlega,“ segir Rún og svarar því til að þrátt fyrir að dagarnir væru nú orðnir 48 í útgöngubanni hefði henni aldrei leiðst á tímabilinu.

„Ég er svo heppin að hafa áhuga á svo mörgu, m.a. á listræna sviðinu, þannig að ég fór beint í að skipuleggja alla daga þannig að ég gæti sinnt áhugamálunum, sem hafa fengið að sitja pínulítið á hakanum í gegnum tíðina. Ég hef verið dugleg að mála en með þeirri iðju hef ég farið daglega í huganum í fjörðinn minn fagra, Borgarfjörð eystri. Þá er ég búin að vera nokkuð dugleg að æfa mig á fiðluna mína og spila ýmis tríólög með dætrum mínum tveimur, sem spila á fiðlu og selló. Þá hef ég verið dugleg að lesa, hugleiða í sólinni, elda góðan mat, heyra í góðum vinum og ættingjum í gegnum hin ýmsu samskiptaforrit. Við erum t.d. búin að fara í gegnum nokkrar spurningakeppnir og núna síðast hittum við vini okkar í matarklúbbi, þar sem við elduðum og borðuðum öll það sama, nema bara í sitthvoru landinu.“

Rún segir það hafa hjálpað mikið til að hafa haft verönd og garð við heimili sitt. „Það eru algjör forréttindi að hafa haft útsýni til fjalla og sjávar heiman frá mér. Við vitum til fólks, sem býr hér á eyjunni og víðar sem hefur þurft að halda sig innan íbúðarinnar sinnar allan tímann, þar sem það hefur ekki einu sinni svalir til að viðra sig á í góða veðrinu og það hlýtur að hafa reynt á sálartetrið,“ segir Rún.
Rún segist hafa náð að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu þrátt fyrir útgöngubannið. Til þess hafi fjölskyldan reyndar þurft að fara á svig við tilmæli yfirvalda. „Ég verð því miður, þrátt fyrir að vera strangheiðarlegur borgari með mikla réttlætiskennd sem Víðir hefði verið stoltur af hefði ég verið á Íslandi, að viðurkenna brot mitt. Málið er að við fjölskyldan erum frekar ofvirk þegar kemur að hreyfingu og því var sú tilhugsun að fá ekki að fara út að hreyfa sig nánast óbærileg. Við ákváðum því að láta á það reyna að taka okkur göngu- og hlaupatúra í bílakjallaranum sem er hér undir fjölbýlishúsinu sem við búum í. Þar gengum við og hlupum reglulega yfir allt tímabilið, ellefu hringi í hvert skipti, sem töldu um 5 kílómetra leið. Það virtist vera þegjandi samkomulag á meðal íbúanna um þetta athæfi.“
Rún leggur á það áherslu að tveggja metra reglan hafi verið virt í hvívetna niðri í bílakjallaranum góða. „Um leið og einhver bættist í hópinn þá virtum við tveggja metra regluna og ef fleiri en tveir íbúar bættust við í hópinn þá fórum við og völdum annan tíma. Þetta voru í raun algjör forréttindi að geta hreyft sig svona,“ segir Rún og bætir því við að í útgöngubanninu hafi hún líka selt bifreið sína og þurfti kaupandinn einnig að brjóta gegn útgöngubanni. „Við seldum bílinn okkar á dögunum og það er svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að kaupandinn þurfti jú að skoða bílinn áður en hann keypti hann og til þess að komast í það verk í banninu, þá kom hann hingað á vinnubílnum sínum, útfararbílnum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -