Laugardagur 20. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Bakslag hinsegin baráttunnar: „Yndislegi bróðir minn er samkynhneigður, leðurhommi, fjölkær og …“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Eyrún Arnardóttir lýsir bróður sínum, Guðmundi Helga, sem samkynhneigðum, leðurhomma, fjölkærum og frábærri fyrirmynd í fébókarfærslu sinni. Þar fer hún yfir hræðsluna sem hún upplifði í kjölfar skotárásarinnar í Osló og bakslagið sem hefur orðið í baráttu hinsegin samfélagsins og mikilvægi þess að opna frekar á samtalið hvað felist í fjölbreytileikanum.
Þá skrifar Eyrún: „Það skiptir máli að eiga samtölin, ekki bara kasta fram „fögnum fjölbreytileikanum” en loka svo augum og eyrum þegar við fáum að heyra hvað felst í fjölbreytileikanum,“ og bendir á að ef það vekji hjá fólki óþægileg viðbrögð að ræða málefnið þá sé það skýrt merki þess að málefnið þurfi frekari umræðu. Þá gætu einhverjir spurt sig af hverju þeir ættu að hafa áhuga að setja sig inn í mismunandi kynhneigðir og hvað felist í því að skilgreina sig sem fjölkæran eða leðurhomma. Þeirri fullyrðingu svarar hún: „Vegna þess að skömm þrífst í ótta og feluleik.“
Hér að neðan er einlægur pistill Eyrúnar í heild:
Hinsegin dagar
Undanfarið hef ég hugsað mikið um bakslagið í hinsegin baráttunni. Í sumar varð ég í fyrsta skipti hrædd um bróður minn vegna þess að hann er hommi. Það var einstaklingur sem gerði skotárás á hinsegin samfélagið í Osló og ég varð logandi hrædd um hann. Ég hugsaði, hann er proud and loud, hann er í forsvari fyrir marga hópa innan hinsegin samfélagsins. Ég hugsaði: „Hvað ef þetta er bara fyrsta árásin og núna verður hvert örugga rýmið á fætur öðru verður skotið niður?“ Svo fattaði ég hvað ég var barnaleg í hugsun. Hinsegin samfélagið hefur aldrei verið laust við ofsóknir. Einn af kærustum hans Guðmundar Helga fær morðhótanir bara vegna þess að hann er transmaður. Öruggu rýmin eru bara örugg ef við styðjum við þau og erum öll proud and loud.
Yndislegi bróðir minn er samkynhneigður, leðurhommi, fjölkær og frábær fyrirmynd. Ég hef orðið vör við það að þegar ég tala um eða deili því að bróðir minn er leðurhommi þá kemur oft fát á fólk og því finnst óþægilegt að ég tali um hneigð bróður míns svo frjálslega. En það er nákvæmlega ástæðan fyrir því að við eigum að tala um það. Það skiptir máli að eiga samtölin, ekki bara kasta fram „fögnum fjölbreytileikanum” en loka svo augum og eyrum þegar við fáum að heyra hvað felst í fjölbreytileikanum.
Það er ekki nóg að fara með börnin okkar í gleðigöngu á nokkurra ára fresti og gera ráð fyrir því að þau viti að við styðjum hinsegin samfélagið og raunverulega fögnum fjölbreytileikanum. Við verðum líka að tala um það. Á hverju aldurskeiði þurfum við að ræða málin. Ef okkur finnst óþægilegt að tala um kynhneigð, kynvitund og kynlíf þá er það sennilega merki um að við þurfum að tala meira um það.
Fólk hefur misjafna þörf til að skilgreina kynvitund og kynhneigð sína. Fyrir suma er stór hluti af þeirra sjálfi eða identity að vera Liverpool stuðningskvár. Fyrir suma er stór hluti af identity að vera Vopnfirðingur. Fyrir suma skiptir öllu máli að vita hver uppruni þeirra er, á meðan aðrir sem jafnvel vita ekkert um sinn uppruna finna sinn uppruna í sjálfu sér eða nánasta umhverfinu og það nægir þeim. Þegar að fólk opnar sig um kynvitund sína og kynhneigð þá eigum við að hlusta, bera virðingu fyrir því og spyrja spurning ef það er í lagi til þess að geta skilið það betur.
Ég sýni bróður mínum mesta stuðninginn, að mínu mati, með því að sýna hans lífi áhuga. Tala við hann og fá innsýn inn í líf leðurhommans á fetish-klúbbnum sem er svo stór partur af hans lífi. Ræða við hann um samböndin hans og spyrja spurninga um hvernig það er að vera í fjölkæru sambandi og hvort hann geti raunverulega sofið þegar þeir sofa fjórir eða fleiri saman í rúmi. Það væri svo mikill missir að geta ekki átt þessi samtöl og fræðst mikið um hluta af heiminum sem ég er ekki hluti af og ég og minn maki höfum átt mikilvæg samtöl okkar á milli sem spinnast upp úr nákvæmlega þessu. Við sem lifum í cis-gagnkynhneigðu sambandi getum líka rætt um það hvort að sambandið sé alveg gangkynhneigt. Erum við á hinsegin rófinu? Erum við fjölkær? Hvernig virkar samþykki í okkar sambandi? Hvar liggja mörkin okkar? Hvað er öruggt kynlíf fyrir okkur? Hvað þurfum við á að halda til þess að þrífast í sambandinu?
Eflaust hugsar einhver: „Af hverju í andskotanum á ég að vita hvað það er að vera leðurhommi eða hvort fólk sé fjölkært eða ekki?“
Vegna þess að skömm þrífst í ótta og feluleik.
Það er frelsi í öryggi og öryggi í frelsi. Þegar við tölum og deilum fjölbreytileikanum stuðlum við að öryggi. Mér fannst svo fallegt að heyra að eftir eitt viðtal þar sem Guðmundur Helgi deildi sinni reynslu af fetish heiminum, þá fékk hann skilaboð frá ungum skápaleðurhomma, ung manneskja sem fann þessa hneigð hjá sér og leitaði til Guðmundar Helga til þess að fá ráðleggingar um hvernig hann gæti nálgast þennan heim á öruggan hátt. Þegar við ræðum opinskátt um fjölbreytileikann þá gefum við hvert öðru tækifæri til þess að dýpka okkar sanna sjálf, okkar identity. Þá getum við stutt hvert annað og fundið öryggi.
Með vinsemd og virðingu,
stolt systir, vinkona og cis kona á hinsegin rófinu

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -