Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Albert og Jakinn: „Það gerði hann með því skilyrði að Guðmundur vissi ekki hvaðan peningarnir kæmu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðmundur J. Guðmundsson, alþingismaður og verkalýðsleiðtogi, þáði sólarlandaferð að gjöf frá ráðherranum Alberti Guðmundssyni. Í ljós kom að gjöfin var í raun frá Hafskipum og Eimskip. Sjálfur fékk ráðherrann einnig utanlandsferð frá Hafskipum. Málið skók Alþýðubandalagið árið 1986.

Allt lék á reiðiskjálfi innan Alþýðubandalagsins árið 1986 eftir að upplýst var að sá harðskeytti verkalýðsleiðtogi og alþingismaður Alþýðubandalagsins, Guðmundur J. Guðmundsson, hefði þegið peningagjöf frá Alberti Guðmundssyni iðnaðarráðherra til að leita sér heilsubótar á sólarströnd.

Gjöfina fékk Guðmundur J. þremur árum fyrr. Málið var sérstaklega viðkvæmt vegna þess  að Guðmundur var einn harðskeyttasti málsvari íslenskrar verkalýðsstéttar og talsmaður verkafólks.

Guðmundur, sem nefndur var Jaki, var þingmaður Alþýðubandalagsins, sem gerði stöðu hans enn viðkvæmari. Alþýðubandalagið hafði staðið í logandi átökum þegar þetta bættist við.

Flokkur sósíalista lék á reiðiskjálfi.

Eftir harðvítug átök tveggja fylkinga, svokallaðs lýðræðishóps og ráðandi afla, innan Alþýðubandalagsins komu þessar upplýsingar eins og sprengja inn í umræðuna.

- Auglýsing -

Svavar Gestsson, formaður Alþýðubandalagsins, hafði gert tilraun til þess að verða ritstjóri á Þjóðviljanum. Erling Aspelund, blaðamaður DV, lýsti þessu í fréttaskýringu.

„Í síðustu viku blossuðu upp átök flokksforystu við svokallaðan andófshóp þegar Svavars Gestsson, formaður flokksins, gerði tilraun til að taka sér sæti sem ritstjóri á Þjóðviljanum. Stuttu síðar, um síðustu helgi, dundi mál Guðmundar J. Guðmundssonar alþingismanns sem reiðarslag yfir Alþýðubandalagsmenn alla,“ segir í blaðinu.

Átök flokksforystu og andófshóps höfðu átt sér langan aðdraganda. Þar koma við sögu kunnugleg nöfn. DV teiknaði upp átakalínurnar.

- Auglýsing -

„Til einföldunar má segja að á undanförnum misserum hafi orðið til hópur fólks innan Alþýðubandalagsins sem hefur nánast allt á hornum sér við forystusveit flokksins og verkalýðshreyfingarinnar. Hefur verið bent á þau Kristínu Á. Ólafsdóttur varaformann, dr. Ólaf Ragnar Grímsson, formann framkvæmdastjórnar, Össur Skarphéðinsson ritstjóra og Óskar Guðmundsson, fyrrum ritstjórnarfulltrúa, sem helstu forvígismenn þessa hóps.

Þetta fólk ku vera ósammála Svavari Gestssyni og þeim sem styðja hann um nánast allt sem viðkemur stefnu og skipulagningu Alþýðubandalagsins. Þetta fólk vill lýðræðislegri flokk sem byggist á þátttöku hins almenna félaga, en ekki lokaðan flokk sem lætur stjórnast af ákvörðunum örfárra manna. Fyrir vikið hefur hópurinn fengið á sig stimpilinn „lýðræðishópurinn“ eða „lýðræðiskynslóðin“ en hópurinn mun einkum sækja styrk sinn í raðir yngri félagsmanna,“ segir í DV.

Rakið var að andófshópur Össurar og Ólafs Ragnars hafði lagt til atlögu gegn flokksforystunnni oftar en einu sinni. Ritstjórnargreinar og fréttir í Þjóðviljanum voru andsnúnar  forystu verkalýðshreyfingarinnar og flokksins. Gekk þetta svo langt að Guðmundur J. Guðmundsson sá sig tilneyddan til svara og lét birta skammargreinar eftir sig í blaðinu þar sem ritstjórnin var tekin á beinið.

Varð flokksforystunni þá nóg um og afráðið var að stokka upp í ritstjórn Þjóðviljans. Það var í þessu andrúmslofti sem styrkjamál Guðmundar J. kom upp.

Auk þess að vera alþingismaður og formaður verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar var Guðmundur J. formaður Verkamannasambands Íslands.

Hann viðurkenndi að hafa þegið eitt hundrað þúsund krónur frá sjálfstæðismanninum Alberti Guðmundssyni, þáverandi fjármálaráðherra, árið 1983. Guðmundur útskýrði að hafa þegið peningana til þess að geta leitað sér heilsubótar á Flórída eftir langvarandi veikindi.

Seinna kom á daginn að peningarnir áttu rætur sínar að rekja til skipafélaganna Eimskips og Hafskipa. Þessi félög voru viðsemjendur Guðmundar í samningum verkamanna sem gerði málið allt miklu stærra. Rannsóknarlögregla ríkisins ákvað að verða að ósk Guðmundar um að taka þetta mál til sérstakrar rannsóknar.

Málið varð Guðmundi J. gríðarlega erfitt.

Sjálfur sagðist hann ekki hafa vitað annað en peningarnir væru vinargjöf frá Alberti sem staðfesti þann vitnisburð verkalýðsleiðtogans.

Í viðtali við Þjóðviljann sagðist Albert hafa beðið Björgólf Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Hafskipa, um að leita til vina og kunningja um að hjálpa Guðmundi J. að komast í hvíld.

„Þetta gerði hann með því skilyrði að Guðmundur vissi ekki hvaðan peningarnir kæmu né hverjir stæðu að þessu,“ sagði Albert. Hann áréttaði að hann hefði ekki sagt Guðmundi hverjir stóðu að því að hjálpa. Albert sagðist ekki hafa vitað til þess að Guðmundur hefði fengið peninga frá Hafskipum, Eimskip eða öðrum skipafélögum. Í öllu þessu máli kom síðan upp að Hafskip höfðu gefið fjármálaráðherra veglega upphæð til að hann kæmist í frí til Frakklands.

„Þeir buðu mér til útlanda í sambandi við sextugsafmæli mitt,“ sagði Albert á þessum tíma.

Ráðherrann upplýsti að hann hafi kosið að fara til Nissa í Frakklandi því þangað hefði hann þurft að fara í öðrum erindum. Hann sagðist ekki hafa spurt hvað ferðin kostaði og mundi ekki hvort hún hefði verið farin árið 1984 eða 1985. Þjóðviljinn upplýsti að íslenska ríkið greiddi ferðir ráðherrans til Frakklands í lok maí árið 1984 og einnig árið 1985. Hvorug ferðanna var því farin í boði Hafskipsmanna, nema þá að hluta.

Albert skýrði svo frá þessu máli á í október það sama ár. Ferðin til Frakklands var svo farin í maí 1984, ári eftir að hann tók við peningunum. Sama dag og Albert sagði Þjóðviljanum að hann hefði ekki fengið aðrar greiðslur frá Hafskipum en fyrrgreinda utanlandsferð upplýsti Helgarpósturinn að Albert hefði þegið ávísun frá sama fyrirtæki að fjárhæð 117 þúsund krónur. Kannaðist Albert strax við þessa ávísun og sagði að þarna hefði verið á ferðinni eðlileg afsláttargreiðsla frá Hafskipum til heildverslunar Alberts Guðmundssonar vegna fraktflutninga.

Það sem mun hafa vakið athygli rannsóknaraðila á þessari ávísun var það að Albert tók við henni tæpu ári eftir að hann lét af störfum og hefur aldrei verið sagt hverjir stóðu að þessari söfnun.

Blaðamaður Morgunblaðsins spurði Albert hvort hann hafi greint lögreglunni frá því við yfirheyrslur að Guðmundur hafi vitað hvaðan peningarnir komu og þá svarar Albert:

„Ég staðfesti það við yfirheyrslur að Guðmundur vissi ekki hverjir lögðu fram fjármunina, en ég var, að mig minnir, ekki spurður um það, hvort Guðmundur vissi um að Björgólfur sá um söfnunina.“

Eftir allt fjaðrafokið gleymdist þetta mál. Guðmundur Jaki sat áfram sem þingmaður og verkalýðsleiðtogi. Albert var áfram einn af ráðamönnum Sjálfstæðisflokksins þar til árið 1987 er hann sagði af sér ráðherraembætti í framhaldi þess að upp komst að hann hafði ekki talið fram greiðslur til skatts. Hann stofnaði Borgaraflokkinn í framhaldinu og var kosinn á þing þar sem hann sat sem óbreyttur þingmaður. Víst er að þetta mál hafði sín áhrif til þess að hann klauf Sjálfstæðisflokkinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -