Undir klukkan níu í gærkvöldi fékk lögreglan tilkynningu um mann sem lét öllum illum látum og sýndi af sér ógnandi tilburði. Var maðurinn sagður í annarlegu ástandi.
Þegar lögregla kom á staðinn tók maðurinn þeim heldur illa og gekk hann svo langt að hrækja, lemja og sparka í lögreglubifreiðina.
Hann var handtekinn á staðnum og gisti fangageymslu, hvaðan hann mun losna þegar rennur af honum.
Sennilega eru hrákar og aðrir líkamsvessar enn óvelkomnari nú, síðasta eina og hálfa árið, en áður, vegna heimsfaraldursins. Ef til vill ættu að vera einhver sérstök viðurlög við háttsemi sem þessari, sem setur lögreglumenn í óþarfa smithættu.
Lögreglan stöðvaði í gærkvöld og nótt tíu ökumenn á höfuðborgarsvæðinu, sem grunaðir voru um að aka ölvaðir eða undir áhrifum annarra fíkniefna. Meðal annars varð umferðarslys í miðbænum, en þegar lögregla kom á staðinn varð þeim það ljóst að ökumaðurinn var ekki ökuhæfur, sökum neyslu áfengis eða fíkniefna.
Nokkuð var um slagsmál í miðbænum, venju samkvæmt. Tvisvar var tilkynnt um hópslagsmál, en einnig var lögregla kölluð til vegna hópslagsmála í Hafnarfirði.
Í Kópavogi lágu unglingar í leyni og reyndu að blinda ökumenn með lasergeislum. Hópurinn miðaði vopnum sínum í augu ökumanna sem keyrðu hjá, en þrátt fyrir athæfið urðu engin slys áður en lögregla kom á staðinn. Engum köttum varð heldur meint af, en enginn ferfætlingur virðist hafa eltst við lasergeisla unglinganna.
Þegar lögregla kom á staðinn hitti hún fyrir unglingahóp sem þó neitaði fyrir verknaðinn. Ef til vill er tilefni til að efast um sannleikgildi þeirrar neitunar, en lögregla lét sér nægja að fræða téða unglinga um hættu athæfisins – eitthvað sem foreldrar þeirra höfðu eflaust gleymt að gera í amstri dagsins.