2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Birkir Már hvetur karlmenn til að leita í Ljósið: „Það veitir ekki af utanaðkomandi hjálp í þessu verkefni“

Birkir Már Birgisson var tæplega fertugur þegar hann greindist með krabbamein árið 2017. Birkir Már sótti endurhæfingu í Ljósið samhliða krabbameinsferð, en eftir skurðaðgerð og níu mánaða lyfjameðferð var meinið farið.

Birkir Már segir í viðtali á vef Ljóssins að það hafi verið ómetanlegt að sækja endurhæfingu þangað og að mikilvægt sé að grípa karlmenn snemma í ferlinu. Hvetur hann karlmenn til að mæta í Ljósið til að byggja sig upp.

„Krabbameinsmeðferð er langt og strembið ferli sem reynir mikið á sjálfan þig, sambandið við maka og samskipti við börnin. Það veitir ekki af utanaðkomandi hjálp í þessu verkefni því fáir fara í gegnum þetta ferli uppréttir allan tímann. Hausinn er líka oft manns versti óvinur og mikilvægt að hafa vettvang á borð við Ljósið þar sem maður getur opnað sig upphátt um eigin hugsanir og líðan, bæði við fagaðila og í hópi þeirra sem hafa gengið í gegnum það sama. Ég tel sérstaklega mikilvægt að koma karlmönnum sem allra fyrst inn í ákveðið prógram en allir þeir karlmenn sem ég hef rætt við í Ljósinu eru á einu máli um að þeir hefðu átt að mæta fyrr. Enda skiptir grundvallarmáli að halda ákveðinni rútínu og fá félagsskap þar sem einveran meðan á krabbameinsmeðferð stendur verður heldur leiðigjörn, “ segir Birkir Már, en hann hefur verið virkur þátttakandi í að byggja upp starf fyrir unga karlmenn í Ljósinu.

Þolið að langmestu leyti komið til baka

AUGLÝSING


„Ég fór fljótt að mæta reglulega í ræktina í stórum hópi karla, fór á námskeið og sótti ýmsa fyrirlestra, auk þess að vera duglegur að mæta í hádegismatinn á föstudögum með körlunum“ segir Birkir Már, sem heyrði um Ljósið í viðtali hjá félagsráðgjafa Krabbameinsfélagsins.

Birkir sótti ræktina í Ljósinu reglulega og hefur náð að byggja upp fyrra þol að langmestu leyti þó hann eigi erfitt með gang en lætur það þó ekki stoppa sig í að klífa eitt og eitt fjall, þó að í það fari heilmikil orka.

„Ég fór í Ljósafossgönguna nú í vetur með Ljósinu og var þreyttur í um viku á eftir en það var allt í lagi. Nú heldur maður bara áfram veginn og ég ætla að halda áfram að sækja Ljósið til að leggja mitt af mörkum við að efla og þróa þar dagskrá fyrir okkur strákana,“ segir Birkir Már.

Birkir Már og Jenný kona hans
Mynd / Úr einkasafni

Þjónustan og aðstaðan fyrir karlmenn stórbætt

Birkir Már segir að mikilvægt sé að ná ákveðnum kjarna karlmanna saman í Ljósinu, enda hafi þeir verið duglegastir að mæta þegar fleiri en færri mæti. Þjónustan hafi verið bætt í nýju húsnæði Ljóssins, og þar sett upp aðstaða fyrir strákana þannig að þeir geti mætt og farið í ræktina, borðað og gripið svo í spil eða farið í t.d. pílu eða pool. Hann segir mikilvægt að vera með dagskrá alla daga en hugmyndin sé líka að reyna að hittast eitt kvöld aðra hverja viku til að koma til móts við þá sem eru í vinnu.

„Það er stórt skref fyrir marga að koma hingað [í Ljósið] og þá kannski sérstaklega karlmenn. Það kann að hljóma undarlega en ég hef líkt þessu við tilfinninguna að hefja áfengismeðferð þar sem þessu fylgir ákveðin skömm. Því miður virðast karlmenn oft ekki leita sér aðstoðar fyrr en þeir eru langt leiddir andlega og komnir má segja á botninn. Þessu viljum við svo gjarnan breyta enda er þetta frábær staður þegar þú ert kominn inn og ekkert til að skammast sín fyrir. Við höfum reiknað gróflega að um þriðjungur karla sem leita í Ljósið leita þangað sjálfviljugir en hinir eru má segja dregnir á staðinn af maka eða ættingjum. Við heyrðum t.d. af tveimur sem voru úti að ganga með konunum sínum og þær plötuðu þá til að kíkja hingað inn,“ segir Birkir Már.

Framundan er útgáfa sérstaks fræðsluefnis fyrir karlmenn þar sem einblínt er á makann, þannig að hann þekki til þjónustunnar sem er í boði.

María Ólafsdóttir tók viðtalið við Birki Má, sem birtist fyrst á vef Ljóssins.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum