Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Bjartsýnn Bogi en ekki bugaður segir engan koma í stað Icelandair

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér líður bara mjög vel. Síðustu vikur hafa auðvitað verið erfiðar og verkefnið krefjandi. Ég er með frábært teymi með mér þannig að ég er langt í frá bugaður heldur bjartsýnn,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, um líðan sína en forstjóri flugfélagsins hefur staðið í stöngu undanfarið við að reyna að endurfjármagna reksturinn til að bjarga flugfélaginu frá falli.

Bogi viðurkennir að það hafi verið mikill léttir að ná samningum við flugmenn félagsins í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Mannlífs kveður samningurinn á um 25 prósenta launalækkun flugmanna og hafa þeir meðal annars gefið eftir frídaga og eru tilbúnir til að auka vinnuframlag. Enn er allt stál í stál á milli Icelandair og flugfreyja. Samkvæmt heimildum Mannlífs eru kröfur Icelandair mun vægari en komið hefur fram í fjölmiðlum, eða nokkuð í anda þess sem flugmönnum hefur boðist. Grunnlaun flugfreyja eru þó talsvert lægri en flugmanna. Þá herma heimildir Mannlífs einnig að stjórn og forstjóri Icelandair hafi nú þegar lækkað laun sín um 30 prósent og allir helstu stjórnendur félagsins um 20 prósent.

„Það hafa jákvæð samtöl átt sér stað. Við höfum fundið fyrir áhuga og fengið margar fyrirspurnir, bæði innanlands og utan.“

Aðspurður vill Bogi ekki staðfesta þessar launalækkanir sem flugmenn og stjórnendur hafa tekið á sig. Hann staðfestir að tilboð til flugfreyja sé í anda þess sem öðrum er boðið. „Þetta var mikilvægur áfangi. Það voru gerðast talsverðar breytingar sem auka framlegðni og vinnuframlag til að auka samkeppnishæfni félagsins. Við erum að horfa til þess að breyta samningum hjá flugfreyjum með sama hætti.“

Sjá nánar hér: Samningar nánast í höfn

Bogi segir að Icelandair hafi oft reynt að gera þær breytingar á samningum sem nú þykja nauðsynlegar. Þegar hann er spurður útí hvort það valdi honum áhyggjum hversu erfiðlega hefur gengið að ná samningum við flugfreyjur þá segir hann svo ekki vera. „Ég hef nokkuð góðan skilning á því að það taki tíma að ganga frá svona stórum breytingum á samningum sem við erum að óska eftir. Það liggur fyrir að fjárfestar vilja hafa fyrirsjáanleika til langs tíma hvað þetta varðar og því réðumst við í þessa vinnu núna. Ég hef alltaf verið jákvæður fyrir því að samningar við FFÍ náist því það er mjög mikilvægt fyrir félagið.“

Aðspurður um hvort hann óttist að félagið kunni að falla semji flugfreyjur ekki þá segir hann það vissulega mikilvægan þátt í framtíð félagsins. „Sú er bara staðan en það er samt ekkert neitt eitt sem veltir hlassinu. Að semja við flugfreyjur er mikilvægur liður því ef okkur tekst ekki að klára fjárhagslega endurskipulagningu þá getur staðan orðið erfið.“

- Auglýsing -

Bogi segir ljóst að engin skynsemi sé í öðru en að bjarga Icelandair frá falli nú og bendir á að víða í löndunum í kringum Íslands séu stjórnvöld að koma flugfélögum til aðstoðar. Hann er sannfærður um að ekkert annað flugfélag geti hlaupið í skarðið svo vel sé líkt og bæði Bláfugl og Play flugfélögin hafa lýst yfir. „Í rauninni er leiðarkerfi okkar þess eðlis að það myndi taka önnur flugfélög mörg ár að byggja slík upp. Það yrði að mínu mati gríðarlegt tjón fyrir hagkerfi landsins ef okkar félag verður ekki klárt þegar markaðurinn tekur við sér. Það er staðreynd að það hleypur enginn í skaðið fyrir Icelandair, það tekur fjöldamörg ár,“ segir Bogi.

Bogi hefur ekki aðeins rætt við stærstu hluthafa Icelandair undanfarið um aukningu hlutafjár heldur segir hann jákvæða fundi hafa átt sér stað með fagfjárfestum. Hverjir þeir eru sem sýnt hafi þann áhuga vill hann hins vegar ekki staðfesta. Aðspurður játar hann því að allar þær þreifingar séu á frumstigi og engar viljayfirlýsingar á borðinu. „Það hafa jákvæð samtöl átt sér stað. Við höfum fundið fyrir áhuga og fengið margar fyrirspurnir, bæði innanlands og utan. Um leið og fjárfestar heyra af áhugaverðum tækifærum hafa þeir samband og það hefur aðeins verið um það. Sá áhugi hefur aðeins aukist eftir að við gáfum út að við værum að fara í hlutafjáraukningu,“ segir Bogi.

- Auglýsing -

Þannig er Bogi brattur fyrir framhaldinu og ekkert nema bjartsýnn fyrir komandi vikum. Hann segir viðskiptamódel fyrirtæksins hafa sannað sig og innviði þess bæði sterka og verðmæta. „Auðvitað er alltaf hægt að gera betur í rekstri. Ég hef engar forsendur fyrir öðru en að þetta gangi upp hjá okkur. Í rauninni er engin skynsemi í öðru. Við ætlum að koma okkur í gegnum þetta og vera með sterkt félag sem tryggja mun sterka viðspyrnu íslensks hagkerfis.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -