Föstudagur 2. júní, 2023
9.8 C
Reykjavik

Brynjar og Björn Leví rifust á Facebook: „Þú ert semsagt í hugtakaútúrsnúningum?

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Brynjar Níelsson og Björn Leví Gunnarsson áttu í ritdeilu á Facebook í gær. Ástæðan er færsla Brynjars um vantrauststillöguna á dómsmálaráðherrann þar sem Brynjar segist hafa verið „þvingaður í leikhúsið við Austurvöll“.

„Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifinn af leikhúsi og allra síst þegar það er fært niður á Austurvöll og þjóðkjörnir fulltrúar taka að sér stærstu hlutverkin í endursýndum verkum. Ég var þvingaður í leikhúsið við Austurvöll þegar endursýnt var verkið „Vantrauststillaga á dómsmálaráðherra“ í annað sinn á skömmum tíma. Ástæða sýningarinnar núna var sú að dómsmálaráðherra hefði brotið þingskaparlög samkvæmt minnisblaði lögfræðings á skrifstofu Alþingis með því að neita Útlendingastofnun um að afhenda þinginu gögn.“ Svona byrjar færsla Brynjars. Heldur hann svo áfram og segir að minnisblaðið segi ekkert til um lögbrot Jóns Gunnarssonar og þá fullyrðir Brynjar að Útlendingastofnun hafi ekki neitað að afhenda gögn til þingsins.

„Nú er það svo að minnisblaðið segir ekkert um meint lögbrot ráðherra og svo er það alrangt að Útlendingastofnun hafi neitað að afhenda gögn til þingsins. Þingið fær öll umbeðin gögn sem til eru og yfirlit um þau ef þess er óskað, en það á engan rétt til að krefjast þess að stofnunin sinni efnislegri meðferð mála í forgangi fyrir þingið, eins og var ástundað áður en núverandi ráðherra tók við embætti. Þegar stofnunin hefur lokið lögbundnu verkefni að gera umsagnir vegna umsókna um ríkisborgararétt er þinginu afhent þær umsvifalaust. Ástæða fyrir breyttu verklagi af hálfu ráðuneytisins var sú að ekki mætti mismuna fólki við afgreiðslu mála eftir því hvort sótt var um ríkisborgarrétt til Alþingis eða til Útlendingastofnunar. Þessi forgangur þingsins leiddi einnig til þess að verulegur dráttur varð á úrlausn mála þeirra sem sóttu um ríkisborgararrétt til stofnunar, sem Umboðsmaður Alþingis hafði gert athugasemdir við. Þetta breytta verklag er því í samræmi við jafnræðisreglu í stjórnarskrá og ákvæði stjórnsýslulaga. Þetta ætti öllum að vera ljóst, meira að segja þessum sérkennilegu lögspekingum stjórnarandstöðunnar.

Stóra vandamálið sem við ættum að vera að ræða er það að Alþingi er að taka að sér stjórnsýslustörf í stórum stíl og ákvarða um ríkisborgararétt framhjá almenna kerfinu með handahófskenndum og geðþóttalegum hætti. Það var aldrei tilgangurinn heldur að málin væru afgreidd af stjórnvöldum(ÚTL) og fyrir þingið kæmu einstaka mál sem sérstök rök ættu við um veitingu ríkisborgarréttar án þess að umsækjandi uppfyllti skilyrði laga um að fá ríkisborgararétt. Ég skil ekkert í því að Íslandsdeild Transparency International hafi ekki gagnrýnt þetta fyrirkomulag hjá þinginu og látið til sín taka.

Þessi uppákoma í þinginu kringum vantrauststillöguna er lýsandi dæmi fyrir störf stjórnarandstöðunnar og gagnsleysi hennar. Þau er ekki í pólitík sem snertir hagsmuni þjóðarinnar. Nú eru víðsjárverðir tímar í efnahagsmálum og verðbólga mikil. En þetta lið hefur ekkert fram að færa í þeirri glímu. Það er eins og það líti svo á að það hafi verið kosið á þing til að gæta hagsmuna allra annarra en íbúa þessa lands. Og það er sérstaklega sorglegt að sjá Viðreisn hoppa á Píratavagninn í pólitík. Það er erfitt að taka af stað upp brekku í fjórða gír og verður enn erfiðara þegar helsta málgagn þeirra hefur lagt upp laupana.“

Þessari færslu svaraði fjöldi manns, flestir voru á því að Brynjar færi með rétt mál og einhver hrósaði honum fyrir málefnalega færslu. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata var ekki í þeim hópi.

„Mjög sætir útúrsnúningar hjá þér. Hvar fékkstu uppskriftina?“ skrifaði Píratinn í athugasemd sem Brynjar svaraði um hæl: „Þetta er kjarni málsins og þarf því engar uppskriftir.“

- Auglýsing -

Björn Leví var ekki lengi að svara með lagabókstafinn með sér í liði: „nú?

Á 51. gr. ekki við af því að hún er í kafla um eftirlit Alþingis? Þrátt fyrir að kaflinn fjalli um eftirlit Alþingis og almennar umræður?
Getur Alþingi bara óskað eftir gögnum sem þarf ekki að „búa til“?
Geta stjórnvöld bara ákveðið að bíða með að svara gagnabeiðni frá Alþingi þangað til það hentar þeim?

Hvaða aðili er með forræði á veitingu ríkisborgararéttar með lögum samkvæmt stjórnarskrá? Getur ráðherra ákveðið það einhliða að breyta því?“

Þessu svaraði hinn löglærði aðstoðarmaður: „Alþingi getur óskað eftir hvaða gögnum sem er. Það á hins vegar engan rétt á því að framkvæmdavaldið klári sín störf eftir 51. gr. þingskaparlaga. Krafa um efnislega . meðferð framkvæmdavaldsins á málum er alveg ótengt gagnabeiðni þingsins. Umsögn er ekki hluti að gagnabeiðni þingsins. Alþingi veitir ríkisborgrarétt samkvæmt stjórnarskrá. Þingið getur gertþað sem það vill með lögum og ráðherra er ekkert að reyna breyta því. Þið eruð stífluð úr frekju. Mér finnst sérkennilegt að flokkur sem berst gegn spillingu er fremstur í flokki að vilja að þingið veiti ríkisborgararétt eftir geðþótta og órökstudd.“

- Auglýsing -

Pírataþingmaðurinn spurði þá hvort Brynjar sé í hugtakaútúrsnúningum: „Þú ert semsagt í hugtakaútúrsnúningum? Af því að það er bara sagt gögn og upplýsingar í 51. gr. en ekki umsögn þá virki 51. greinin ekki?

Þú áttar þig á því hversu rosalega þunn rök það eru, ekki satt? Svona miðað við að það er ítrekað beðið um minnisblað skv. heimild 51. gr.
Ertu þá að segja að stjórnvöld ætli að hætta að skila minnisblöðum sem beðið er um í krafti 51. gr (þriðjungur nefndar) út af því að það eru ekki gögn eða upplýsingar?

… ég hlakka mikið til þess að heyra lögfræðilega útúrsnúninga um þetta.“

En aldrei komu lögfræðilegu útúrsnúningarnir frá Brynjari því hann virðist hafa kúplað sig út úr rifrildunum. Skoðanabræður hans hins vegar mölduðu í móinn en það mun ekki vera rakið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -