Föstudagur 1. desember, 2023
0.1 C
Reykjavik

Aurskriða þurrkaði næstum út heila fjölskyldu: „Það molaðist niður og grófst undir skriðunni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að morgni laugardags 19. ágúst árið 1950 varð sá skelfilegi atburður á Seyðisfirði að aurskriða féll á tvílyft steinhús af miklu afli með þeim afleiðingum „að það molaðist niður og grófst undir skriðunni, sem gekk í sjó fram,“ líkt og því var lýst í Morgunblaðinu daginn eftir. Í húsinu bjuggu tvær fjölskyldur. Voru það hjónin Aðalbjörn Jónsson og Ingibjörg Magnúsdóttir ásamt fimm börn þeirra sem og hjónin Gunnar Sigurðsson og Kristlaug Þorvaldsdóttir og tveir synir þeirra.

Rignt hafði mikið daginn áður en fréttaritari Morgunblaðsins á Seyðisfirði, Benedikt Jónasson lýsti því svo: „Hjer byrjaði að rigna laust eftir miðnætti í nótt sem leið og gerði þá stórrigningu og hjelst hún í alla nótt fram yfir hádegi. Var úrfellir eins og hann verður mestur hjer um slóðir.“

Aðeins lifðu þrír einstaklingar af þeim sem lentu í skriðunni en fimm biðu bana, þar af fjögur börn.

Atburðurinn var reiðarslag fyrir Seyðisfjörð eins og gefur að skilja. Blaðið Íslendingur
fjallaði um þennan sorgaratburð þann 23. ágúst 1950. Hér má sjá frásögnina í heild sinni:

Hörmulegt slys

Fimm manns býður bana í skriðuhlaupi á Seyðisfirði.

Gífurlegt eignatjón varð þar einnig og á ýmsum öðrum stöðum á Austurlandi. Stórrigningar ollu skriðuföllunum.

- Auglýsing -

Þau hörmulegu tíðindi gerðust á Seyðisfirði s.l. laugardagsmorgun, að aurskriða féll úr Strandatindi á yzta íbúðarhúsið á Fjarðarströnd, með þeim skelfilegu afleiðingum, að fimm manns beið bana, en tvennt meiddist nokkuð.

Þau, sem fórust, voru Ingibjörg Magnúsdóttir, kona Aðalbjörns Jónssonar á Seyðisfirði, 36 ára að aldri, og fjögur börn þeirra hjóna, þau: Jónína lngibjörg, 18 ára; Baldur Þór, 12 ára; Bragi Már, 6 ára og óskírt stúlkubarn, sex mánaða.

Eina barnið, sem lifir.

Eina barn þeirra hjónanna, Aðalbjörns og Ingibjargar heitinnar, sem nú lifir, Guðrún Sigríður, 15 ára gömul, var einnig í húsinu, þegar skriðan féll á það og fyllti það og braut. Luktist hún inni í rústunum í aurskriðunni, en var grafin upp eftir að hafa verið röska þrjá
klukkutíma í skriðunni. Hún var eitthvað meidd, en líður nú sæmilega eftir atvikum.

- Auglýsing -

Fólkið ætlaði að yfirgefa húsið.

Vegna hins gengdarlausa vatnsveðurs, sem gengið hafði, var fólk farið að óttast um að skriður kynnu að falla, og var Aðalbjörn þegar farinn inn í bæinn til þess að ná í bíl til þess að flytja fólk sitt og aðra þá, sem í húsinu voru, burt úr því. Í húsinu bjuggu einnig hjónin
Gunnar Sigurðsson og Kristlaug Þorvaldsdóttir og tveir synir þeirra. Var konan farin úr húsinu og út í rigninguna með yngri soninn um morguninn áður en skriðan féll, en
feðgarnir björguðust, annar eitthvað meiddur.

Annað tjón.

Þegar slík hörmungaslys sem þetta verða, þá falla minni háttar atburðir í skugga þeirra, en ótal skriður féllu víðs vegar um Austurland og ollu miklu tjóni á mannvirkjum, en ógerlegt er ennþá að gera sér fullkomlega ljóst hversu miklum fjárverðmætum tjónið nemur.

Baksýnisspegill þessi birtist áður þann 18 mars 2022

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -