Þriðjudagur 16. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Árni Johnsen, fjaðrafokið og dómurinn: „Ég sagði ekki beint ósatt, ég sagði ekki allan sannleikann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 6. febrúar árið 2003 var fyrrum alþingismaðurinn Árni Johnsen dæmdur í tveggja ára fangelsi í Hæstarétti, fyrir fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi, mútuþægni og rangar skýrslur til yfirvalda. Með því þyngdi Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði hljóðað upp á fimmtán mánaða fangelsi.

Árni var ákærður í 27 ákæruliðum og fyrir Héraðsdómi játaði hann sök í 12 þeirra. Hann dró játningu sína í tveimur liðanna þó til baka í Hæstarétti en á það var ekki fallist, þar sem engin ný gögn höfðu komið fram sem sýndu fram á að draga ætti játningu hans í héraði í efa.

Að endingu var hann sakfelldur í 22 ákæruliðum í Hæstarétti.

En hvað var það sem Árni Johnsen var sakfelldur fyrir? Hvað gerði hann eiginlega?

 

Byko og DV

Málið hófst sumarið 2001 með þeim hætti að úttektarmiða sem sýndi að strikað hafði verið yfir nafn Þjóðleikhússins og heimilsfang Árna Johnsen alþingismanns í Vestmannaeyjum sett í staðinn.  Starfsmaður byggingarvöruverslunarinnar Byko staðfesti í framhaldinu við blaðamann DV að vöruúttektir Árna Johnsen, alþingismanns og formanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins, hjá versluninni væru hugsanlega vafasamar og ef til vill ástæða til að skoða málið betur.

- Auglýsing -

Blaðamaður lagðist í mikla rannsóknarvinnu og málinu var velt fram og til baka innan ritstjórnarinnar, enda afar óvenjulegt mál í tengslum við alþingismann og mikilvægt að stíga varlega til jarðar.

Vikuna eftir birtist fyrsta fréttin um málið í DV. Allt benti nefnilega til þess að það sem st´ð á afhendingarseðlinum og starfsmaður Byko hafði staðfest ætti við rök að styðjast. Morgunblaðið tók strax afstöðu með Árna og sagði þá frétt að málið allt hefði verið misskilningur sem strax hefði verið leiðréttur.

Timbur sem merkt var Þjóðleikhúsinu hafði verið sent frá Byko og heim til þingmannsins. Eftir því sem dýpra var grafið komu fleiri hlutir í ljós. Til að mynda höfðu óðalskantsteinar verið sendir að heimili Árna í Reykjavík og jarðvegsdúkur hafði ratað að heimili hans í Vestmannaeyjum. Allt skrifað á leikhúsið. Téður jarðvegsdúkur átti eftir að vera mikið umtalaður. Morgunblaðið hafði upplýst að dúkurinn væri í geymslu í Gufunesi og þannig reynt að grafa undan frétt DV um þau svik að þingmaðurinn keypti dúkinn í nafni Þjóðleikhússins og flutti til Eyja. Þessu til sönnunar birti blaðið mynd af dúknum í nefndri geymslu í Gufunesi. Samdægurs og Mogginn birti fréttina upplýsti DV að dúkurinn hafði vissulega farið til Eyja en Árni laumaði honum upp á land aftur. Málið varð að miklum áfellisdómi yfir Morgunblaðinu sem varð að viðurkenna mistökin.

- Auglýsing -

Það leið ekki á löngu áður en Árni Johnsen hafði tjáð sig um málið á þeim nótum að hann viðurkenndi dómgreindarbrest. Hann sagði svo af sér þingmennsku. Eins og gefur að skilja höfðu allir fjölmiðlar landsins gripið fréttirnar á lofti og fylgt þeim eftir. Það heyrðist varla annað í samfélagsumræðunni á þessu tímabili. Málinu lauk þó ekki með afsögn Árna Johnsen – rannsókn var farin í gang af hálfu Ríkisendurskoðanda. Að þeirri rannsókn lokinni voru öll gögn send Ríkislögreglustjóra.

Mynd/skjáskot Tímarit.is/DV

Ákæra gefin út – fimm sakborningar

Löng rannsókn lögreglu tók við. Um tíma heyrðist minna af málinu í fjölmiðlum, enda lítið til að flytja fréttir af á meðan lögregla fór gaumgæfilega yfir gögn, viðaði að sér miklu magni af þeim til viðbótar og yfirheyrði svo tugi manna í tengslum við málið.

Það var svo þann 6. maí árið 2002, næstum ári eftir að starfsmaður Byko hafði fyrst sett sig í samband við blaðamann DV, að Ríkissaksóknari gaf út ákæru á hendur Árna Johnsen og fjórum öðrum mönnum. Stuttu áður höfðu 12 menn verið með réttarstöðu grunaðra í málinu, svo þeim hafði fækkað nokkuð.

Það var þá sem Árni, eftir að hafa haft hægt um sig um veturinn, fór í Ísland í dag og Kastljós til að skýra málið og gera hreint fyrir sínum dyrum. Viðtölin urðu ekki til að auka á vinsældir hans. Það var umtalað að Árni hefði komið út sem hrokafullur og laus við alla iðrun. Til að kóróna allt saman kenndi hann fjölmiðlum um þá klemmu sem hann var staddur í. Hann átti sannarlega ekki eftir að verða síðasti alþingismaðurinn með horn í síðu fjölmiðla. Árni bakkaði ekki með sinn málflutning.

Mynd/skjáskot Tímarit.is

Dómur kveðinn upp

Málið var þingfest í júní og við tóku þriggja daga réttarhöld. Árni játaði á sig fjárdrátt upp á allt að 2,5 milljónir króna – sem var aðeins hluti af því sem hann var ákærður fyrir. Svo fór að í júlí dæmdi Héraðsdómur Árna Johnsen í fimmtán mánaða fangelsi. Enginn partur dómsins var skilorðsbundinn og því viðbúið að fyrrum alþingismaðurinn væri á leið í fangelsi. Hinir mennirnir fjórir voru sýknaðir.

Árni endaði á að áfrýja dómnum til Hæstaréttar, þrátt fyrir að margir lögfróðir einstaklingar teldu að áfrýjun myndi sennilega enda í þyngri dómi. Það fór svo eins og áður sagði; dómurinn var þyngdur og Árni hlaut tveggja ára fangelsisdóm.

 

Óðalskantsteinarnir

Umræddir óðalskantsteinar sem Árni tók út á nafni Þjóðleikhússins voru frá BM-Vallá. Í dálítinn tíma vissi enginn hvar steinarnir voru niðurkomnir en Árni sagði þá vera í geymslu. Það kom á daginn að þeir voru hreint ekki í neinni geymslu – heldur á heimili Árna í Vestmannaeyjum. Árni sagði að um mistök hefði verið að ræða sem hann hefði ætlað sér að leiðrétta en ekki enn komist í.

BM-Vallá gaf frá sér yfirlýsingu þess efnis að Árni hefði sjálfur sótt kantsteinana og svo skilað sekkjunum sem steinarnir voru geymdir í og fengið skilagjaldið endurgreitt.

 

„Ekki stóralvarlegt, en ekki til fyrirmyndar“

Í hádegisfréttum RÚV þann 16. júlí árið 2001 tók Kristján Guy Burgess viðtal við Árna Johnsen. Í því sagði Árni meðal annars að hann teldi að „út af þessu fjaðrafoki öllu“ væri réttast fyrir hann að stíga til hliðar úr byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Þegar Kristján spurði þá Árna hvort fjaðrafokið væri ekki til komið vegna þeirra ósanninda sem Árni hefði viðhaft í samskiptum við fjölmiðla, sagði Árni: „Ég sagði ekki beint ósatt, ég sagði ekki allan sannleikann, en nú hef ég gert það.“

Kristján minnti Árna þá á að hann hefði sagt kantsteinana vera á brettum úti í bæ.

„Já, ég sagði það vegna þess að þegar maður gengur að lager hjá fyrirtæki sem selur þessa steina þá eru þeir geymdir þannig,“ svaraði Árni.

„En þeir voru í garðinum heima hjá þér!,“ sagði Kristján þá. Árni jánkaði því.

„Ekki á bretti úti í bæ!,“ sagði Kristján.

„Nei,“ sagði Árni þá.

„En þú sagðir þjóðinni það í gær,“ sagði Kristján.

„Já, það er ósatt og það er ekki gott,“ svaraði Árni.

Kristján spurði þá hinnar augljósu spurningar; hvort Árna væri sætt áfram sem alþingismaður fyrir þjóð sem hann hafði sagt ósatt. Það var Árni hinsvegar ekki í vafa um:

„Já, já, ég held að það sé ekki þess eðlis þetta mál. Þegar standa öll járn á manni, þá reynir maður ósjálfrátt að víkja sér undan, og þetta er nú ekki alvarlegt.“

„Þér finnst þetta ekki alvarlegt?,“ spurði þá Kristján.

„Nei, ekki stóralvarlegt, en ekki til fyrirmyndar,“ svaraði Árni.

 

Listsköpun á Kvíabryggju

Árni afplánaði fangelsisdóm sinn í fangelsinu á Kvíabryggju frá 16. febrúar til 16. nóvember árið 2003 – í níu mánuði. Eftir það fluttist hann á áfangaheimili Félagasamtakanna Verndar þar sem hann var vistaður þar til afplánun hans lauk með reynslulausn þann 11. febrúar árið 2004. Á meðan Árni sat inni á Kvíabryggju stundaði hann listsköpun. Hann smíðaði margskonar listaverk úr fjörugrjóti og málmi og eftir að hann lauk afplánun hélt hann listasýningu í Duushúsum í Keflavík.

„Liðlega tvö þúsund manns sóttu sýningu Árna Johnsen í Keflavík fyrstu tvo sýningardagana. Er þetta meiri aðsókn en áður hefur sést á listsýningu á Suðurnesjum. Fjölmenni var við opnun sýningar Árna í Gryfjunni, nýjum sýningarsal Byggðasafns Reykjanesbæjar, í Duushúsum,“ sagði í frétt Morgunblaðsins árið 2004. „Á sýningunni eru 37 verk úr steini og fleiri efnum og nefnist hún Grjótið í Grundarfirði. Meðal gesta við opnunina voru Davíð Oddsson forsætisráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra.“ (Tekið úr Stundinni)

Mynd/skjáskot RÚV

Æran og Alþingi

Árni fékk uppreist æru árið 2006 sem veitti honum kjörgengi á ný. Fréttablaðið greindi frá því að skjalið hafi verið undirritað af handhöfum forsetavaldins, þeim Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, Gunnlaugi Claessen, þáverandi forseta Hæstaréttar og Sólveigu Pétusdóttur, þáverandi forseta Alþingis, að beiðni Björns Bjarnasonar, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra.

Árni var svo aftur orðinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2007 og sat á þingi fram til ársins 2013.

Árið 2016 kom Árni Johnsen í viðtal við sjónvarpsþáttinn Mannamál. „Ég var dæmdur fyrir dugnað,“ sagði hann meðal annars í viðtalinu. Hann þvertók fyrir að hafa tekið hluti ófrjálsri hendi og sagði málið hafa snúist um 1800 þúsund krónur á röngum tíma.“

Hann sagðist þess fullviss að hann hafi verið tekinn fastari tökum en gengur og gerist í málum sem þessum.

 

 

Heimildir:

DV

RÚV

https://timarit.is/page/3041345#page/n7/mode/2up

https://kjarninn.overcastcdn.com/documents/ærubeiðni_Arni_Johnsen.pdf

https://stundin.is/frett/10-stadreyndir-um-arna-johnsen-sem-thu-gaetir-hafa/#_=_

https://kjarninn.is/frettir/2016-08-04-arni-johnsen-vill-aftur-thing/

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -