Covid-19 stoppar ekki Íslendingapartý á Spáni

Deila

- Auglýsing -

Íslendingar sem búsettir eru á Spáni blása til fagnaðar á morgun. Skemmtunin er auglýst á hópsíðu á Facebook og er hún sögð í anda verslunarmannahelgarinnar á Íslandi.

Á sama tíma og nærri öllum fyrirhuguðum dagskrárliðum hérlendis var aflýst um helgina gefst þáttakendum í fyrirhuguðu íslendingapartýi á Spáni kostur á að koma saman, borða, drekka og skemmta sér á Concierto veitingastaðnum á Playa Flamenca strandsvæðinu. Fjöldi skemmtiatriða er auglýstur þar sem finna má tónlistaratriði úr öllum áttum, töfrabrögð, happdrætti og ýmsar óvæntar uppákomur.

Elvar Másson tónlistarmaður auglýsir viðburðinn og aðspurður segist hann ekki hafa staðfestan fjölda yfir þá sem ætla að mæta í partýið. Hann tekur fram að hann reki ekki veitingastaðinn sem partýið fer fram á og að hann hafi engra hagsmuna að gæta hvað fagnaðinn varðar. „Tilgangur minn er einfaldlega að gefa Íslendingum tækifæri til að koma saman og skemmta sér. Satt að segja veit ég ekki hversu margir munu mæta. Ekkert er staðfest. Í fyrra mættu á fjórða hundrað manns á þjóðhátíðardaginn og troðfylltu húsið. Í dag eru aðstæður öðruvísi og mun minna umfang,“ segir Elvar.

„Við fengum ekki leyfi til að halda 17. júní hátíðlegan þetta árið og vildum bæta okkur það upp með því að bjóða Íslendingum að koma saman og skemmta okkur á hátíðinni sem fer fram á morgun. Töframaðurinn Graeme Mykal mun skemmta okkur í nokkra klukkutíma. Á meðan á því stendur mun íslensk tónlist, sem kalla mætti útilegulög hljóma. Strax að því loknu mun saxófónleikarinn Siggi Perez, sem lék meðal annars í hljómsveitinni Milljónamæringunum, leika listir sínar við undirleik. Már Elíson, fyrrum trommuleikari og söngvari í Upplyftingu, mun syngja þjóðþekkt lög við undirleik. Dúett sem ég er, No Limit, mun slá botninn í samkomuna og leika lög úr öllum áttum. Eigendur Concierto veitingastaðarins munu svo leysa heppna gesti út með gjöfum,“ segir Elvar.

- Advertisement -

Athugasemdir