Fimmtudagur 1. júní, 2023
8.8 C
Reykjavik

Anna minnist kynleiðréttingarinnar: „Ég fylltist einhverri sársaukablandinni sælutilfinningu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Anna Kristjánsdóttir rifjar upp hinn örlagaríka dag fyrir 28 árum er hún fór í kynleiðréttingu á Karólinska-sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.

Í nýjustu dagbókarfærslu Önnu, rifjar hún upp minningar sínar frá því að hún fór í kynleiðréttingu, en hún var önnur íslenska konan sem gekkst undir slíka leiðréttingu. Í færslunni telur Anna upp nokkrar fyrirmyndir sínar sem einnig fóru í kynleiðréttingu. Færsluna má lesa hér að neðan.

„Dagur 1350 – Minningar.

Mig langar til að ræða minningar. Ég vil þó taka fram að þegar þessi pistill birtist klukkan níu að morgni á ég engar minningar frá þeirri stundu fyrir 28 árum síðan sem betur fer. Á þeirri stundu var ég nefnilega á skurðarborðinu á Karólinska sjúkrahúsinu í Solna (Stokkhólmi) og var í aðgerð til leiðréttingar á kyni. Þegar ég vaknaði loksins á uppvakningunni einhverjum klukkustundum síðar, byrjaði ég á að athuga hvernig staðan væri á milli fóta mér. Þar reyndist allt vera eins og það átti að vera, fermingarbróðirinn farinn og ég fylltist einhverri sársaukablandinni sælutilfinningu. Það er nefnilega dálítið sárt líkamlega að fara í gegnum slíka aðgerð.
Það sem ég gekk í gegnum þessa dagana var samt hátíð miðað við svipaðar aðgerðir á árum áður. Þannig lýsti April Ashley (1935-2021) sársaukafullum dögunum sem fylgdu eftir aðgerð hennar árið 1960 sem nánast óbærilegum og svipaða sögu sagði Caroline Cossey (f 1954). Aftur á móti talaði Ian Morris (1926-2020) ekkert um sársaukann í sjálfsævisögu sinni Conundrum, þegar hún fór í gegnum samkonar aðgerð árið 1974, um svipað leyti og Caroline Cossey svo nokkrar fyrirmyndir mínar séu nefndar, þó að ótalinni uppáhalds fyrirmyndinni minni Lili Elbe (1882-1931), en hún reyndi að ná fullkomnun í sínu ferli sem kostaði hana lífið í september 1931.
Ég hafði fengið mænudeyfingu sem gerði það að verkum að sársaukinn var nánast enginn og ég þakka almættinu fyrir þá náð sem fylgir mænudeyfingu á slíkum stundum. Vissulega fylgdu ýmsar aukaverkanir, en þær voru smáatriði í samanburði við lýsingar annarra transkvenna áratugum á undan mér á líðan sinni fyrstu dagana eftir aðgerðina.
Síðan þá eru liðin 28 ár.
Ég hafði aldrei ætlað mér að auglýsa aðgerðarferli mitt út á við, en einhvernveginn atvikaðist það svo að ég varð þekkt í Svíþjóð sem formaður sænska transfélagsins Benjamin sem var á þeim tíma helsti málsvari transsexual fólks í Svíþjóð og síðan á Íslandi haustið 1994 með frægu viðtali í Nýju lífi.
Þegar ég hugleiði málin eftirá, 28 árum síðar, horfist ég í augu við þá einföldu staðreynd að ég hefði aldrei getað dulist lengi í íslensku samfélagi með þögnina að vopni. Það þurfti einhver að koma í dagsljósið með tilfinningar sínar, en úr því að sú fyrsta íslenska sem fór í gegnum aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni vildi ekki koma fram opinberlega þótt hún hafi aldrei neitað því, þá þurfti einhver sem kom á eftir að tjá sig. Það lenti bara óvart á mér að koma út opinberlega.
Frá því 24. apríl 1995 á ég tvo afmælisdaga, fæðingardaginn 30. desember 1951 og daginn sem ég hóf nýtt líf fyrir alvöru, 24. apríl 1995.
Ég held uppá þá báða afmælisdagana.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -