Samfélagsrýnirinn úr Grindavík, Björn Birgisson, spyr íslensku þjóðina hvort hún sé raunverulega tilbúin undir einkavæðingarplön Sjálfstæðisflokksins sem birtist á nýafstöðnum landsfundi flokksins. Hann spyr raunar: „Vill þjóðin láta stela þessu af sér?“
Á Facebook-síðu sinni birtir Björn lista yfir allt það sem sjálfstæðismenn vilja einkavæða á næstu misserum. Í færslunni líkir hann flokksmönnum við innbrotsþjóða sem nú hafi í höndunum lista yfir það sem eigi „að stela á næstunni.“
Við skulum gefa Birni orðið og skoðum þar lista hans yfir það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill selja eða einkavæða:
„Þegar Sjallar birta lista yfir drauma sína um sölu ríkiseigna er það eins og listi sem innbrotsþjófur fær yfir það sem hann eigi að stela á næstunni. Stela frá þjóðinni fyrir fáa útvalda.
Hér er síðasti pöntunarlistinn fyrir innbrotsþjófana, þingmenn og ráðherra flokksins.
Úr ályktun 44. Landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Sala ríkiseigna.
Áfram verði haldið við sölu ríkiseigna þar sem því verður við komið.
Tryggja þarf að sala ríkiseigna sé þannig að öllum kröfum um gagnsæi og jafnræði sé fullnægt á sama tíma og ríkissjóður fái sanngjarnt verð fyrir eignir sínar.
Slíkar sölur afla ekki einungis ríkissjóði tekna, þær eru til þess fallnar að leysa úr læðingi nýsköpun og bætta þjónustu fyrir neytendur.
Eftirfarandi rekstur á ríkið að setja í forgang að koma í söluferli eða leggja af:
• Íslandsbanka og Landsbankann:
Ríkið á ekki að vera í áhættutöku og samkeppnisrekstri á fjármálamarkaði til lengri tíma.
• Áfengis og tóbaksverslun ríkisins:
Það er tímaskekkja að ríkið sé með einokun á áfengisverslun.
• Íslandspóstur:
Umhverfi póstþjónustu hefur breyst mjög mikið síðustu áratugi og tími til að endurskoða hlutverk ríksins á þessum vettvangi.
• Ríkisútvarpið:
Tilgangur og hlutverk Ríkissútvarpsins hefur breyst. Mikilvægt er að endurskoða forsendur og umfang núverandi rekstrarfyrirkomulags með það að markmiði að kanna hvort rekstrinum sé að öllu leyti eða hluta til betur komið í höndum einkaaðila.
• Eignarhaldsfélag Suðurnesja hf.:
Endurskoða þær fjárfestingar sem tilheyra félaginu og eru betur komnar í höndum einkaaðila.
• Rekstri og eignarhaldi flugstöðva og flugvalla.
• Selja rekstur fríhafnaverslana á flugvöllum landsins.
• Sala á jörðum og lóðum í eigu ríkisins þar sem því verður við komið.
Vill þjóðin láta stela þessu af sér?“