Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Átök á Alþingi: „Formaður Viðreisnar, enn og aftur, eins ómálefnaleg og hún er nú“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Upp úr sauð milli Lilju Alfreðsdóttur, viðskiptaráðherra, og þingflokks Viðreisnar á Alþingi í dag. Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sakaði Lilju um persónulega óvild í garð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. Lilja kastaði boltanum þá til baka og sagði þessa persónulegu óvild frekar vera frá þingflokki Viðreisnar í garð hennar sjálfrar.

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma, undir liðnum „fundarstjórn forseta“, spurði Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, Lilju Alfreðsdóttur hvort hún hygðist hækka veiðigjöld í ljósi þess að þingmeirihluti væri fyrir málinu, óháð ríkisstjórnarvilja.

„Ætlar ráðherra að standa við stóru orðin, fylgja þeim eftir eins og alvöru forystufólk gerir og sjá til þess að meirihlutavilji þingsins ráði óháð ríkisstjórnarviljanum og þjóðin fái hærra og réttlátara gjald fyrir auðlindina?“spurði Sigmar.

 

Var ósáttur með svör ráðherra

Lilja svaraði á þá leið að þegar ákveðnar atvinnugreinar væru farnar að skila gríðarlegum hagnaði þyrfti að skoða það. Hún sagðist telja að það væri eðlilegt og sanngjant gagnvart samfélaginu að gera það. Lilja bætti því við að sér væri orðið mjög ljóst hversu framfarasinnuð sú ríkisstjórn væri sem hún sæti í og að það kæmi henni ekki á óvart ef ríkisstjórnin kæmi á óvart í þessu máli.

Sigmar var ekki nógu ánægður með svör Lilju, þótti þau helst til óljós, og ítrekaði því fyrirspurnina.

- Auglýsing -

Lilja svaraði ítrekun Sigmars á þann veg að það væri alltaf gaman að vera á þingi þegar menn yrðu svekktir. „Mér finnst eins og Sigmar hafi orðið svekktur.“ Að hennar mati hafi svar hennar verið býsna skýrt og öflugt.

 

„Heyriði hvernig liðið lætur?“

Á þessum tímapunkti greip Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fram í og hlátrasköll heyrðust úr sal. Það gekk bersýnilega fram af Lilju. „Heyriði hvernig liðið lætur? Formaður Viðreisnar, enn og aftur, eins ómálefnaleg og hún er nú. Ég vil bara koma þessu á framfæri hér. Ég vil bara gera það.“

- Auglýsing -

Þegar Lilja ætlaði að halda áfram máli sínu var aftur gripið fram í úr salnum. „Má ég tala? Enn og aftur byrjar formaður Viðreisnar. Hún ræður ekki við sig […] Það sem ég vildi segja hinsvegar; já, við munum beita okkur. Við erum í stjórnmálum til að hafa áhrif. Það höfum við sannarlega gert á síðasta kjörtímabili og munum halda áfram að gera. Það sem ég held að sé að gerast hjá Viðreisn – hún er einfaldlega stressuð. Það er verið að taka forystu í málum sem skipta þjóðina máli í sjávarútvegi. Og ég minni á það að Viðreisn og háttvirtur formaður Viðreisnar, hún var sjávarútvegsráðherra. Hvað gerði hún? Ekkert. Ekkert.“

 

Sagði framkomu ráðherra óboðlega

Næst steig Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, í pontu og var mikið niðri fyrir. Hún gerði athugasemd við framkomu ráðherrans og sagði hana algerlega óboðlega þegar verið væri að ræða málefni sem varðaði þing og þjóð. „Ráðherra er ófær um að svara þeirri spurningu að því er virðist vegna persónulegrar óvildar í garð formanns Viðreisnar. Óvildar sem hún verður sjálf að svara fyrir, ef hún treystir sér til, hvaðan er sprottin.“ Hanna Katrín bætti því við að viðskiptaráðherrann væri „ekki beint í fararbroddi þeirra sem hafa lyft veg og virðingu Alþingis sem mest.“

 

Sagði óvildina fremur á hinn veginn

Lilja Alfreðsdóttir kom aftur í pontu og sagðist sannarlega hafa svarað Sigmari. Það væri hennar skoðun að auka ætti gjaldtöku á fyrirtæki sem skiluðu ofurhagnaði. „Þetta var mjög skýrt. Ég held hins vegar að þessi persónulega óvild sé mun fremur hjá þingflokki Viðreisnar í garð ráðherrans. Ég verð bara að segja eins og er, ég hef sjaldan séð háttvirtan þingmann jafn æsta og þegar hún kemur hingað í pontu; annað hvort að spyrja háttvirtan ráðherra út í einhver málefni, eða að fjalla…“

Aftur var gripið fram í úr sal og virðist það að þessu sinni hafa verið Hanna Katrín Friðriksson.

„Má ég svara? Ég er að fara yfir þetta, háttvirtur þingmaður. Að ég svaraði fyrirspurninni, málefnalega, og er búin að undirbúa þann málflutning mjög vel.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, tók undir gagnrýnina á Lilju og sagði hana hafa nýtt megnið af tíma sínum í pontu til að ráðast á formann Viðreisnar, í stað þess að svara fyrirspurn þingmanns flokksins. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði Lilju hafa farið yfir strikið.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata spurði hvort þingmenn væru á skólaþingi.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar, bað fólk um að sýna þinginu og hvert öðru virðingu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -