Sunnudagur 27. nóvember, 2022
4.1 C
Reykjavik

Biggi lögga segir ofbeldi unglinga okkur að kenna: „Nærumst á því sem samfélag að vera reið“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Lögreglumaðurinn Birgir Örn Guðjónsson, gjarnan kallaður Biggi lögga, segist hafa fylgst með sívaxandi ofbeldi unglinga um nokkurt skeið. Í pistli sem hann birtir á Facebook kemur hann með nokkuð ferska og frumlega ástæðu fyrir auknu ofbeldi meðal ungmenna. Hann segir að þegar unglingar, líkt og fullorðnir, upplifa niðurlægingu þá sé eina skýra svarið hefnd. Svo margt í samtímanum kalli á réttláta reiði og hún smiti út frá sér. Aukið ofbeldi unglinga sé því ekki ofbeldi í kvikmyndum eða tölvuleikjum að kenna heldur hnignun samfélagsins.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Bigga í heild sinni

Í nokkur ár núna hef ég haft áhyggjur af auknu ofbeldi meðal ungmenna. Ég hef áður talað um áhyggjur mínar t.d. af auknum vopnaburði og svokölluðum ofbeldismyndböndum sem hafa gengið um samfélagsmiðla. Ég vinn mjög mikið í þessum málum og því miður hafa þessar áhyggjur bara aukist.

Ég gæti skrifað heilu greinarnar um hvað ég tel líklegar ástæður fyrir þessari þróun en ég ætla ekki út í það hér. Ég held að við þurfum bara að fara að opna svolítið augun og með samtaka mætti samfélagsins að grípa inn í þessa þróun. Ég geri ekki ráð fyrir því að mörg ungmenni lesi pistil sem þennan og því vil ég hér frekar tala til okkar sem eldri eru. Foreldra, fjölskyldumeðlima, kennara, þjálfara og í raun allra sem eru í þeirri stöðu að leiða og hafa persónuleg samskipti við ungt fólk. Við berum ábyrgð og við getum hjálpað. Við getum allavega gert allt annað en að standa hjá og krossa bara fingur.

Þegar við ræðum þessi mál kemur gjarnan upp það tal að unglingar hafi alltaf verið unglingar. Það hefur alltaf verið slegist og tekist á. Það er rétt en engu að síður er umhverfið í dag svo ótrúlega breytt, m.a. með tilkomu samfélagsmiðla sem unglingar dagsins í dag hafa alist upp með. Sú staða hefur aldrei áður komið upp í mannkynssögunni. Þetta er risa bylting og við höfum einhvern veginn bara flotið með og ekki kunnað að bregðast við, fyrr en of seint.

Þessir samfélagsmiðlar hafa minnkað heiminn í eitt óafmarkað svæði. Götur hafa orðið að hverfum sem hafa orðið að sveitafélögum sem hafa orðið að landshlutum sem hafa orðið að löndum sem hafa orðið að heiminum öllum. Svæðisskiptingin er farin og mörkin afmáð. Tíminn er einnig orðinn huglægur og áreitið og pressan ólíkt öllu sem við höfum kynnst. Þetta er ótrúleg áskorun sem við erum því miður smá að missa úr höndunum. Allt á kostnað öryggis, velferðar og hamingju þeirra sem skipta okkur mestu máli.

- Auglýsing -

Við flestir foreldrar vitum svo rosalega lítið um þann heim sem börnin okkar búa í. Við vitum ekki við hverja þeir tala, hvað þeir skoða, hvað þeir læra og hvaða áskorunum þeir standa frammi fyrir. Ég hef rætt við ótrúlega marga foreldra sem vita ekki sitt rjúkandi ráð eftir að barninu þeirra var hótað, það lamið eða lítilsvirt. Eða þá að það var gerandi í slíku máli. Stundum er aðdragandinn sýnilegur en alls ekki alltaf. Þegar eitthvað kemur upp þá eru líkurnar á keðjuverkun miklar og reynslan sýnir að mörgum finnst þær óumflýjanlegar. Einhver gerir einhverjum eitthvað og vegna samfélagsmiðla þá breiðist sú frétt út til endimarkar veruleika unglingsins, sem er eins og áður sagði stærri en þeir ráða við.

Það verður niðurlægjandi að vera í stöðu þess sem varð undir og hefndin verður skynseminni yfirsterkari. Það er allt gert til að halda stöðunni í hópnum. Það er ekkert nýtt. Ákveðnir hópar eru í dag jafnvel farnir að viðhalda sinni stöðu með því að hefna fyrir aðra. Þeir ala á ótta. Og hvar læra þau þetta? Meðal annars af okkur. Ekki vegna þess að við förum um allt og lemjum fólk eða ógnum, heldur vegna þess að við nærumst á því sem samfélag að vera reið. Hin nauðsynlega réttlætiskennd nærir sjálfsmynd samfélagsins með reiði. Það er auðveldast að safna liði með „réttlátri reiði“ og við viljum sjálf geta gripið inn í og ráðið ferðinni. Þetta er vandasamur vegur að feta. Sérstaklega þegar reiðin smitast inn í stéttarbaráttu leitandi unglinga í glænýjum starfrænum heimi. Þá er skiljanlegt að einhverjir villist af leið og misskilji rétt sinn og tilgang.

Ef þú hefur áhyggjur af unglingi í þínu umhverfi þá er fyrsta skrefið að ræða málin. Ef hann er að lenda í slagsmálum eða hótunum þá eru líkur á að hann sé fastur í vef sem hann þarf aðstoð við að losna úr. Hann þarf að vita að þér sé ekki sama og að það séu hægt að losa hann. Það er líka aldrei nein lausn fólgin í því að bara á sér hníf eða annarskonar vopn. Nánast allir sem ég hef rætt við og eru með slík vopn segjast bara hafa það til að verja sig. En hvað ætla þeir að gera? Ætla þeir í alvörunni að taka hnífinn upp og stinga einhvern? Hugsunin nær yfirleitt ekki þangað. Þetta er bara eins og villta vestrið. Það er orðið eðlilegt að vera með vopn „ef“ eitthvað gerist. Þetta þurfum við að þora að ræða við unglinginn og fylgjast með. Þarna berum við ábyrgð.

- Auglýsing -

Miðað við það hversu margir bara á sér hnífa þá er borðleggjandi að það er fullt af foreldrum þarna úti sem hafa ekki hugmynd um að barnið þeirra beri hann á sér og sé þar að leiðandi að setja sig í gífurlega hættu á að lenda í atburði sem gæti haft hræðileg og óafturkræf áhrif á lífið. Ef þið fréttið af slagsmálum eða verðið vitni að þeim þá þurfið þið líka að grípa inn í ef þið treystið ykkur til eða láta lögregluna vita í 112. Það er til þess að við getum gripið inn í áður en að eitthvað gerist og fáum tækifæri til að aðstoða þá sem eiga hlut að máli og eru mögulega komnir í stöðu sem þeir kunna ekki að losa sig úr. Þarna þurfum við öll að standa sama. Lögreglan, skólarnir, íþróttafélögin, félagsmiðstöðvarnar, barnavernd, foreldrar og fjölskyldur.

Og að lokum, þorið að leita ykkur aðstoðar ef þið vitið ekki hvað þið eigið að gera. Þið getið leitað til lögreglunnar, hringt í 112, haft samband við Bergið headspece, hringt í 1717, rætt við skólann, haft samband við heilsugæslustöðina og fleira. Það eru til lausnir. Bæði fyrir ungmennin okkar og okkur sjálf. Við getum ekki verið áhorfendur lengur. Börnin okkar eiga betra skilið

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -