Fimmtudagur 28. mars, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Aron og fimm vinir hans lentu í gassprengingu í sumarbústað: „Áfallið verður erfiðasta sárið til að gróa“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aron Kristján Sigurjónsson, kærasta hans og fjórir vinir þeirra ætluðu að eiga skemmtilega helgi saman í bústað núna um helgina og var ástæða ferðarinnar að þétta hópinn og hafa gaman eins og Aron segir í samtali við Mannlíf.

Helgin byrjaði vissulega þannig, á föstudag sáttu þau saman við stofuborðið, spiluðu, fengu sér bjór, töluðu og hlógu.

„Daginn eftir vöknum við öll þrjár mínútur yfir ellefu en ekki út af samstilltum vekjaraklukkum. Við vöknum við sprengingu sem olli því að sumarbústaðurinn fór vægast sagt í tætlur,“ segir Aron, en tæknideild lögreglunnar segir að um gassprengingu hafi verið að ræða.

Aron segist þó ekki hafa vaknað við lætin heldur að þung spýta sprakk í andlitið á honum, líklega frá kojunni sem var fyrir ofan rúmið sem hann og kona hans sváfu í.

„Ég var viss um að það væri trukkur að keyra inn í bústaðinn,“ segir Aron. Blóð fór að spýtast úr enni hans og segist hann hafa notað sængina til að stöðva blæðinguna.

„Ég var viss um að það væri trukkur að keyra inn í bústaðinn.“

„Við Sóley [kærasta Arons] hrópuðum handahófskennd orð af hræðslu og ótta til að tryggja fyrir hvort öðru að við værum enn með meðvitund. Á sama tíma hrynja yfir okkur spýtur bæði úr veggjum og lofti og festumst við þar undir,“ segir Aron og segir þetta aðeins hafa tekið nokkrar sekúndur, sem þó liðu mjög hægt.

- Auglýsing -

Þrjú flutt á sjúkrahús

Viðbragðsaðilar voru komnir á vettvang fljótlega og farið var með þrjú af ungmennunum á Sjúkrahúsið á Akureyri; Aron, Sóleyju og vin þeirra. „Þaðan var svo flogið með okkur til Reykjavíkur sama kvöld, af því að læknar treystu mér ekki í bílferð,“ segir Aron.

Aron telur að hann verði um tvær vikur að ná sér líkamlega. „Ég er með stórt gat og stóran skurð á enninu, neðri framtönn er brotin og ég er tognaður víða um líkamann og marinn sömuleiðis,“ segir Aron. „Og vonandi jafnlangan tíma að ná mér andlega.

- Auglýsing -
Aron eftir slysið
Mynd / Facebook

Þau þrjú sem flutt voru á Sjúkrahúsið fá áfallahjálp í dag að sögn Arons, hin þrjú fengu hana strax eftir slysið.

„Hin tvö sem flutt voru á spítala með mér eru betur farin, en tognuð víða um líkamann. Vinur minn fór eflaust úr axlarlið og aftur í hann og Sóley tognaði víða um líkamann,“ segir Aron.

Bústaðurinn eftir sprenginguna
Mynd / Facebook

Áfallið erfiðasta sárið

Aron þakkar öllum viðbragðsaðilum fyrri þeirra störf og segir viðbrögð þeirra fagleg við erfiðar aðstæður og vel hugsað um þau alla leið. „Síðan þykir okkur gott að tala opinskátt um þetta því áfallið mun verða erfiðasta sárið til að gróa og það hjálpar að útskýra hvað gerðist,“ segir Aron og vill jafnframt benda fólki á að hafa aðgát í nærveru sálar, þar sem kjaftasögur hafi farið á kreik um að þau hafi verið að fikta með gas eða annað. „Við komum ekki nálægt neinu grilli eða gasi, þetta var slys og ekkert okkar sem olli því með neinum hætti.“

Sprengingin varð í skúr við hliðina á herberginu sem Aron og kærasta hans sváfu í og því fóru veggir á hlið og herbergi þeirra á hvolf.

„Vinahópurinn er þéttari en nokkru sinni fyrr.“

„Tæknideildin hringdi í gær og var nokkuð viss um að þetta væri gassprenging og taldi líklegt að það hafi verið gaskútur úr grilli sem sprakk,“ segir Aron.

Aron segir að þrátt fyrir áfallið þá hafi markmiðið með sumarbústaðaferðinni náðst. „Vinahópurinn er þéttari en nokkru sinni fyrr.“

Bústaðurinn eftir sprenginguna
Mynd / Facebook
Bústaðurinn eftir sprenginguna
Mynd / Facebook
Bústaðurinn eftir sprenginguna
Mynd / Facebook

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -