Björgvin Ingi hleypur maraþon fyrir Guggu æskuvinkonu sína: Öryrki eftir fólskulega líkamsárás

Deila

- Auglýsing -

Laugardaginn 2. október 1993 breyttist líf Guðrúnar Jónu Jónsdóttur til frambúðar þegar hún varð fyrir árás þriggja unglingsstúlkna í miðbæ Reykjavíkur. Gugga var þá 15 ára gömul, og gerendur á svipuðum aldri. Eftir árásina hefur Gugga verið í hjólastól og þarf hún aðstoð við allar athafnir daglegs lífs.

Baksíða Morgunblaðsins 3. október 1993

Gugga hefur gaman af því að fara á tónleika, í leikhús og að ferðast. Einn af vinum Guggu er æskuvinur hennar, Björgvin Ingi Ólafsson, sem fyrir nokkrum árum stofnaði Ferðasjóð Guggu. Sjóðurinn og framlög í hann gera Guggu kleift að ferðast til útlanda. Slík ferð er hvorki ódýr né einföld þar sem Gugga þarf tvo aðstoðarmenn með sér á ferðalögum. Með framlögum í Ferðasjóð Guggu hefur henni verið gert kleift að ferðast víða.

„Ég hef farið til Chicago í Bandaríkjunum á tónleika með U2, Madonnu í London og til Parísar sem dæmi,“ segir Gugga í samtali við Mannlíf aðspurð um til hvaða staða hún hefur ferðast. Í ár ætlar hún að ferðast innanlands og fara á Flúðir.

Gull af manni

Í ár ætlar Björgvin Ingi að hlaupa heilt maraþon til styrktar Ferðasjóði Guggu.

„Ég held það hafi verið Erla Björg bekkjarsystir okkar og badmintonhetja sem hafi fyrst komið með hugmyndina um að taka þátt í Hlaupastyrk. Þá var ég búsettur í Ameríku,“ segir Björgvin Ingi, en Gugga einmitt heimsótti hann þegar hún fór á tónleikana með U2.

„Við Gugga vorum saman í Breiðholtsskóla nánast alla grunnskólagönguna, bara rosa góðir vinir og vorum til dæmis saman í nemendaráði í 10. bekk og brölluðum alls konar. Við vorum saman í skólaleikritum og ýmsum misheppnuðum stuttmyndum og fleira skemmtilegu,“ segir Björgvin Ingi.

Síðan hann flutti aftur heim til Íslands hefur hann hlaupið mörgum sinnum fyrir Guggu.

„Fleiri hafa gert það, nokkrir vinir okkar eins og Arna Torfadóttir, sonur minn og nokkrir góðir til viðbótar eins og Andrés Jónsson almannatengill, svo ég nefni nokkra. Núna er ég sá eini sem er búinn að skrá mig á Hlaupastyrkur.is til að hlaupa fyrir Guggu, en við vonumst til að einhverjir úr Facebook-grúbbunni: Ferðasjóður Guggu bætist við. Svo mega aðrir líka hlaupa fyrir og með okkur sem það vilja,“ segir Björgvin Ingi.

Björgvin Ingi er eins og er í 2. sæti einstaklinga á Hlaupastyrkur.is.

„Bjöggi er bara gull af manni, ómetanlegt,“ segir Gugga aðspurð um hvernig henni finnist framtak og hlaup æskuvinar hennar.

Björgvin Ingi á hlaupum.
Gugga og móðir hennar, Barbara Ármannsdóttir, voru í viðtali í helgarblaði Fréttatímans 7. – 9. desember 2012. Mynd / skjáskot timarit.is

Lesa má viðtalið við mæðgurnar hér. 

Bæði maraþon gömul þegar hlaupið fer fram

Hlaupið í ár verður nokkuð sérstakt þar sem Gugga og Björgvin Ingi verða bæði um maraþons gömul þegar Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram. Þau eru bæði fædd árið 1978, 7. og 9. júní, og heilt maraþon er 42,2 km.

„Það er eiginlega ekki hægt að gera annað en að hlaupa heilt maraþon fyrir Guggu í ár,“ segir Björgvin Ingi kátur.

„Ég hef sett mér það metnaðarfulla markmið að ná að safna einni milljón fyrir Guggu með maraþonhlaupi. Til að ná því þarf ég ekki bara að bögga alla vini og kunningja heldur miklu fleiri,“ segir Björgvin Ingi. „Við værum afskaplega þakklát ef þeir sem lesa þetta myndu leggja söfnuninni lið.“

Umfjöllun um árásina í Morgunblaðinu 5. október 1993

Eins og áður kom fram varð Gugga fyrir fólskulegri árás þegar hún var unglingur. Mikið var fjallað um árásina í fréttum á þeim tíma, og vakti málið mikinn óhug meðal almennings. Þrátt fyrir að árin líði virðast árásir unglinga á jafnaldra sína og/eða yngri börn enn eiga sér stað, með sama eða svipuðum hætti og árásin á Guggu.

„Þetta er bara hræðilegt,“ segir Gugga aðspurð um hvernig henni líði að lesa fréttir eða heyra af slíkum atvikum. „Þau vita ekkert hvað getur gerst.“

„Ég vil hvetja þá sem tök hafa á að hlaupa fyrir Guggu eða styrkja okkur með framlagi, svo hún geti áfram ferðast og skapað skemmtilegar og góðar minningar,“ segir Björgvin Ingi.

Þeir sem vilja styrkja Ferðasjóð Guggu geta lagt inn á:
Reikningur: 515-14-405952
Kennitala 520511-0910

Björgvin Ingi er eins og er í 2. sæti einstaklinga á Hlaupastyrkur.is.

- Advertisement -

Athugasemdir