Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Amazon rukkar neytendur án leyfis – Þóra í sjokki:„Allt í einu var ég búin að borga teygjuhelvítin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Hæ. Ég er í hálfgerðu sjokki. Í fyrsta sinn var ég að lenda í því að það var dregið af kortinu mínu rétt á meðan ég var að skoða vöru og athuga hver sendingarkostnaðurinn væri.

Ég var ekki búin að staðfesta neitt hvað þá heimilisfang, ég er með tvö. Svo þegar ég skoða á síðunni, Amazon, þá er þessi vara ekki á lista yfir keyptar eða pantaðar vörur.

Hefur eitthvert ykkar lent í svona og hvað get ég gert?“

Svo hljóðar færsla konu í Facebook-hópnum „Verslun á netinu“.

Þetta virðist sannarlega ekki vera einsdæmi, en fleiri segja frá reynslu sinni af svipuðum hlutum í athugasemdum við færsluna.

„Ég hef lent í þessu… var að skoða gervihársteygjur (hárið verður meira um sig) og ég var einmitt að gera það sama þ.e að ath. sendingarkostnaðinn og svo bara allt í einu var ég búin að borga teygjuhelvítin… kostaði hingað komið rúmar 4.000 kr og sá sem allt veit veit að ég hef aldrei keypt svona teygjur. Mig langaði bara að vita hvað þær myndu kosta hingað komnar.

- Auglýsing -

En ég taldi mig heppna þar sem ég fékk þessar tvær teygjur í mínum hárlit loks er þær komu á klakann en ég var bara alls ekki búin að haka við „blonde“ áður en greiðslunni var rennt í gegn.

Ég gerði ekkert í þessu þar sem ég hélt að ég hefði gert einhver mistök,“ segir Inga nokkur.

Sigrún hefur sömuleiðis lent í slíku atviki:

- Auglýsing -

„Amazon gerði svipað hjá mér. Ætlaði að kaupa vöru en hætti við vegna sendingarkostnaðarins. Þeir ákváðu samt að taka út fyrir Amazon prime hjá mér þó ég hafi afhakað við það. Held ég muni mjög sjaldan versla við Amazon héðan í frá.“

„Þetta er stillingaratriði á Amazon reikningnum ykkar,“ segir Margrét. Það kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir og verður að teljast ólíklegt að slík stilling, að hægt sé að framkvæma greiðslu út af reikningi án staðfestra kaupa og samþykkis kortaeiganda, sé til staðar hjá fyrirtæki á borð við Amazon.

„Ég lenti í þessu um daginn, ætlaði að athuga hvað varan sem mig vantaði myndi kosta með sendingu, staðfesti aldrei neitt en fékk tölvupóst um að ég væri búin að panta vöruna, canselleraði þessu og ekkert skuldfært. Þetta er mjög slæmt en þitt mun verra, skuldfært en ekkert í pöntun,“ segir Hafdís.

Andrés nokkur mælir með því að fara beina leið í bankann og fylla út eyðublað með athugasemd um færsluna.

„Loka kortinu og tala við bankann,“ segir Sandra.

Dagbjört nokkur veltir því fyrir sér hvort fólk geymi kortaupplýsingar sínar á síðum sem þessum.

„Góður punktur. Ég taldi mig ekki gera það. En sem betur fer er ég með kortið mitt stillt þannig að ef það er notað án þess að fara í kortalesara þá fæ ég sms,“ segir Þóra, höfundur upphafsfærslunnar.

Hulda nokkur segist vista kortaupplýsingar sínar á síðum sem hún notar mikið, eins og Amazon. Hún tryggir öryggi sitt þó vandlega á móti:

„Vera með góðar tryggingar á kortunum, korta app þar sem þú getur læst kortinu tímabundið ef þú ert ekki viss. Einungis vera skráð inn í einkasíma og einkatölvu. Bregðast fljótt við ef þú færð tilkynningu um útfærslu. Myndi aldrei nenna að vera með kortin út um allt.“

Hún heldur áfram:

„Maður lærir á þetta smá saman, mér finnst ég mjög örugg með þetta svona, ekki mikið hægt að gera þó svo að símanum væri stolið af mér. Allar upplýsingar þurfa alltaf einhverja staðfestingu. Svo ef eitthvað er að fara út af kortinu á Amazon.. af öllum stöðum, þá er bara einhver villa í kerfinu en ekki um svik að ræða.“

Á heimasíðu Amazon er ekki beinlínis talað um vandamál af því tagi sem Þóra lýsir í upphafspósti sínum. Ýmis önnur vandamál og villur varðandi greiðslur eru tilteknar, en viðskiptavinum er þó bent á að ef ekkert þeirra eigi við megi hafa samband við Amazon símleiðis og fá aðstoð.

Á vefsíðu Amazon segir sömuleiðis að viðskiptavinir séu ekki rukkaðir fyrr en þeir velja „place your order“ (leggja inn pöntun) þegar komið er í „check out“, þar sem kaup eru staðfest og útskráning úr verslun fer fram. Raunar er það tekið fram að viðskiptavinir Amazon séu ekki rukkaðir um vörurnar sem þeir kaupa fyrr en sendingarferli hefst.

Hinsvegar, ef vörurnar eru keyptar af þriðja aðila í gegnum Amazon, getur fyrirtækið rukkað viðskiptavini og dregið upphæðina af korti þeirra þegar þeir staðfesta kaupin.

Það virðist því vera full ástæða til að fylgjast vel með mistökum á borð við þau sem sagt er frá að ofan, þar sem slíkt á augljóslega ekki að geta gerst. Neytendum er bent á að fylgjast vel með yfirliti sínu og hafa samband við viðskiptabanka sinn og þá netverslun sem við á, ef þeir verða varir við dularfullar færslur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -