Miðvikudagur 29. júní, 2022
14.8 C
Reykjavik

Álitsgjafar skoða skilorðsbindingu nauðgunardóma: „Kerfið úr takti við réttlætisvitund almennings“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í nýjasta tímariti Mannlífs er fjallað um skilorðsbindingu nauðgunardóma og þá staðreynd að sakborningar í grófum kynferðisbrotum þurfa í mörgun tilfellum ekki að sitja af sér dóma sína. Farið er yfir nýlegt mál þar sem brotið þótti svo gróft að refsiþyngingarákvæði var beitt, en dómurinn var þrátt fyrir það skilorðsbundinn að fullu.

Í greininni er málið reifað og íslenska dómskerfið borið saman við það sænska, hvað varðar kynferðisbrotamál og refsingar. Rætt er við nokkra álitsgjafa um það hvort lagabreytingar væru fýsilegar að fyrirmynd sænska lagabálksins.

Sænska ákvæðið – ólöglegt að skilorðsbinda fyrir verstu brotin

Víða á öðrum Norðurlöndum er hreinlega ólöglegt að skilorðsbinda dóma fyrir brot þar sem lágmarksrefsingin er eitt ár eða meira. Þar er almennt um að ræða morð, manndráp og nauðganir.

Á síðu sem útskýrir refsiréttarkerfið í Svíþjóð fyrir almenningi segir:

„Vad det gäller straffvärde, som även det är ett stort ämne att utforska, är huvudregeln att påföljden ska bli fängelse om straffvärdet är högre än ett år.“ Á íslensku þýðir þetta að ef lágmarksrefsingin er hærri en eitt ár má ekki dæma til skilorðsbundinnar refsingar. Í Svíþjóð er lágmarksrefsing fyrir nauðgun tvö ár.

Ákvæðið má finna í 27. kafla sænska lagabálksins, en Moa Bladini, lektor í lögfræði við Gautaborgarháskóla, staðfesti auk þess ofangreind atriði um sænska réttarkerfið í samtali við blaðamann. Þumalputtareglan er að lágmarksrefsingin fyrir téð brot sé eitt ár – en við nauðgun er tveggja ára lágmarksrefsing í Svíþjóð, svo það þýðir að útilokað er að dæma til skilorðsbundinnar refsingar fyrir nauðgun þar í landi.

- Auglýsing -

Á Íslandi eru engin slík lög í gildi. Blaðamaður kom að máli við nokkra álitsgjafa og spurði þá hvort þeim þætti sambærileg lög ekki eiga erindi við okkur hér á landi. Það kæmi spánskt fyrir sjónir að hægt væri að skilorðsbinda dóma að fullu þar sem sakfellt væri fyrir alvarlegt brot eins og nauðgun – sérstaklega þegar refsiþyngingarákvæði væri beitt í dómnum.

Á Íslandi eru engin slík lög í gildi.

Álitsgjafarnir nálguðust málið út frá ólíkum hliðum en voru allir sammála um að gera þyrfti breytingar á dómskerfinu.

Dr. Hildur Fjóla Antonsdóttir réttarfélagsfræðingur sem hefur rannsakað réttarstöðu brotaþola ítarlega, sagðist telja að það væri vissulega tilefni til þess að hér á landi yrði skoðað ákvæði eins og það sem er í lögum í Svíþjóð. Hún velti fyrir sér skilorðsbindingu á dómi Jóns Páls Eyjólfssonar, sem blaðamaður nefndi sem dæmi við hana.

- Auglýsing -

„Um er að ræða alvarlegt brot sem var þar að auki framið með svo grófum hætti að dómurinn nýtir þyngingarákvæðið. Það skýtur því skökku við að dómurinn sé á sama tíma skilorðsbundinn að fullu. Dómurinn ber þannig með sér að ekki sé tekið tillit til hagsmuna brotaþola í málinu, enda lítur íslenskt réttarkerfi í raun svo á að brotaþolar hafi engra hagsmuna að gæta í refsimálum. Efast má um að þetta viðhorf endurspegli réttarvitund almennings. Ég tel fulla ástæðu til að kanna betur hvernig þessu er háttað annars staðar á Norðurlöndunum og þá skoða hvort ekki sé rétt að taka fyrir það að hægt sé að skilorðsbinda dóma vegna svona alvarlegra brota,“ sagði Hildur Fjóla í samtali við blaðamann.

Hildur Fjóla Antonsdóttir. Mynd: aðsend.

„Jú, þetta er algjörlega eitthvað sem þyrfti að skoða,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, aðspurður um lagabreytingu af þessu tagi. „Það er stórt vandamál hvernig kerfið er á köflum algjörlega úr takti við réttlætisvitund almennings – það byggir upp vantraust til kerfisins ef fólki finnst réttlætinu ekki vera fullnægt. Í kynferðisbrotum er þetta sérstaklega áberandi í hversu fá brot rata inn í réttarsali, hversu lágt sakfellingarhlutfallið er, eða þeirri stöðu að Landsréttur virðist frekar milda dóma í kynferðisbrotamálum en öðrum brotaflokkum. Þegar kemur að alvarlegustu brotunum, brotum þar sem lágmarksrefsing í lögum fer yfir ákveðið langan fangelsisdóm, þá skýtur skökku við að geta skilorðsbundið tiltölulega þunga dóma.“

Andrés Ingi Jónsson. Mynd: Alþingi

Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og þingmaður Samfylkingarinnar, er hlynntari því að gera nauðsynlegar úrbætur á málsmeðferðartíma og upphæðum miskabóta til brotaþola í kynferðisbrotamálum. „Ég aðhyllist ekki harða refsistefnu, því það er mín bjargfasta skoðun að hver dagur í frelsissviptingu sé verulega íþyngjandi,“ sagði Helga Vala í samtali við blaðamann, spurð um erindi sænska ákvæðisins.

„Þess vegna er ég mjög hlynnt því að beitt sé ákvæði hegningarlaga til skilorðsbindingar, sér í lagi þegar um er að ræða ungt afbrotafólk, því það hlýtur fyrst og fremst að vera markmið okkar að fólk verði fyrir betrun sem ég því miður óttast að sé ekki mikil innan veggja lokaðra fangelsa. Þá verður að skoða aðstæður, þótt að kynferðisbrot séu vissulega meðal alvarlegustu afbrota sem þekkjast, því þær eru jú mjög margvíslegar.

Mig langar líka að benda á að vegna þess hvernig stjórnvöld hafa búið um hnútana, með allt of fáu starfsfólki í réttarvörslukerfinu, þá hefur málsmeðferð dregist verulega, sem leitt hefur til þess að stærri hluti refsidóma hefur orðið skilorðsbundinn að hluta. Þar er dómskerfið að bregðast við því hversu íþyngjandi það er að hafa stöðu sakbornings árum saman. Það er hins vegar algjör skortur á því að tekið sé tillit til þess hversu íþyngjandi það er fyrir brotaþola að bíða niðurstöðu máls árum saman, því dómstólar hafa ekki hækkað miskabætur vegna þessara tafa á málsmeðferð. Eðlilegt væri að miskabætur yrðu hækkaðar og þá að hluta greiddar af ríkissjóði, sem ber ábyrgð á þessum töfum.“

Helga Vala Helgadóttir. Mynd: helgavala.is

 

Lesið greinina í heild sinni hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -