2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Buff fagnar 20 árum með sögutónleikum

Hljómsveitin Buff er 20 ára í ár og fagnar áfanganum með þrennum tónleikum þar sem hljómsveitarmeðlimir ætla að spila eigin tónlist auk þess að rifja upp skemmtilegar sögur og viðburði frá 20 ára ferli.

„Okkur fannst ekki hægt annað en fagna þessum tímamótum á einhvern hátt og fannst við hæfi að gera það með því að spila okkar tónlist. Það var eiginlega ómögulegt að fara yfir 20 ára tímapunktinn án þess að gera nokkurn skapaðan hlut,“ segir Pétur Örn Guðmundsson. „Við höfum haldið útgáfutónleika fyrir plöturnar okkar, en þar fyrir utan höfum við ekki spilað eigin tónlist í því formi sem við ætlum að gera núna. Þrennir tónleikar eru ákveðnir en gætu orðið fleiri, við erum að skoða fleiri staði.“

Hljómsveitin Buff var stofnuð í tengslum við stofnun sjónvarpsstöðvarinnar SkjásEins. „Við vorum beðnir um að vera húsbandið í spjallþættinum Axel og félagar, sem Axel Axelsson, útvarpsmaður og fjölmiðlamaður, sá um. Svo tók Gunni Helga við í smátíma, og við vorum Gunni og félagar, en enduðum svo sem Björn og félagar, þegar Björn Jörundur Friðbjörnsson tók við þættinum,“ segir Pétur Örn. „Við vorum þarna í tvö til þrjú ár sirka og spiluðum svona inn og út úr auglýsingahléum með einhver stef á kassagítar, ekki okkar eigin tónlist. Svo vorum við líka með einn grínskets í hverjum þætti.“

Plöturnar, böll og mannabreytingar

Buff hefur gefið út þrjár plötur með eigin lögum, sú fyrsta kom út árið 2003. „Mörg laganna á henni voru gömul lög eftir mig síðan í menntaskóla,“ segir Pétur Örn. Þegar næsta plata kom út árið 2005 höfðu orðið nokkrar mannabreytingar á sveitinni. Bergur Þór Geirsson, Villi Goði og Matti Matt voru hættir. „Í sömu viku og Buff var að fara af stað sem ballhljómsveit fékk Matti boð um að fara í Papana, sem hann þáði og allir vita hvernig það gekk. Þannig að ég ákvað bara að syngja meira sjálfur.“ Þriðja platan var tekin upp í Danmörku og kom út árið 2008. „Það var rosa gaman og sú plata innihélt mörg lög sem gerðu það bara mjög gott og voru talsvert mikið spiluð og lyftu sveitinni á hærra stig.“

„Maður fær gamlan gleðifiðring og áttar sig á af hverju maður ákvað að verða músíkant.“

AUGLÝSING


Í rúm tvö ár var sveitin alla sunnudaga á Glaumbar. „Það var fastur kjarni sem kom og hlustaði á okkur þar alla sunnudaga og við leyfðum fólki einfaldlega að velja lögin og vorum svo með grín á milli laga.“

Buff kom einnig fram í þáttunum Það var lagið, sem Hemmi Gunn heitinn stýrði og segir Pétur Örn að þeir hafi alltaf kallað hann pabba og hann þá syni sína. „Okkur þótti óskaplega vænt um hann og það fór svo vel á með okkur. Þættirnir voru rosaleg törn en gaman að vera í sjónvarpinu.“

Sex manna sveit

Í dag er Buff skipuð sex mönnum og þar af fimm lagahöfunum. „Það er hver snillingurinn þar á fætur öðrum. Hljómsveitin Buff hefur alltaf í raun verið tvær hljómsveitir, hljómsveitin sem spilar á böllum og svo hljómsveitin sem semur eigið efni og tekur upp. Við höfum líka tekið upp mörg lög sem hafa ekki komið út á plötu en hafa kannski komið út í einhverju formi.“

Meðlimir eru allir á fullu í öðrum verkerfnum. Pétur Örn og Einar Þór eru í Dúndurfréttum, Hannes og Haraldur eru í Dead Sea Apple. „Halli er gjörsamlega „over-qualified,“ hann er að útsetja fyrir Dúndurfréttir The Wall-tónleikana og Sinfó-tónleikana hjá Skálmöld. Hann er líka stórfenglegur lagahöfundur og er að gefa út sína aðra sólóplötu, sú fyrri fékk Íslensku tónlistarverðlaunin.“

Aðspurður segir Pétur Örn að von sé á nýrri tónlist en ekki er afráðið með nýja plötu. „Við erum að taka upp tvö lög sem koma út á næstu vikum og að minnsta kosti annað þeirra verður frumflutt á tónleikunum. Við erum allir rosalega spenntir fyrir þessu, bara eins og að vera í bílskúrnum í gamla daga, hitta strákana og búa til músík. Ástæðan fyrir því að maður fór í músík er sú að manni þótti gaman að semja og gera tónlist. Skemmtikraftahliðin er aukreitis og það sem maður hefur lifað á í gegnum tíðina.“

30 prósent sögustund

„Við ætlum að spila skemmtilega tónlist og segja líka alls konar sögur enda gengið á ýmsu á 20 árum og ýmsir skemmtilegir hlutir komið upp á. Þetta verður 70% músík og 30% sögustund,“ segir Pétur Örn. „Maður fær gamlan gleðifiðring og áttar sig á af hverju maður ákvað að verða músíkant, það skiptir máli að gleyma ekki upphafinu, hvað ýtti manni þangað sem maður er í dag. Það skiptir máli að hlúa að draumunum.“

Tónleikarnir fara fram í Bæjarbíói 25. október, Alþýðuhúsinu Vestmannaeyjum 26. október og á Græna hattinum Akureyri 2. nóvember. Miða má kaupa á midi.is.

 

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum