Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Blöskraði yfirfull tunna af brauði við Bakarameistarann: „Þú getur ekki látið allt klárast“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Íbúi í Hlíðunum vakti athygli á miklu magni brauðmetis sem hafði verið hent úr bakaríi Bakarameistarans í Suðurveri. Framkvæmdastjóri Bakarameistarans segist telja að um einstakt tilvik sé að ræða. Fyrirtækið reyni að gera sitt besta til að sporna gegn matarsóun.

Ein myndanna sem birtist í hverfishópnum. (Facebook)

Í gærkvöldi birtust myndir í hverfishópi Hlíðahverfis Reykjavíkur á Facebook, sem sýna stóra ruslatunnu yfirfulla af brauðmeti. Ruslatunnan er staðsett rétt við útibú Bakarameistarans í Suðurveri. Á myndunum er sýnilegt mikið magn brauðs og rúnstykkja í pokum, svo stendur upp úr tunnunni.

„Á tímum þegar öll ættu að vera meðvituð um matarsóun má sjá þennan ruslagám, rétt hjá Bakarameistaranum Suðurveri, fullan af brauði. Hvað er málið?“ skrifar höfundur færslunnar meðal annars.

Mynd: Facebook

 

„Við erum að nýta afgangana mjög vel“

Blaðamaður Mannlífs hafði samband við Sigurbjörgu Rósu Sigþórsdóttur, framkvæmdastjóra Bakarameistarans. Hún segir að í rekstrinum falli alltaf til afgangar. „Þetta er eftir helgina. Við erum að nýta afgangana mjög vel og styrkja íþróttafélög, og við erum að styrkja Fjölskylduhjálp Íslands með brauð. En það er náttúrulega ekki alla daga vikunnar.“

Blaðamaður hefur á orði að um nokkuð magn virðist vera að ræða.

- Auglýsing -

„Þetta er ekki mikið held ég,“ segir Sigurbjörg. „Þetta er svona tvöföld ruslatunna, eftir alla helgina.“

Sigurbjörg segir að ekkert sé gefið af því sem falli til um helgar, slík þjónusta sé ekki til staðar þá daga. Aðspurð hver stefna Bakarameistarans sé þegar komi að matarsóun segir hún að þau reyni að halda henni eins lítilli og þau geti. „En það er ekki hægt að hafa allt tómt alla daga og láta allt ganga upp. Þú veist aldrei hver traffíkin er. En við fylgjumst mjög vel með; skráum allt hjá okkur sem verður afgangs.“

Sigurbjörg segist ekki vita hve mikið hafi fallið til þessa tilteknu helgi. „Nei, ég skoða það ekki daglega. Ég er ekki að skoða afgangslistana eftir helgi núna. En af hverju þarftu að fjalla um þetta sérstaklega?“

- Auglýsing -
Mynd: Facebook

 

Hefur ekki fengið kvörtun um slíkt áður

Sigurbjörg segir að fyrirtækið reyni sitt besta þegar kemur að matarsóun. „En þú myndir ekki heldur vilja koma sem kúnni í bakaríið og það væri alltaf tómt allt. Við reynum alltaf að hafa framleiðslumagnið þannig að það er hver dagur með sitt magn, og svo veistu aldrei. Stundum klárast allt löngu fyrir lokun og stundum er afgangur. Við erum að flokka; við flokkum plast, pappír og lífrænt. Þetta er ekki losað um helgar, þannig að það getur safnast. Ég held að þetta sé örugglega í fyrsta sinn sem það gerist. Ég hef allavega ekki fengið kvörtun um þetta áður. Það getur alltaf verið svona um helgar, þegar það er ekki verið að losa. En við erum að reyna að gera okkar besta í að flokka og hafa sem minnsta matarsóun.“

Mynd: Facebook

Sigurbjörg segir Bakarameistarann styrkja Fjölskylduhjálp með því að safna saman öllum afgöngum til þeirra á virkum dögum. „En um helgar þá setjum við í gáma. Þá flokkum við og setjum í lífrænt. Þetta er lífrænn úrgangur sem fer bara þannig. Við erum að reyna að gera þetta eins vel og við getum. En það er ekki losað um helgar og við erum ekki að keyra í frískápana eða nota þá. Við erum að gefa þetta í íþróttafélögin, þau fá afganga, og svo Fjölskylduhjálp.“

 

„Best væri ef það yrði ekkert afgangs“

Aðspurð hvort hún haldi að mögulegt væri að gera betur hvað varðar matarsóun um helgar segist Sigurbjörg ekki viss. „Jú, örugglega, ég auglýsi þá bara eftir ágætri leið í það ef fólk sér það. Ég er alltaf til í að skoða þetta, því auðvitað vill maður farga sem minnstu af rusli og afgöngum. Sérstaklega mat, því þetta kostar allt. Best væri ef það yrði ekkert afgangs, en það er heldur ekki hægt. Þú verður alltaf að hafa eitthvað til sölu. Þú getur ekki látið allt klárast og haft allt tómt. Það segir sig svona pínu sjálft, en við reynum eins og við getum.“

Sigurbjörg ítrekar að hún haldi að um einstakt tilvik sé að ræða. „Því ég hef ekki fengið svona kvörtun áður.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -