Andrés Ingi skýtur föstum skotum á Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra

Deila

- Auglýsing -

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, hrósar umsjónarmanni sóttvarnarhúsa fyrir manneskjulegt viðmót í umræðu um stöðu hælisleitenda. Segir þingmaðurinn að munur væri ef dómsmálaráðherra og Útlendingastofnun temdu sér samskonar viðmót í garð þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi.

„Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúsanna, bregst við þessu með manneskjulega viðmótinu sem væri svo óskaplega gott að sjá á hælismálunum almennt,“ skrifar Andrés Ingi í færslu á Facebook og vísar þar í viðtal RÚV við Gylfa Þór vegna fyrirhugaðra áforma um að opna annað sóttvarnahús. En eins og fram kom í viðtalinu er sóttvarnahúsið við Rauðarárstíg í Reykjavík nánast yfirfullt af fólki, mestmegnis hælisleitendum. Hefur það fylllst hraðar en upphaflega var gert ráð fyrir eftir að landamærin voru opnuð, að stórum hluta vegna þess að hælisleitendur eru fleiri en reiknað var með.

Í umræddu viðtali sagði Gylfi Þór orðrétt: „Þetta fólk er að koma hvaðanæva að úr heiminum. Frá löndum sem eru annað hvort í stríði eða búa við mikla fátækt. Þetta fólk hefur upplifað mikla erfiðleika og er bara að leita að skjóli fyrir sig og sínar fjölskyldur.“

Finnst Andrés Ingi tilefni til að hrósa umsjónarmanni sóttvarnahúsana fyrir að taka svona til orða. „Væri ekki munur ef Útlendingastofnun eða dómsmálaráðherra töluðu almennt svona um fólkið sem sækir hér um alþjóðlega vernd?“

- Advertisement -

Athugasemdir