Laugardagur 3. desember, 2022
-0.2 C
Reykjavik

Bragi Valdimar hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar: „Má segja að hann sé dúndur, hann sé diskó“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Bragi Valdimar Skúlason, tónlistarmaður og textasmiður, hlaut í dag Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Verðlaunin eru veitt árlega, á degi íslenskrar tungu, þeim einstaklingi sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Sérstaka viðurkenningu dags íslenskrar tungu hlaut að þessu sinni verkefnið Tungumálatöfrar á Ísafirði sem býður upp á upp á málörvandi umhverfi í gegnum skapandi kennsluaðferðir fyrir fjöltyngd börn.

„Í dag kynnast börn, ungmenni, nýir málhafar og aðrir um allt land deginum og tungumálinu á nýjan og ólíkan hátt. Deginum sem fagnar tungumáli okkar allra. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu, hvort sem er í lestri bóka, í samfélagsumræðu, á netmiðlum eða í leik og starfi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

„Íslenskan er í fyrirrúmi í dag, en hún á alltaf að vera það. Við skulum fagna þessum degi saman og standa saman vörð um íslenskuna. Við skulum þróa hana saman og kætast yfir því að hún á bjarta framtíð fyrir sér ef rétt er haldið á spöðunum. Íslenskan er okkar allra. Til hamingju með daginn í dag.“

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar

Bragi Valdimar Skúlason hlýtur verðlaunin í þetta skipti. Í rökstuðningi ráðgjafanefndarinnar segir:
Tungumál slitna ekki við notkun heldur styrkjast. Til þess að íslenska haldi velli þarf að pönkast í henni, leika sér með hana, snúa upp á hana og út úr henni. Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar hlýtur að þessu sinni skáld, grínisti, auglýsingamaður og uppfræðari. Textar hans eru sungnir við brúðkaup, jarðarfarir og skírnir, kyrjaðir í tjaldútilegum og eru jafn ómissandi hluti af jólahaldi Íslendinga og ítölsk dægurlög. Hann er eftirlæti unglinga og vinnustaðagrínara, kennara og kaffibrúsakarla.

 

Bragi Valdimar ásamt Lilju Alfreðs
Ljósmynd: Golli
- Auglýsing -

Um hann má segja að hann sé dúndur, hann sé diskó, það sé mikið í hann lagt! Verðlaunin í ár hlýtur Bragi Valdimar Skúlason sem hefur unnið markvisst að því að vekja áhuga fólks á íslenskri tungu og ræktað hana á óvenjumörgum sviðum. Hann er ekki aðeins skáld, textahöfundur og þýðandi heldur hefur hann gert vinsæla sjónvarpsþætti þar sem viðfangsefnið er tungumálið er sjálft. Að auki hefur hann lagt til efni á vef Baggalúts og unnið að auglýsingagerð.

Viðurkenning Jónasar Hallgrímssonar

Í rökstuðningi ráðgjafanefndar segir um Tungumálatöfra:

- Auglýsing -

„Tungumálatöfrar, Tungumálatöfrar, í takti tölum við saman,“ má heyra sungið af kór barna og fullorðinna á myndbandi sem finna má á netinu. Það var tekið upp á sumarnámskeiði fyrir börn á Ísafirði en þar saman komu krakkar á aldrinum 5–11 ára til að læra íslensku í gegnum listsköpun og leik. Námskeiðið hefur verið haldið frá árinu 2017 og er ætlað íslenskum börnum sem hafa fæðst erlendis eða flutt til annarra landa og börnum af erlendum uppruna sem hafa sest að hér á landi. Börnin eiga það því sameiginlegt að vera fjöltyngd og um leið og þau eru örvuð til að nota íslensku er þeim bent á þann styrk sem felst í því að kunna fleiri tungumál en eitt. Í lok námskeiðsins hefur verið gengin tungumálaskrúðganga á Ísafirði en einnig hafa aðstandendur þess staðið fyrir málþingum. Komið hefur fram að þeir vonist eftir því að Tungumálatöfrar á Ísafirði verði uppspretta þekkingar sem geti nýst við þróun námsefnis víðar á landinu.

Viðurkenningarhafar ásamt Lilju Alfreðs.
Ljósmynd: Golli

Tungumálatöfrar hljóta sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu vegna frumkvöðlastarfs á sviði íslenskukennslu. Um leið á viðurkenningin að vera Tungumálatöfrum hvatning til frekari rannsókna og uppbyggingarstarfs.

Hlýjar móttökur í Fellaskóla

Börnin í Fellaskóla í Reykjavík, tóku á móti ráðherra og verðlaunahöfum og voru viðstödd hátíðlega athöfn í dag. Nemendur sýndu verðlaunaatriði sitt af sviðslistahátíðinni Skrekk, en þau urðu í öðru sæti á hátíðinni. Í Fellaskóla hefur verið unnið að fyrirmyndarverkefninu Okkar mál-samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi. Verkefnið hefur það að meginmarkmiði að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti. Leiðarljósið er að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu.

Krakkarnir í Fellaskóla í Breiðholtinu stóðu sig með prýði.
Ljósmynd: Golli

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -