Föstudagur 13. september, 2024
10.8 C
Reykjavik

Bjarni Benediktsson um glimmer atvikið: „Frekja og yfirgangur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir margt hafa verið rangt við það þegar hent var yfir hann glimmeri fyrr á árinu. Bjarni, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segist treysta lögreglunni þegar kemur að því að ákveða hvort hann þurfi lífverði:

„Ég hef hef haft gæslu frá lögreglunni sem þeir meta frá einum tíma til annars. Ég hef aldrei komið að því mati með neinum hætti og treysti þeim bara fyrir því. Þegar lögreglan segir að það eigi að hafa fylgd með mér, þá segi ég bara gott og vel, en í dag er ég ekki með neina fylgd. Ég er hvorki að biðja um þetta né hafna þessu, en mér finnst ömurlegt þegar stjórnmálamenn fara að gera pólitískar útleggingar á þessu. Við eigum ekki að gera lítið úr mati lögreglunnar á því að gæta að öryggi æðstu embættismanna ríkisins eða þeim sem eru í stjórnmálum,“ segir Bjarni og heldur áfram um glimmer-atvikið:

„Það var mjög margt sem var ekki í lagi við þetta atvik. Í fyrsta lagi er það ekki í lagi að það sé verið að veitast að fólki. Í öðru lagi er það óásættanlegt að það sé verið að stöðva umræðu um alþjóðamál. Eini tilgangurinn var að vekja athygli á málstað mótmælenda með frekju og yfirgangi og þess vegna var það mjög skrýtið að Ríkisútvarpið hafi gert það að fyrstu frétt að fá mótmælandann í viðtal. Skilaboðin eru þá að það sé hvati að gera hluti af þessu tagi og þannig náir þú þínu fram.“

Það vakti mikla athygli fyrr á árinu þegar Bjarni tjáði sig á samfélagsmiðlum um tjaldbúðir á Austurvelli. Hann segist ekki hafa borið það undir neinn áður en hann skrifaði færsluna, heldur hafi honum einfaldlega fundist að einhver yrði að tjá sig um stöðuna:

„Ég var bara hissa á því að enginn væri búinn að tjá sig um þetta. Þetta olli miklu fjaðrafoki, en mér fannst bara augljóst að þetta gæti ekki gengið til lengdar. Þetta var algjörlega óeðlilegt ástand í alla staði og það var með öllu óskiljanlegt að Reykjavikurborg ætlaði að framlengja það ástand. Mér er fyrirmunað að skilja það,“ segir Bjarni, sem neitar því að hann hafi borið þetta undir ráðgjafa áður þegar Sölvi spyr hann að því:

„Það er nákvæmlega það sem ég gerði, að setjast niður við lyklaborðið og skrifa þessa færslu þegar ég var kominn heim til mín. Þegar ég var búinn að setja þetta út vakti ég athygli aðstoðarmanna minna á því að þessi færsla væri komin í loftið. Ég er kosinn á Alþingi og þarf ekki að biðja um leyfi frá ráðgjöfum til þess að tjá mig. En auðvitað ber ég margt undir aðstoðarmenn mína og þigg ráðgjöf frá þeim. En í þessu tilviki bar ég þetta ekki undir neinn.“

- Auglýsing -

Í þættinum ræðir Bjarni líka um kristna trú og þau gildi sem hafa mótað íslenskt samfélag:

„Við þurfum að passa upp á okkar menningarverðmæti sem þjóð. Það er virði í því að vera íslensk þjóð og við viljum ekki drekkja menningu okkar og arfleið í innflutningi fólks sem á skömmum tíma verða fjölmennari en þeir sem byggja landið í dag. Það er ekkert vit í því. Við þurfum að gæta mjög að okkur til að þau gildi sem skilgreina okkur sem Íslendinga verði ekki undir. Ég er ekki að leggja til stöðugan lestur biblíunar, en við erum með krossinn í fánanum okkar og það er ekki tilviljun. Skoðaðu kristin samfélög í heiminum og skoðaðu mannréttindi á sama tíma. Hvar eru mannréttindi best varin? Hvar er frelsi einstaklingsins best varið? Hvar er virkt lýðræði framkvæmt? Það er einkennandi fyrir norðurlöndin til dæmis, sem öll eru með kross í þjóðfánanum að þar er lýðræði virkast, jafnrétti kynjanna mest og mannréttindi í fremstu röð. Þetta er ekki tilviljun og eitthvað sem gerist á einni nóttu. Við eigum ekki að ímynda okkur að svona verði þetta alltaf ef við gætum ekki að okkur og bjóðum heim sofandahætti.“

Bjarni ræðir í þættinum um stöðu fjölmiðla á Íslandi og stöðu RÚV í því samhengi:

- Auglýsing -

„Ég er þeirrar skoðunar að fyrirferð Ríkisútvarpsins sé of mikil og skuggi Ríkisúvarpsins sé mjög langur og í honum þrífist fáir fjölmiðlar. Ég hef áhyggjur af rekstrarskilyrðum fjölmiðla í landinu og þess vegna finnst mér augljósast að við ættum að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Það þarf að skapa heilbrigðari skilyrði fyrir frjálsa fjölmiðlun í landinu. Við í Sjálfstæðisflokknum lítum svo á að við höfum tryggt frelsi í fjölmiðlun á sínum tíma, sem ungu kynslóðinni kann að finnast skrýtið. En það var þannig að það gat ekki hver sem er opnað útvarpsstöð. Það var einkaréttur ríkisins. En það dugir ekki til að búa til þetta frelsi ef starfsskilyrðin eru ekki tryggð á sama tíma. Það þarf að tryggja aðstæður þar sem frjálsir fjölmiðlar geta þrifist. Sem stjórnmálamaður verð ég að sýna því skilning að manni sé veitt aðhald, en ég ætla ekkert að neita því að mér finnst það á köflum ganga út í öfgar hjá RÚV. Það blasir oft við þegar maður á í samskiptum við starfsfólk á ríkisfjölmiðlinum að það brennur fyrir einhvern málstað og maður hefur það á tilfinningunni að stundum verði sá málstaður fagmennsku í umfjöllun málaflokksins yfirsterkari. Það er kannski bara mannlegt og maður skilur það, en auðvitað líður mér stundum þannig að fréttir séu ekki hlutlausar.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Bjarna og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -