Aðalheiður Ámundadóttir, fréttastjóri á Fréttablaðinu fór yfir stöðu geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi í leiðara Fréttablaðsins í dag.
„Þessi glötuðu mannslíf liggja milli línanna í ömurlegum vitnisburði um geðheilbrigðisþjónustuna í landinu, sem Ríkisendurskoðun birti nýverið. Geta kerfisins til að veita þjónustu er undir væntingum og bið eftir þjónustu alltof löng. Mismunun er innbyggð í kerfið og margir fá ekki þjónustu við hæfi vegna óljósrar ábyrgðar- og kostnaðarskiptingar, skorts á fjármagni, manneklu og úrræðaleysi.
Upplýsingar liggja ekki fyrir um alger grundvallaratriði eins og tíðni geðsjúkdóma, kostnað og mannaflaþörf. Í stuttu máli er þessi málaflokkur í rúst,“ segir Aðalheiður.
Þunglyndi helsta orsök örorku
Aðalheiður bendir á að þunglyndi sé ein helsta orsök örorku samkvæmt upplýsingum á vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og sjálfsvíg önnur helsta ástæða dauðsfalla fólks á aldrinum 15 til 29 ára. Þá er ævilengd fólks með alvarlegar geðraskanir 10 til 20 árum skemmri en annars fólks sem sýni hve sterk tengsl eru milli geðsjúkdóma og ótímabærra dauðsfalla.
Hún segir sorglegt að sjá afrakstur margra verkefna sem hleypa átti af stokkunum samkvæmt stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum sem samþykkt var af Alþingi árið 2016.
„Vinnumálastofnun var falin ábyrgð á því að fjölga hlutastörfum á opinberum vinnustöðum með það að markmiði að gefa fólki sem dottið hafði út af vinnumarkaði vegna geðraskana, tækifæri til að fóta sig á ný. Vinnumálastofnun bárust hins vegar ekki upplýsingar um verkefnið og setti það því aldrei í gang.“
Fordómar í garð geðfatlaðra
Aðalheiður lýsir öðru dæmi af geðheilbrigðisþjónustunni:
„Í sömu aðgerðaáætlun átti að efna til átaks um aukna þekkingu starfsfólks í geðheilbrigðisþjónustu á réttindum sjúklinga til túlkaþjónustu. Velferðarráðuneytið sem bar ábyrgð á aðgerðinni setti aldrei átakið af stað. Starfshópur sem skila átti áætlun árið 2017 um hvernig vinna ætti gegn fordómum í garð geðfatlaðra, var ekki skipaður fyrr en í október 2018. Skýrsla hans er ókláruð.“
Aðalheiður bendir á að ungt fólk sem glímir við þunglyndi eða fíknivanda geti slegið í gegn fái það hjálp á réttu augnabliki, en ella orðið uppspretta ömurlegra harmleikja og dáið fyrir aldur fram meðan það bíður á biðlistum eða velkist um feni þeirrar óreglu sem umlykur geðheilbrigðisþjónustuna.
„Það er eins og stjórnvöld skilji þetta ekki. Geðveiki er dauðans alvara. Góðu fréttirnar eru að árangursríkar meðferðir eru til. Við getum hafist handa og þurfum ekki að bíða eftir. En verkin sem þarf að vinna hafa ekki verið unnin og á meðan fjara mannslífin út. Það er ekki forgangsmál að bjarga þeim.“